Pekingsáttmálinn 20 ára

Frásögn af fundi kvennanefndar Sameinuðu Þjóðanna - New York 2015Fyrir 20 árum var boðað til fjórðu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, að þessu sinni í Peking í Kína. Þar var samþykkt yfirlýsing og aðgerðaáætlun í 12 köflum til að bæta stöðu kvenna í heiminum, eða Pekingsáttmálinn eins og ég kýs að kalla hann. Mikið vatn er til sjávar runnið síðan þá en vel hefur verið fylgst með framkvæmd sáttmálans. Kallað hefur verið eftir skýrslum aðildarríkjanna á fimm ára fresti og farið yfir málin á árlegum stórfundum sem skipulagðir eru af kvennanefnd SÞ (Commission on the Status of Women). Ýmis ný mál hafa bæst við frá 1995 eða orðið meira áberandi en þau voru þá. Þar má nefna áhrif loftslagsbreytinga á kynin, ofbeldi gegn konum á átakasvæðum, þúsaldarmarkmiðin og nú síðast uppgangur öfgahreyfinga og bókstafstrúarmanna sem beinlínis herja á konur. Verkefnin eru því ærin. Á sumum sviðum hefur þokast áfram, t.d. hvað varðar menntun kvenna, minni mæðra- og barnadauða og fleiri konur í áhrifastöðum. Á öðrum sviðum hefur lítt eða ekkert mjakast ef ekki hefur beinlínis orðið afturför. Þar má nefna fátækt, afleiðingar ófriðar á lífskjör kvenna, loftslagsbreytingar og gengdarlaust ofbeldi, mannrán og nauðganir víða um heim. Ofbeldið hefur tíðkast lengi en það verður sífellt grófara og eins og ein ræðukvenna sem ég hlustaði á sagði: „Við erum að berjast við andlitslausa óvini sem ráða yfir mikilli tækni, eru vel skipulagðir á netinu og beita skefjalausu ofbeldi“. Þar átti hún við ISIS og Boko Haram. Til að gera langa sögu stutta eru mjög vaxandi áhyggjur af uppgangi hvers kyns öfgaafla um allan heim. Réttindi kvenna eru eitur í þeirra beinum og því miður virðist víða um bakslag að ræða.
Konur á flótta

Dagana 9.-20. mars var haldinn fundur CSW þar sem 20 ára afmæli Pekingsáttmálans var í forgrunni um leið og farið var yfir stöðu mála. Undirrituð sat fundinn fyrri vikuna og hér á eftir ætla ég að greina frá því helsta sem ég sá og heyrði þessa annasömu daga í New York. Þeir voru svo þéttsetnir að ég komst ekki einu sinni  í óperuna sem er þó mínar ær og kýr. 

Fundurinn byrjaði með formlegri opnun þar sem Ban Ki Moon aðalritari SÞ og frú Punzibe framkvæmdastýra UN Women voru meðal ræðumanna. Síðan hófust ræðuhöld aðildarríkjanna en það getur oft verið mjög fróðlegt að hlusta á þær, heyra á hvað ríkin leggja áherslu og velta fyrir sér hvað sé nú að marka fagurgalann sem streymir frá sumum þeirra. Aðrir eru heiðarlegir, kalla eftir stuðningi, t.d. sagði fulltrúi Íraks að þjóðir heims hefðu svikið konur í Írak sem sitja í súpu óreiðu og átaka. Ráðherra frá Úkraínu lýsti konum á flótta í landi sínu og sagði að enginn hefði trúað því fyrir 20 árum að Evrópuríkið Úkraína myndi eiga í innanlandsátökum árið 2015. Í landinu eru nú um ein milljón flóttamanna, tveir þriðju hlutar þeirra eru konur.

Til hliðar við ræður ríkjanna eru ótal viðburðir á dagskrá, ýmist skipulagðir af ríkjum, félagasamtökum eða stofnunum SÞ, oft í samstarfi margra aðila. Fyrsti hliðarviðburðurinn sem ég sótti var fundur norrænna lögreglukvenna en þær eru í sérstökum samtökum ásamt lögreglukonum frá Eystrasaltslöndunum. Berglind Eyjólfsdóttir lögreglukona stjórnaði fundinum. Fundurinn fjallaði um baráttuna gegn mansali, bæði hvað varðar kynlífsþrælkun og misnotkun á vinnuafli. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var meðal ræðukvenna og setti umræðuna í alþjóðlegt samhengi og við vinnu UN Women. Á fundinum kom fram að mikið hefur verið um misnotkun á au pair stúlkum í Noregi og hefur verið stofnuð sérstök miðstöð þeim til aðstoðar. Mikið er um undirboð á vinnumarkaði þar sem níðst er á innfluttu vinnuafli eða innflytjendum og hælisleitendum. Kynlífsþrælkunin er svo kapítuli fyrir sig en hún hefur verið mikið og erfitt vandamál á Norðurlöndunum. Þar hjálpar auðvitað að búið er að banna kaup á konum í Svíþjóð, Íslandi og Noregi en glæpasamtök láta ekki að sér hæða. Norræna ráðherranefndin er að vinna að nýrri stefnu til að kveða mansalið niður. 

Yfirráð yfir eigin líkama

Næsti fundur sem ég sótti var á vegum Svía og fjallaði um kynheilbrigði kvenna. Það er eitt mesta hitamál kynjaumræðunnar, því mörg ríki vilja ekki viðurkenna rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Þar má nefna Vatíkanið sem stýrir kaþólsku kirkjunni um allan heim, ríki múslima og lönd þar sem hörð hægri stefna er ríkjandi (t.d. Ísrael). Rétturinn til kynheilbrigðis (e. reproductive rights and sexual rights) snúast í grunninn um yfirráð yfir eigin líkama og eins og einn fyrirlesara sagði: „það hvar, hvenær og með hverjum fólk á börn eða á ekki börn“ (eða stundar kynlíf). Réttur karla hvað þetta varðar hefur aldrei verið dreginn í efa en þegar kemur að konum vill feðraveldið svo sannarlega stjórna líkömum þeirra. Pekingsáttmálinn kveður á um rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama en það er svo langt í frá að sá réttur sé virtur. Afleiðingarnar eru m.a. limlestingar á kynfærum stúlkna, barnagiftingar, nauðungarhjónabönd, ótímabærar þunganir, barna- og mæðradauði, fátækt og menntunarskortur að ógleymdu kynferðisofbeldi sem konur og stúlkur eru beittar. Á þessum fundi flutti formaður kvenfélagasambands Egyptalands erindi og var mjög skelegg. Hún lýsti því hvernig Bræðralag múslima, sem vann kosningar í landi hennar eftir að Mubarak var steypt af stóli, var byrjað að afnema réttindi kvenna áður en herinn greip inn í og kom bræðrunum frá völdum. Þeir lækkuðu giftingaraldur niður í 9 ár og hvöttu til barnagiftinga. Fæðingartíðni er komin upp fyrir 3 í Egyptalandi en var 2,1 áður en allt fór á annan endann. Núverandi stjórnvöld eru að hefja fræðsluherferð til að snúa dæminu við. Mikill barnafjöldi er ávísun á vaxandi fátækt. Þá hafa limlestingar á kynfærum kvenna vaxið eftir að reynt hafði verið um árabil að útrýma því hrikalega ofbeldi. Þessi ágæta kona sagði að það að ráða yfir eigin líkama væri að ráða eigin framtíð. Hún kallaði á félagasamtök um allan heim að rísa upp til varnar réttindum kvenna til kynheilbrigðis.  

Það er þörf á byltingu!

Þá var röðin komin að fundi um loftslagsmálin þar sem Mary Robinson fyrrv. forseti Írlands var meðal ræðukvenna (lítið var um karla á þessum fundum). Meðal þess sem fram kom var að ekkert ógnaði mannkyninu jafn mikið og loftslagsbreytingar. Við erum fyrsta kynslóðin sem gerir sér grein fyrir þeim breytingum sem eru að verða og það er á okkar ábyrgð að bregðast við. Rætt var um nauðsyn þess að kynjasjónarhornið væri alls staðar með í umræðunni. Lakshimi Puri aðstoðarframkvæmdastýra UN Women sagði að það væri kominn tími til að konur tækju „loftslagsbastilluna“. Þar vísaði hún til frönsku byltingarinnar 1789 þegar íbúar Parísar réðust á hið illræmda fangelsi Bastilluna og reif til grunna. Það er sem sagt þörf á byltingu!

Þá var það íslenskur hliðarviðburður þar sem fulltrúar kvennahreyfinga voru í miklu stuði. Eygló Harðardóttir ávarpaði fundinn og sérstakur gestur fundarins Gertrud Åström sagði frá Nordisk forum. Guðrún Jónsdóttir frá Stígamótum fjallaði um baráttu íslenskra kvenna undanfarin ár, m.a. með stórfundum 24. október 2005 og 2010 og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir framhaldsskólakennari sagði frá kennslu í kynjafræðum og áhrifum hennar  á viðhorf nemenda. Það er leiðin til kynjabyltingarinnar sem svo mikil þörf er á. Dr. Irma Erlingsdóttir sagði frá jafnréttisskóla SÞ, GEST, sem staðsettur er í HÍ en þar er fólki frá þróunarlöndum boðið upp á kennslu og fræðslu um kynjajafnrétti. Fundurinn fékk afar góðar viðtökur enda hressar konur á ferð.  

Konur sameinist gegn öfgaöflum 

Áhersla á jafnréttismál fer mjög eftir því hverjir sitja í stjórn. Á þessum fundi varð Frakkland allt í einu mjög áberandi með flotta hliðarviðburði. Það er greinilegt að stjórn Holland er að taka sér tak. Ég sótti viðburð um uppgang öfgaafla á vegum Frakka. Þar sagði Nicole Ameline (hún er formaður CEDAW nefndarinnar) að tími væri kominn til að konur sameinist gegn trúarhópum sem hafa það á stefnuskrá sinni að svipta konur réttindum og kúga þær. Þar mætti beita CEDAW sáttmálanum og krefjast þess að ríki virði hann. Það væri ógnvænlegt hvernig litið væri á konur víða um heim og tók sem dæmi að þegar karlar væru beittir ofbeldi væri það kallað pyntingar en þegar konur ættu í hlut væri það sagt hluti af menningunni. Ofbeldi gegn konum væri viðtekið. Það þarf að upplýsa stúlkur um allan heim um réttindi þeirra. Pascale Boistard jafnréttisráðherra Frakklands ræddi um ISIS og Boko Haram, öfgasamtök sem svipta konur réttindum sérstaklega þeim sem snúa að kynheilbrigði þeirra með skelfilegum afleiðingum. Víða reyna konur að verjast eins og þær geta, t.d. konur í Túnis sem eru svo heppnar að réttindi þeirra eru tilgreind í stjórnarskránni. Það refsileysi sem ríkir er óþolandi. Menn komast upp með nauðganir, mansal, mannrán og alls kyns glæpi gegn konum án þess að vera refsað. Ráðin við þessari þróun eru aukin menntun, samtal milli menningarheima og þar þarf að beita netinu á skynsamlegan hátt. Þá var röðin komin að Lucy Freeman sem hefur unnið fyrir Amnesty International í Nígeríu. Þar eiga sér stað hroðaleg mannréttindabrot ekki síst gegn konum. Þúsundum kvenna hefur verið rænt, við heyrum bara af einstaka dæmum. Kristið fólk er í sérstakri hættu og hefur fjöldi presta verið tekinn af lífi. Um ein milljón flóttamanna eru í Nígeríu og það skapast mikil vandamál í flóttamannabúðum. Þar gengur illa að tryggja öryggi kvenna og barna. Heilbrigðiskerfið er í lamasessi, vatn af skornum skammti og aðstæður allar hinar erfiðustu. Við slíkan aðbúnað blómstra glæpir og ofbeldi. Því er mikilvægt að konur komi alls staðar að ákvarðanatöku, t.d. við að skipuleggja flóttamannabúðir, menn komist ekki upp með gróft ofbeldi án refsinga og það þarf að verja það fólk sem stundar hjálparstarf. Það er líka í stórhættu. 

Indland í sviðsljósinu

Næsta dag hlustaði ég á Rahida Manjoo ávarpa þjóðir heims í sal allsherjarþingsins. Hún hefur verið sérlegur sendifulltrúi SÞ hvað varðar ofbeldi gegn konum. Hún er að láta af störfum en sagði m.a. frá því að hún hafi ætlað að heimsækja Palestínu til að kanna ástandið þar eftir átökin miklu síðast liðið sumar. Ísraelar neituðu henni um vegabréfsáritun þannig að hún komst ekki. Hún lagði áherslu á að SÞ léti Ísrael ekki komast upp með svona vinnubrögð, það væri verið að koma í veg fyrir störf þeirra sem vinna að mannréttindum.  

Eins og sést á þessari frásögn var mikið fjallað um ofbeldi. Ég fór á enn einn fundinn um ofbeldi en hann var á vegum UN Women. Þar voru Indverjar í sviðsljósinu, þ.e. fólk sem berst gegn gríðarlega útbreiddu ofbeldi gegn konum. Nauðganir á götum úti í Indlandi hafa stórskaðað ímynd landsins, svo ekki sé nú minnst á þjáningarnar og reiðina sem blossað hefur upp. Á þessum fundi var indverski söngvarinn Farhan Akhtar sem stofnað hefur samtökin Karlar gegn nauðgunum og misrétti (Men against rape and discrimination) og fulltrúi félagasamtaka sem berjast gegn kynbundnu ofbeldi. Michaela Cohl ráðherra sagði frá aðgerðum í Ástralíu gegn ofbeldi en þar hefur verið tekið fast á málum með öflugum aðgerðaáætlunum. Nokkuð sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar.

Ég gæti skrifað hér endalaust um það sem fram kom í ræðum ríkjanna en ætla hér að lokum að nefna tvo hliðarviðburði sem ég sótti. Sá fyrri var árlegt málþing í minningu Helvi Sipilä sem fyrst kvenna varð aðstoðarframkvæmdastjóri SÞ og átti mikinn þátt í að koma kvennaárinu á 1975 sem og kvennaáratug SÞ. Finnar rækta minningu hennar enda mikil merkiskona. Á þessu ári eru liðin 100 ár frá fæðingu hennar. Málþingið fjallaði um konur, völd og efnahagsmál. Þar kom fram að Sauli Niinistö, forseti Finnlands, er genginn í hóp leiðtoga sem styðja HeForShe herferð UN Women. Ekki sé ég nú forseta Íslands fyrir mér í þeim hópi.

Manneskjur, umönnun og sjálfbærni í öndvegi

Dr. Pävi Mattila aðalritari Finnish League for Human Rights var skelegg og sagði að allt of lítil áhersla væri lögð á efnahagslega stöðu kvenna í umræðunni. Víða stæðu konur mjög illa vegna efnahagskreppunnar, t.d. í Grikklandi. Það þyrfti sífellt að minna stofnanir og fyrirtæki á að það gilda mannréttindi í löndum okkar. Hún spurði hvernig það mátti gerast að lítill hópur bankamanna og fjárfesta hafi getað kippt grunninum undan þúsundum manna með braski sínu og þar með svipt fólk mannréttindum? Góð og mikilvæg spurning. Þá benti hún á hve valdið er sífellt að færast lengra frá kjörnum fulltrúum til alþjóðasamsteypa sem stjórnað er af körlum. Langflestar konur í heiminum búa við efnahagslegt óöryggi. En lítum okkur nær sagði Mattila. Hvað um minnihlutahópana í löndum okkar Evrópubúa? Það þarf að kalla efnahagslífið til ábyrgðar gagnvart kjörum fólks og koma femínískum sjónarmiðum að. Góðu fréttirnar eru þær að konur eru aftur komnar út á göturnar til að mótmæla og krefjast réttar síns.

Dr. Gloria Ramirez frá Mexíkó flutti afar athyglisvert erindi um femíníska hagfræði. Hún og félagar hennar eru að smíða nýtt femínískt efnahagsmódel sem setur sjálfbærni, umönnun og viðgang lífsins (reproduction) í öndvegi. Hún benti á að kapítalisminn byggist annars vegar á framleiðslu (production) sem fram fer á opinbera sviðinu, hins vegar á ólaunaða kerfinu á einkasviðinu (heimilunum þar sem annast er um börnin og körlum þjónað). Ólaunuð vinna kvenna er kapítalismanum algjör nauðsyn. Í þessu kerfi er gengið út frá kynskiptingu vinnunnar bæði á opinbera og einkasviðinu og þetta kerfi byggist á sívaxandi gróða en ekki sjálfbærni. Þetta er kerfi sem þjónar körlum og viðheldur valdi þeirra en er að eyðileggja jörðina. Því þarf að umbylta kerfinu, setja manneskjuna, lífsgæði hennar og umönnun í forgang og byggja upp efnahagslíf sem byggist á sjálfbærni til að bjarga jörðinni. Fjármagnið á að þjóna þessu tvennu en ekki öfugt. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig þessar kenningar þróast áfram. 

Síðasti fundurinn sem ég sótti fjallaði um búsetuumhverfi okkar (habitat) og skipulag þess út frá kynjasjónarhorni. Efnið tengist verkefni sem heitir Safe cities. Víða um heim hafa karlar lagt undir sig opinbera rýmið og þar mega og geta konur ekki gengið um óáreittar, verða iðulega fyrir ofbeldi. Einn fyrirlesara sagði að opinbera rýmið væri rými lýðræðisins. Þar fara fram fundir, mótmæli, skemmtanir og þar ræðist fólk við. Það á að tilheyra báðum kynjum. Samgöngur, skipulag borga en síðast en ekki síst viðhorf til kvenna hafa mikil áhrif á lífsgæði þeirra í borgum heims. Það þarf að gera borgirnar öruggar og konur þurfa að eignast götur og torg til jafns við karla.

Þar með læt ég staðar numið en aðrir þátttakendur hafa eflaust miklu við að bæta frá öðrum viðburðum sem ég missti af, t.d. norræna ráðherrafundinum en þar var svo troðfullt að ég varð frá að hverfa. 

Kristín Ástgeirsdóttir.