Réttindabarátta kvenna og jafnrétti kynja til framtíðar

Eygló Harðardóttir skrifar

Réttindabarátta kvenna og jafnrétti kynja til framtíðar

Íslenskar konur, til hamingju með kvenréttindadaginn. Eftir tvö ár verður haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna til Alþingis, það er að segja kvenna sem orðnar voru 40 ára og eldri.Einmitt þessa dagana eru Norðmenn að halda upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna en munurinn er sá að hjá þeim fengu allar konur sem uppfylltu sett skilyrði kosningarétt 2013. Alltaf stingur 40 ára ákvæðið jafn mikið í augu og það gerði það líka árið 1915. Bríet Bjarnhéðinsdóttir skrifaði að Íslendingar yrðu að athlægi um allan heim vegna þessa furðulega ákvæðis en kosningaréttur karla miðaðist við 25 ár. Kosningaaldurinn átti svo að lækka á hverju ári um eitt ár þannig að jafnrétti yrði náð árið 1930. Breytingar á stjórnarskránni sem gengu í gildi 1920 urðu hins vegar til þess að kosningarétturinn var jafnaður að kröfu Dana. Hér á landi var mikil tregða við að veita konum full réttindi enda voru þær til alls vísar eins og þær sýndu með kvennaframboði til Alþingis árið 1922 er fyrsta konan var kjörin á þing hér á landi.

Norska þingið minntist áfangans 1913 með athöfn í þinginu 11. júní þar sem áréttað var að þessi viðburður hefði verið stærsta skref Norðmanna í lýðræðisátt. Þrátt fyrir það væri enn langt í land sagði forsætisráðherrann Jens Stoltenberg.

Við getum tekið undir orð norska forsætisráðherrans á 98 ára afmæli kosningaréttar kvenna hér á landi. Hlutur kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum þarf að aukast, efla þarf efnahagsleg völd kvenna en lög um kvóta í stjórnum hlutafélaga, einkahlutafélaga og stjórna lífeyrissjóða sem ganga í gildi 1. september næstkomandi munu hafa mikil áhrif í þá átt. Brýnt er að fylgjast vel með þróun mála en þegar er unnið að rannsóknum á þessu sviði. Enn blasir launamisrétti kynjanna við en einnig þar er unnið að aðgerðum í kjölfar tillagna frá framkvæmdanefnd sem skipuð var í samræmi við framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum þar á meðal útfærslu og kynningu á jafnlaunastaðlinum sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld komu sér saman um á síðasta ári. Íslenskur vinnumarkaður er enn mjög kynskiptur en einmitt það er ein orsökin fyrir þeim launamun sem hér er að finna milli kvenna og karla. Við þurfum að grípa til markvissra aðgerða til að breyta náms- og starfsvali, hvetja stráka til að fara í umönnunarstörf og stelpur í tækni- og iðngreinar. Markmiðið er að einstaklingarnir blómstri og njót hæfileika sinna í stað þess að fylgja hefðbundnum staðalmyndum og venjum. Það væri samfélaginu öllu til góðs.

Það er margt fleira sem huga þarf að á vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka kvenna er einhver hin mesta innan OECD ríkjanna og sífellt fleiri konur vinna fullt starf. Íslenskir karlar hafa löngum unnið mikið en heldur hefur dregið úr vinnuálagi þeirra undanfarin ár. Það gefur kost á betri samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu, jafnrar þátttöku í uppeldi barna og heimilisstörfum sem hlýtur að vera markmiðið í jafnréttis- og lýðræðisþjóðfélagi. Hvernig gengur fólki að samræma vinnu og einkalíf? Hvað má betur fara? Nýlega skilaði starfshópur sem í sátu m.a. fulltrúar atvinnulífsins af sér skýrslu til ráðherra um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu. Þar er að finna margar spennandi tillögur sem þarf að kynna og ræða á vinnustöðum um allt land. Í framhaldi af því þarf að móta nýja fjölskyldustefnu sem nær til barna, fullorðinna, einkalífs og atvinnu sem og þjónustu við fjölskyldurnar í landinu. Aðgangur að leikskólum, góðir grunnskólar og öflugt menntakerfi er jafnréttistæki sem þarf að varðveita og efla. Þá þarf að endurreisa fæðingarorlofskerfið sem er öflugt jafnréttistæki sem hefur án efa bætt stöðu bæði kvenna og karla á vinnumarkaði.

Enn eitt sem huga þarf betur að er þátttaka karla í jafnréttisumræðunni. Nú liggur fyrir skýrsla svokallaðs karlahóps sem fór yfir stöðu karla hér á landi og setti fram tillögur um ýmis viðfangsefni, sem m.a. snúa að heilsu karla, þátttöku í heimilisstörfum, hefðbundnu starfsvali, ofbeldi sem karlar beita og fleira. Þátttaka karla og ýmislegt sem snýr að þeim verður til umræðu á næsta ári þegar hér verður haldin norræn karlaráðstefna á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Síðast en ekki síst þurfum við að beina sjónum enn betur að kynbundnu ofbeldi gegn konum og börnum. Á undanförnum mánuðum hefur samfélag okkar horfst í augu við hræðilega kynferðismisnotkun á börnum og nánast í hverri viku erum við minnt á rótgróið ofbeldi gegn konum og börnum í dómum sem falla. Það þarf að vinna nýja aðgerðaáætlun gegn ofbeldinu, beina sjónum að gerendum og stórauka þekkingu almennings á orsökum og afleiðingum kynbundins ofbeldis. Við verðum að útrýma ofbeldismenningunni, líka ofbeldi karla gegn körlum.

Við skulum þó ekki gleyma því að þrátt fyrir að víða sé verk að vinna höfum við náð miklum árangri á sviði kynjajafnréttis hér á landi. Lagaleg réttindi hafa verið tryggð á nánast öllum sviðum, félagsleg staða kvenna er mun betri hér á landi en víðast hvar annarsstaðar og hér eigum við velferðarkerfi sem styður fjölskyldur og einstaklinga í lífi og starfi sem og öflugt atvinnulíf. Það er því ástæða til að horfa björtum augum í átt til 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna eftir tvö ár. Notum 19. júní til að horfa til baka og minnast brautryðjendanna sem við eigum svo margt að þakka. Nýtum daginn einnig til að horfa fram á við og heita því að standa okkur í að vinna að jafnrétti fyrir alla.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 19. júní 2013.