Setjum konur í fyrsta sæti...

Arnfríður Aðalsteinsdóttir skrifar

Setjum konur í fyrsta sæti...

Í dag er hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á Íslandi um 36% og hefur aukist hægt og bítandi síðastliðna hálfa öld. Konur eru í meirihluta í sveitarstjórnum í tíu sveitarfélögum á landinu en í fimm sveitarfélögum er engin kona meðal sveitarstjórnarmanna.Þá má geta þess að einungis fjórðungur oddvita sveitarstjórna eru konur og karlar voru 78% þeirra sem skipuðu efstu sæti framboðslistanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006. Ein meginástæða þess að konum hefur gengið hægt að rétta hlut sinn í sveitastjórnum er sú að þær skipa almennt ekki fyrsta sæti á framboðslistum.

Þrátt fyrir að hér á landi hafi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla verið í gildi í rúm þrjátíu ár er enn langt í land hvað raunverulegt jafnrétti varðar. Jafnrétti kynjanna þýðir nefnilega að kynin séu jafn sjáanleg í samfélaginu, jafn valdamikil og taki þátt í opinberu og einkalífi í jöfnum hlutföllum. Konur eiga jú að hafa sömu tækifæri og karlar til að móta samfélagið sem þær búa í, - ekki satt?

Við vitum öll að veruleikinn er ekki svona. Verulega hallar á konur þegar kemur að valda- og virðingastöðum og þegar umönnunar- og uppeldisstörf eru skoðuð hallar á karla. Staðreyndirnar tala sínu máli. Í greinagerð starfshóps um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum kemur fram að karlar eru í meirihluta í sveitastjórnum og því minni sem sveitarfélögin eru því erfiðara eiga konur uppdráttar. Víða í dreifbýlinu eru það því karlarnir sem taka ákvarðanir er snerta sveitarfélagið og þá um leið íbúa þess.

Smærri sveitarfélög byggja mörg hver afkomu sína á hefðbundnum frumvinnslugreinum eins og landbúnaði og sjávarútvegi. Strákarnir feta í fótspor feðra sinna, þeir taka við búinu eða fara til sjós. Minna er hins vegar um störf sem höfða til stelpnanna og kynjasamþættingar er ekki gætt við stefnumótun og ákvarðanatöku í sveitarfélaginu. Í þessum karllægu samfélögum er hættan sú að sjónarmið kvenna fái minna vægi en sjónarmið karla. Þetta getur valdið því að konurnar finna sig ekki í samfélaginu og leita annað.

Núna er því tækifæri, þegar styttist í sveitarstjórnarkosningar, að gera bragarbót og vinna ötullega að því að fjölga konum í sveitarstjórnum. Kynin eiga að hafa sömu tækifæri og vald til að móta samfélag sitt og eigið líf.

Stjórnmálaflokkarnir og framboðin bera ábyrgð á kynjahlutföllum á framboðslistunum sem boðnir verða fram í komandi sveitarstjórnarkosningum. Það er á ábyrgð framboðanna og okkar sem kjósum í prófkjörunum að jafna hlut kynjanna í sveitarstjórnum.

Hvetjum og styðjum konur til þátttöku í sveitarstjórnum, - setjum konur í fyrsta sæti.