Setningarávarp Jafnréttisþings 2015

Fanný Gunnarsdóttir skrifar

Setningarávarp Jafnréttisþings 2015

Ég vil byrja á því að bjóða ykkur öll hjartanlega, ráðherra jafnréttismála, þingstjóra, vore gode gæster fra Sverge, Anne Serner og María Edström - og ykkur öll sem takið þátt jafnréttisþingi 2015. 


Ég vil lýsa yfir ánægju minni með góða þátttöku á þessu jafnréttisþingi. Í 9.gr.jafnréttislaga stendur að Jafnréttisráð skal undirbúa jafnréttisþing í samráði við ráðherra og leggja fyrir þingið skýrslu um störf sín en skýrsluna má finna í þinggögnum. Það var mjög ánægjulegt að fá tækifæri til að koma að undirbúning þingsins, vinna með góðu fagfólki, sjá dagskrána mótast og taka á sig endanlega mynd.
Jafnréttisþing er samráðs- og samtalsvettvangur stjórnvalda og almennings.  Á þingi sem þessu gefst öllum þeim sem áhuga hafa tækifæri á að koma skoðunum sínum og áherslum á framfæri og þar með hafa áhrif á stefnumótun í jafnréttismálum.

Þau málefni sem í dag verða í brennidepli eru kynlegar myndir- ólíkar birtingarmyndir kynjanna á opinberum vettvangi.

Þetta málefni er hluti af lífi okkar í mannheimum og við megum ekki skorast undan að kynna okkur málin, taka afstöðu og bregðast við.  Líf okkar allra er samofið því efni sem rennur fram hjá augum okkar og eyrum eftir ólíkum leiðum en það er ómögulegt fyrir hvern og einn að hafa yfirsýn yfir allt það efni sem miðlað er daglega. Því er ábyrgð þeirra mikil sem hafa völd eða tök á að velja það efni sem streymir til almennings. Einnig verður löggjafinn að setja skýrar leikreglur og eftirlitsaðilar að sinna sínu hlutverki.

En það er í raun á ábyrgð okkar allra að leggja okkur fram um að hafa vakandi auga og láta í okkur heyra ef okkur finnst brotið á jafnrétti kynjanna. Vekja athygli á kynjahalla í fjölmiðlum, leggja okkar að mörkum við að mótmæla ofbeldi – í hvaða formi sem það birtist. 
Eins og áður segir fylgir því mikil ábyrgð að hafa völd eða áhrif þegar kemur að því að velja það efni sem fjölmiðlar dreifa til okkar neitenda.  Sama má segja um mótun starfsmannastefnu, koma að mannaráðningum og valddreifingu innan fjölmiðlafyrirtækja. 

Það er mín upplifum að við sjáum í fjölmiðlum kynjaðar staðalmyndir, valdahalla og hatursorðræðu, sérstaklega í samfélagsmiðlum. Strákar og stelpur, frá unga aldri, komast ekki hjá því að upplifa ofbeldi í ólíkum myndum. Þegar horft er til birtingarmynda ofbeldis sjáum við að það hallar á konur, þær eru þolendur, standa ekki jafnfætis körlum, eru oftar en ekki áhrifalausar um eigið líf og þurfa að sitja undir neikvæðri orðræðu sem fyrst og fremst tekur mið af kyni þeirra. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um konur og klámiðnaðinn – og aðgengi að klámi á netinu. Það er hörmuleg staðreynd að lesa um það að á Íslandi eru skráð tugir mála þar sem börn eru gerendur í kynferðisofbeldismálum og athafnir þeirra litaðar af klámáhorfi að sögn þeirra sem þekkja til mála.   Hver verða viðhorf þessara barna til kynlífs og ofbeldis þegar þau vaxa úr grasi? Verða hugtökin jafnrétti og jafnræði þeim fjarlæg og þar með ekki hluti af þeirra daglega lífi?

Ég get ekki neitað því að ég hef miklar áhyggjur af börnum og unglingum sem alast upp við viðvarandi kynjaðar staðalmyndir, hatursfulla umræðu og ofbeldi t.d. í kvikmyndum, tölvuleikjum, auglýsingum tónlistarmyndböndum og jafnvel í fréttatímum.
Við heyrum af því að konur í stétt frétta- eða fjölmiðlamanna fá hótanir um misþyrmingar, konur í stjórnmálum sitja undir hatursorðræðu á samfélagsmiðlum og sama má segja um konur sem hafa haslað sér völl í tölvuleikjaheiminu. 

Við lesum frekar athugasemdir um konur en karla á samfélagsmiðlum þar sem þær eru lítillækkaðar, þeim hótað, sett út á útlit þeirra, komið inn á kynferði þeirra, kynferðislegar lýsingar og skírskotanir. 

Konur í kvikmyndaiðnaði hafa bent á að verulega hallar á þær þegar kemur að styrkjum þegar framleiða á kvikmyndir í fullri lengd. Þær eru frekar í stuttmynda- og fræðslumyndagerð. Þessu þarf auðvitað að breyta, hvetja konur til dáða og láta í sér heyra. 

Við tölum mikið um nauðsyn þess að draga úr kynjuðu náms- og starfsvali og þá skipta fyrirmyndir miklu máli. Hvað upplifa íslensk ungmenni þegar þau horfa á sjónvarp, hlusta á útvarp, lesa dagblöð eða tímarit? Hverjir stjórna þáttum og leiða umræðuna – og skiptir þá máli um hvað þættirnir eru? Hlustum við á karla stjórna í morgunútvarpi, síðdegisútvarpi, menningarþáttum, spjallþáttum í sjónvarpi og útvarpi, skemmtiþáttum og svo mætti lengi telja. Bregður konum aðeins fyrir í aukahlutverkum? 

Eins og heyra má vaknar hjá mér fjöldinn allur af spurningum.  En ég treysti því að í dag fáum við svörin við flestum þeirra og fjölmörgum fleiri brennandi spurningum og álitamálum.
En við vitum jafnframt að hefðbundnir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar hafa mikla möguleika á að skapa vettvang fyrir frjóa jafnréttisumræðu.   Því má ekki gleyma að horfa á það jákvæða sem rekja má til hugmynda sem fengið hafa hljómgrunn eða vængi á samfélagsmiðlum. Ungt fólk, - fyrst og fremst ungar konur - sögðu stopp, hingað og ekki lengra. Á netinu var hafin barátta gegn hvers konar þöggun en aðgerðarsinnar færðu baráttuna út á götu og „áreittu“ svo eftir var tekið. Hér vil ég sérstaklega nefna aðgerðir til að af klámvæða brjóst kvenna og allar þær frásagnir sem konur deildu á netinu um reynslu eða upplifun sína af kynferðislegri misnotkun – og þá umræðu og athygli sem þessi skrif hafa fengið. Ég er viss um að rekja má hugmyndir og framsetningu stelpnanna í Hagaskóla sem unnu Skrekk nú á dögunum m.a. til umræðu og umfjöllunar í fjölmiðlum um ójafna stöðu kynjanna.

Fh. Jafnréttisráðs vona ég síðan að við öll sem hér erum njótum dagsins og þeirrar einstaklega áhugaverðu dagskrár sem framundan er. Með þessum orðum segi ég jafnréttisþing 2015 sett.