Skiptir kyn máli?

Arnfríður Aðalsteinsdóttir skrifar

Skiptir kyn máli?

Í starfi mínu á Jafnréttisstofu hef ég heimsótt fjölmarga leik- og grunnskóla og spjallað við nemendur og starfsfólk um jafnrétti kynjanna. Í þeim heimsóknum velti ég gjarnan upp þeirri spurningu hvort kyn skipti máli. Flestir nemendur sem ég hef hitt hafa verið á þeirri skoðun að það skipti engu máli, a.m.k. ekki á Íslandi, hvort maður fæðist strákur eða stelpa. Öðru máli, segja þau, gæti gengt um önnur lönd, - þar gæti kyn skipt máli. Í framhaldinu bið ég nemendur gjarnan að segja mér hvað stelpur geri og hvað strákar geri og ekki stendur á svari. Strákar leika sér jú með bíla, eru í tölvu- og hasarleikjum með sverð og byssur en stelpur leika sér með dúkkur, eru mömmur og prinsessur, perla og punta sig.
Niðurstöðurnar koma heim og saman við jólabækur litlu barnanna, þessar bleiku og bláu, sem vöktu verðskuldaða eða óverðskuldaða athygli í lok árs 2012 ef ég man rétt. Bækurnar gengu m.a. út á að sýna börnum, ca. fjögurra til sex ára, að allir hefðu sín hlutverk í lífinu. Hlutverk stelpna væri t.d. að skúra, skrúbba og bóna, baka og elda, - þ.e. að sinna heimilinu á meðan strákarnir sigruðu heiminn. Stelpur eiga jú að vera litlar og sætar en strákar stórir og sterkir. Þarna má sjá staðalmyndir kynjanna í sinni ýktustu mynd, - strákar sem gerendur í leik og starfi, stelpur; sópa, baka, ryksuga og taka til. Þessar staðalmyndirnar hafa gríðarleg áhrif á sjálfsmynd okkar, það hver við erum og hvaða möguleika við teljum okkur hafa í lífinu sem strákur eða stelpa / karl eða kona. Staðalmyndirnar geta þannig takmarkað frelsi okkar til að vera við sjálf.





Markmið jafnréttislaga er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Markmiði þessu skal m.a. náð með því að efla fræðslu um jafnréttismál, vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreiti og neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla. Jafnrétti kynjanna snýst ekki um að allir séu eins heldur að hver og einn sé metinn af verðleikum og fái notið hæfileika sinna og langanna óháð kyni. Misréttið felst hins vegar í því að takmarka virði einstaklingsins og frelsi við kyn hans.

Strax við fæðingu, - jafnvel fyrr, hefst kynbundin félagsmótun þar sem okkur er kennt hvað teljist viðeigandi hegðun m.t.t. kyns. Allsstaðar endurspeglast kynbundin viðhorf og hugmyndir samfélagsins sem segja okkur hvað sé stelpulegt og hvað strákalegt, - meira að segja leikfangabúðirnar taka enga sénsa og flokka leikföng eftir kyni. Við erum því ekki gömul þegar við vitum, án þess að vita það, hvað við megum og megum ekki m.t.t. kyns.  Kynbundin félagsmótun undirbýr stráka og stelpur til ólíkra verka. Félagsmótunin getur þannig bæði stuðlað að eða dregið úr því að við öflum okkur ákveðinnar kunnáttu eða menntunar. Þannig getur kynbundið náms- og starfsval komið í veg fyrir að  einstaklingur takist á við það nám og starf sem hann hefur mestan áhuga á og hæfileika til. Þetta leiðir til þess að kynið verður afgerandi þáttur í vali á menntun og störfum frekar en hæfileikar og langanir. Þannig nýtist reynsla, þekking og hæfileikar beggja kynja ekki til fulls og kynbundinn launamunur verður viðvarandi vandamál. 

Kynskiptur vinnumarkaður er ein helsta orsök kynbundins launamunar en skýringuna má einnig rekja til ójafnræðis kynjanna þegar kemur að verkaskiptingu inni á heimilum og fjölskylduábyrgð. Í ljósi þessa er athyglisvert að yngri kynslóðir íslendinga virðast hafa neikvæðara viðhorf til jafnréttis en þær sem eldri eru og þá sérstaklega með tilliti til  verkaskiptingar á heimilum. Sífellt fleiri konur hasla sér völl innan hefðbundinna karlagreina en það sama á ekki við um karla sem virðast eiga erfiðara með að fara inn á hefðbundin svið kvenna. Ennþá eru þau viðhorf ríkjandi að karlar taki niður fyrir sig ef þeir fara óhefðbundnar leiðir í starfsvali en virðing kvenna eykst. 

Vinna þarf gegn þessum kynjuðu viðhorfum sem takmarka frelsi og lífsgæði bæði karla og kvenna. Skapa þarf ungum konum sömu tækifæri til lífsafkomu og áhrifa og ungum körlum og uppræta skaðlegar karlmennskuhugmyndir sem takmarka lífsgæði karla. Karlar eru til að mynda í meiri áhættu þegar glæpir og sjálfsvíg eru skoðuð og þeir lifa skemur en konur. Einnig virðast margir karlar fara á mis við umönnun og uppeldi barna sinna, samvistir við fjölskyldu og önnur lífsins gæði, - vegna úreltra karlmennskuhugmynda. Þessa skekkju þarf að leiðrétta og vinna markvisst gegn íhaldssömum staðalmyndum sem ennþá takmarka frelsi einstaklingsins. Þar gegnir skólakerfið ásamt foreldrum mikilvægu hlutverki. 

 Í nýrri aðalnámskrá er jafnrétti skilgreint sem einn af grunnþáttum menntunar. Drengir og stúlkur eiga að hafa sem víðtækasta og jafnasta möguleika. Hvergi í skólastarfinu, né starfsháttum, ættu að vera hindranir í vegi hvors kynsins. Í öllu skólastarfi og öllum samskiptum skulu ákvæði jafnréttislaga höfð að leiðarljósi. Í 23. grein jafnréttislaga er kveðið á um að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi. Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem meðal annars skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi og að námsgögn séu þannig úr garði gerð að þau mismuni ekki kynjunum. Einnig er sérstök áhersla lögð á að bæði kynin fái fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf. Í 22. grein sömu laga segir að skólastjórnendur skuli gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk og nemendur verði fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni í skólanum eða í félagsstarfi.

Öll þekkjum við dæmi þar sem klámvæðing og ofbeldismenning hefur birst í félagsstarfi nemenda án þess að ég fari nánar út í það hér. Þessi dæmi undirstrika mikilvægi þess að skólakerfið taki jafnréttismálin fastari tökum. Skapi nemendum tækifæri til að setja upp kynjagleraugun svo þeir geti uppgötvað og séð með eigin augum hvernig kynjakerfið takmarkar frelsi þeirra og val. Gera nemendur læsa á samfélagið og birtingarmyndir óréttlætis og ofbeldis. Í nýrri aðalnámskrá segir að jafnréttismenntun feli í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismunar sumra og forréttinda annarra.  

Formlegt jafnrétti næst með lögum en raunverulegt jafnrétti krefst aðgerða og viðhorfsbreytinga. Nokkrir framhaldsskólar á Íslandi hafa undanfarin ár kennt kynjafræði sem valáfanga og í kjölfarið hafa verið stofnuð femínistafélög í tíu skólum. Síðast liðið vor sendi Landssamband femínistafélaga framhaldsskólanna og Kvenréttindafélag Íslands frá sér ályktun þar sem skorað er á yfirvöld menntamála að gera kynjafræði að skylduáfanga í grunn- og framhaldsskólum. Í ályktuninni segir m.a.:

"Teljum við að skólar landsins séu að bregðast skyldum sínum við komandi kynslóðir að hafa ekki lagt meiri áherslu á jafnréttisfræðslu meðal ungs fólks en raun ber vitni. Yfirvöld menntamála eru hvött til að leita leiða til að kenna jafnrétti og kynjafræði á öllum skólastigum. Með samstilltu átaki getum við breytt heiminum."

Allir þeir sem koma að uppeldi og menntun barna og unglinga þurfa að vera á varðbergi gagnvart íhaldssömum staðalmyndum sem endurspeglast í umhverfi okkar, orðræðu og hegðun. Við sem fyrirmyndir höfum gríðarleg áhrif á framtíð þeirra sem yngri eru, - þar mega kynbundin viðhorf samfélagsins eða væntingar aldrei hamla eða hefta. Einstaklingur sem kemur út í lífið með jafnrétti í farteskinu hefur frelsi til að vera hann sjálfur óháð staðalmyndum kynjanna. Um leið gefur hann öðrum frelsi til hins sama. Jafnréttið skilar okkur ekki bara heilli og heilbrigðari einstaklingum heldur líka heilbrigðara og réttlátara samfélagi.

Við getum í sameiningu breytt heiminum.

Kyn á ekki að skipta máli. 

Arnfríður Aðalsteinsdóttir.