Staða kvenna í landbúnaði

Hjördís Sigursteinsdóttir skrifar

Staða kvenna í landbúnaði

Kynjafræðilegur sjónarhóll Meginmarkmið greinarinnar er að leita svara við því hvort til staðar sé kynjahalli á lögbýlum hér á landi þegar skoðaðir eru tilteknir þættir sem viðkoma félags- og efnahagslegri stöðu kynjanna. Erlendir femínískir fræðimenn hafa fært rök fyrir því að innan landbúnaðargeirans lifi feðraveldishugsunin enn góðu lífi og að félagsleg uppbygging hans ali á kynjaójafnrétti. Fáar kynjafræðilegar rannsóknir eru hins vegar til um stöðu kvenna í landbúnaði hér á landi ef frá er talin meistaranámsrannsókn Hjördísar Sigursteinsdóttur sem þessi grein byggist á. Þátttakendur í rannsókninni voru á aldrinum 18-70 ára og búsettir á lögbýlum á Íslandi. Notast var við lögbýlaskrá, útgefna af landbúnaðarráðuneytinu árið 2006, og þjóðskrá Hagstofu Íslands frá 1. desember 2006. Úrtakið var 1.985 manns, 49% karlar og 51% konur. Spurningalistinn var sendur til þátttakenda í janúar 2007. Í úrvinnslunni voru tengsl breyta ýmist skoðuð með fylgniútreikningum eða samanburði á meðaltölum. Svarhlutfallið var 53,5%. Þátttakendur endurspegluðu úrtakið vel með tilliti til kynferðis og landsvæða. Niðurstöðurnar sýndu tiltekinn kynjahalla á lögbýlum, konum í óhag. Þær voru almennt ekki eins ánægðar og karlar með búsetuskilyrði sín og barna sinna. Félags- og efnahagsleg staða kvenna var almennt lakari en karla þegar spurt var um þætti sem snertu tengsl við ættingja og vini, búrekstur, búsetuskilyrði, eignarhald og tekjur. Þetta má teljast áhyggjuefni, bæði út frá sjónarhóli kynjajafnréttis og byggðastefnu.
Þetta er útdráttur greinar sem birt er í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla. Greinin er of löng til þess að birta í heild á heimasíðunni og bendum við því á uppruna hennar á þessari slóð.