Styttum vinnutímann!!

Ingólfur V. Gíslason skrifar

Styttum vinnutímann!!

Ekkert kæmi íslenskum fjölskyldum betur en almenn stytting vinnutímans. Það er hins vegar mjög áhugavert að þessi einföldu sannindi virðast ekki rata inn í kollinn á þeim sem mest mæra fjölskyldur og fjölskyldulíf. Ef til vill er þróun íslenskra fjölskyldna ekki jafn vel þekkt og hún ætti að vera. Ef til vill lifum við að verulegu leyti enn í fortíðinni eða að minnsta kosti í fortíðardraumum. Hyggjum aðeins að helstu þróunarlínum. Stóran hluta 20. aldarinnar einkenndist íslenskt fjölskyldulíf af afskaplega skýrri verkaskiptingu karla og kvenna. Karlar áttu að helga sig launavinnu og athöfnum hins opinbera rýmis en konurnar skyldu sjá um heimilið og börnin, umhyggjuna og einkalífið.Auðvitað var þetta aldrei svona einfalt í raunveruleikanum. Konur voru virkari í launavinnu en opinberar hagtölur greina frá og feður sinntu vissulega börnum sínum og gripu í heimilisstörf. Það breytir því ekki að heildarmyndin var með þessum hætti og bækur og tímarit ýttu undir þá hugmynd að þannig ætti þetta líka að vera.

Félagsfræðingurinn Hannes Jónsson, sendi frá sér bókina Samskipti karls og konu árið 1962 og lagði m.a. línurnar varðandi þróun mála eftir að karl og kona rugla saman reitum: „Konan hefur e.t.v. unnið úti fyrir hjónabandið... Nú segir hún upp góðu starfi og gerist forstjóri heimilisins. Bóndinn vinnur úti og aflar í búið. Það fé, sem hann vinnur inn, verður nú að nægja þeim báðum og fjölskyldunni allri, þegar hún stækkar.“
En af því að Hannes var nú félagsfræðingur þá var hann meðvitaður um að fleiri væru möguleikarnir því ekkert það væri í hjúskaparlögum sem skyldaði fólk til að haga sér með þessum hætti. Þess vegna mætti alveg hugsa sér viðsnúning og konan starfaði utan heimilis en karlinn sæi um heimilið. Hann sló þó varnagla og bætti við: „... þessi hlutverkaskipti eru aðeins skýringadæmi og koma tæpast til framkvæmda og alls ekki í góðu hjónabandi...“

Með þessum hætti voru almenn viðhorf við upphaf sjöunda áratugarins. Þau voru alls ekki bundin við karla. Á þessum árum var gefið út tímarit sem hét Fálkinn. Þann 13. september birtist þar samtal sem blaðamaður hafði átt við þrjár útivinnandi konur. Talið barst að launamun kynjanna og blaðamaður spyr hvaða áhrif það gæti haft á samband maka ef konan þénaði betur en karlinn. Viðbrögð kvennanna voru á einn veg:
„Sissa: Það má bara ekki eiga sér stað.
Kristín: Nei, það er alls ekki gott. Karlmaðurinn þarf alltaf að vinna meira inn en konan.
Sissa: Hann verður að finna, að hann sé herra hússins.“

Sjöundi áratugurinn reyndist hins vegar vera byltingaráratugur. Þá hófst ein af þremur stóru breytingunum í íslensku fjölskyldulífi síðustu áratuga, það sem kalla má vinnumarkaðsvæðingu mæðra. Á sjöunda og áttunda áratugnum streymdu giftu konurnar, mæðurnar, út á vinnumarkaðinn og gjörbyltu bæði möguleikum sínum og almennu fjölskyldulífi og lögðu auk þess grunn að þriðju megin breytingunni, þeirri sem við erum nú stödd í og má kenna við fjölskylduvæðingu feðra. Þarna á milli kom svo önnur megin breytingin, sem við getum kallað samfélagsvæðingu barnauppeldis og felst í því að launaðir einstaklingar sjá nú um sífellt stærri hluta af uppeldi og umhyggju íslenskra barna á þar til bærum stofnunum.

Það má skipta þróun verkaskiptingar karla og kvenna hvað fjölskyldur varðar í fimm skeið: Fram að sjöunda áratugnum var hún, eins og áður hefur verið sagt, þannig að konur voru húsmæður og karlar skaffarar. Þær breytingar sem hófust á sjöunda áratugnum juku hlutavinnu við húsmóðurhlutverk kvenna en eftir sem áður var meginhlutverk karla að stunda launavinnu og sjá fyrir efnalegum þörfum fjölskyldna. Hið aukna álag sem hlutastarfið innibar fyrir konur leiddi þó til þriðja stigsins þegar konur eru áfram húsmæður með hlutavinnu og karlar skaffarar og aðstoðarmenn í heimilishaldinu. Fjórða skeiðið markast af því að fleiri og fleiri konur eru í fullu starfi á vinnumarkaði þannig að báðir foreldrar eru í fullri launavinnu og skipta með sér uppeldis- og umhyggjustörfum auk annarra heimilisstarfa. Allra síðast höfum við svo tilfelli þar sem hið ímyndaða dæmi Hannesar Jónssonar verður að raunveruleika, þar sem „hlutverkaskipti“ hafa átt sér stað, konan sinnir launavinnunni en karlinn er heimavinnandi húsfaðir.

Öll þessi stig eru til staðar í fjölskyldulífi Íslendinga í dag en algengast er það sem hér er númer þrjú og fjögur og þróunin hefur verið í þá átt að fjölgi þeim fjölskyldum þar sem báðir makar eru í fullu starfi.
Nú er til þess að taka að fullt starf á Íslandi er meira en fullt starf á öðrum Norðurlöndum. Það er að segja, Íslendingar eru lengur á sínum vinnustað á hverjum degi en íbúar annarra norrænna ríkja. Þar er algengt að vikulegur vinnutími sé 37 stundir hjá fullvinnandi fólki. Hérlendis var hann hins vegar 46,8 stundir hjá fullvinnandi körlum árið 2009 og 41,6 stundir hjá fullvinnandi konum.

Samspil fjölskyldna og atvinnulífs einkennist af þremur átakalínum. Í fyrsta lagi er það sem við getum kallað tímaátök, átök um þessar 24 stundir sem eru í sólarhringnum. Atvinnulífið leggur línuna og fjölskyldur verða að dansa eftir henni. Allt líf íslenskra fjölskyldna er skipulagt á þeim grunni sem atvinnulífið leggur, ekkert skiptir meira máli fyrir daglegt fjölskyldulíf en vilji atvinnulífisins.

Í öðru lagi er það sem við getum kallað álagsátök. Langur vinnutími setur mark sitt á fjölskyldulífið með þeim hætti að atvinnulífið þurrmjólkar starfsfólk sitt. Þegar heim kemur er lítið eftir til að gefa fjölskyldunni. Það getur leitt til átaka innan fjölskyldunnar en slík átök hafa svo aftur áhrif á getu starfsfólks til að sinna vinnu sinni sómasamlega. Báðir aðilar tapa í slíkum átökum.

Loks ber svo í þriðja lagi að nefna kynjaátök. Það er ljóst af mörgum rannsóknum að þegar atvinnulífið þrengir að fjölskyldulífi þá eru það frekar mæðurnar en feðurnir sem laga atvinnuþátttöku sína að þessum þrengingum. Þetta gera þær t.d. með því að stytta vinnutíma sinn, skipta um starf eða einfaldlega hætta launavinnu. Átök milli maka af þessum ástæðum geta leitt til erfiðleika í sambúðinni og jafnvel skilnaðar. Slíkt hefur svo aftur áhrif á gæði vinnuframlags. Í Noregi hefur verið reiknað út að atvinnulífið tapi verulegum fjárhæðum á hverjum skilnaði, einfaldlega sökum minni afkasta og fjarveru starfsfólks.

Áratugum saman hefur verið rætt um mikilvægi samspils fjölskyldulífs og atvinnuþátttöku og margt verið brallað í þeim tilgangi að auðvelda þetta samspil. Flest hefur það þó verið markað af því að vera fyrst og fremst gert „fyrir“ konur, meðvitað eða ómeðvitað. Það hefur svo enn frekar veikt stöðu þeirra á vinnumarkaði og er einn þeirra þátta sem viðheldur launamun kynjanna. Það hefur einnig komið í ljós að þegar gripið er til úrræðna á borð við sveigjanlegan vinnutíma, fjarvinnu og tímabanka þá er viss tilhneiging til að fólk hætti aldrei í vinnunni, að vinnan éti sig smátt og smátt inn í alla vökutíma einstaklinga.

Undan því verður ekki komist að það verður alltaf ákveðin spenna milli atvinnulífs og fjölskyldulífs. Ef öðru er sinnt verður hitt að bíða. Það er hins vegar ljóst að sú aðgerð sem líklegust er til að létta á spennunni og auka möguleika fólks til innihaldsríks fjölskyldulífs er að færri stundir vikunnar séu fráteknar fyrir atvinnulífið. Af einhverjum dularfullum ástæðum virðast íslensk stéttarfélög hafa lagt baráttuna fyrir styttingu vinnuvikunnar á hilluna eins og endanlegur sigur hafi unnist með lögfestingu 40 stunda vinnuviku. Það þarf ekki að búast við því að atvinnurekendur hafi frumkvæði hér. Allt frá því að til umræðu kom að leyfa sjómönnum að leggja sig stund og stund hefur viðkvæði íslenskra atvinnurekenda verið það að takmörkun vinnutímans hefði í för með sér hrun atvinnulífsins. En atvinnulífið stóð af sér setningu Vökulaganna árið 1921 og það hefur komist í gegnum aðra styttingu vinnutímans á 20. öldinni. Hvernig væri nú að stéttarfélögin dustuðu rykið af þeirri gömlu hugmynd að líf fólks ætti að vera meira en launaþrælkunin ein og settu kröfuna um styttingu vinnutímans á oddinn í komandi kjarasamningum? Þetta þyrfti ekki að vera í neinum stökkum. Við gætum t.d. stefnt að styttingu um hálftíma á ári næstu 6 árin. Þá værum við komin á svipað ról og norrænir bræður og systur og hefðum vafalaust öðlast mun ríkara fjölskyldulíf.