Sveitarstjórnir verða sífellt mikilvægari

Ágætu landsfundargestir. Frá því að við hittumst á Akureyri á 10 ára afmæli Jafnréttisstofu fyrir ári síðan er mikið vatn til sjávar runnið. Þá voru sveitarstjórnarkosningar nýafstaðnar, fullt af nýju fólki að hefja störf fyrir sín svæði og mikilvæg verkefni framundan.

Það verður fróðlegt að heyra frá ykkur hvernig gengið hefur, hvað hefur áunnist og hvar róðurinn er þyngstur í peningaleysinu sem nú er farið að hjá okkur verulega.

Ég ætla hér á eftir að rifja upp ýmislegt sem gerst hefur undanfarið ár til að minna okkur á hvað vel hefur tekist en líka til áminningar um að verkefnin eru ærin.

Ef við lítum yfir svið jafnréttismálanna undanfarið ár hefur ýmislegt borið til tíðinda.

Í október 2010 minntust konur þess um allt land að 35 ár voru liðin frá kvennafrídeginum árið 1975. Víða voru haldnir fundir og í Reykjavík var ótrúlega fjölsóttur útifundur miðað við það kalsaveður sem gekk yfir landið. Áhersla var annars vegar lögð á vinnuframlag kvenna og kynbundin launamun eins og 1975, hins vegar á ofbeldi gegn konum. Það sem einkenndi þennan dag var gríðarlega breið samstaða fjölmargra kvennasamtaka í landinu. Dagana á undan og eftir voru haldnar ein norræn og ein alþjóðleg ráðstefna um kynbundið ofbeldi, ein ráðstefna um tvær mismununartilskipanir Evrópusambandsins sem til stendur að innleiða hér og svo ein um ungt fólk á Norðurlöndum þar sem kynnt var stór könnun á viðhorfum og viðfangsefnum aldurshópsins 16-20 ára. Þar var sláandi að sjá hve stór hópur sérstaklega stráka hafði litla trú á forystuhæfileikum kvenna, hve stórum hópi bæði stráka og stelpna fannst lítt við hæfi að konur væru í forystu trúarstofnana og síðast en ekki síst gríðarleg klámnotkun íslenskra stráka sem skáru sig verulega úr jafnöldrum sínum á hinum Norðurlöndunum. Því miður hefur þessi könnun fengið litla athygli og umfjöllun en hana er að finna á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Í byrjun árs 2011 gaf Jafnréttisstofa í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Íslands út bækling á sex tungumálum sem ætlaður er konum af erlendum uppruna. Þar er farið yfir öll helstu lög sem gilda í landinu, réttindi og skyldur, svo og ýmis praktísk mál, svo sem að konur megi eiga sinn eigin bankareikning en það þarf að segja konum sem koma langt að.
Þótt bæklingurinn sé, af gefnu tilefni, einkum ætlaður konum, kemur hann körlum líka til góða og það sem meira er, hann er hægt að nota til kennslu í íslensku þar sem textinn er bæði á íslensku og viðkomandi máli. Þar er skemmst frá að segja að bæklingnum hefur verið gríðarvel tekið og hefur þurft að prenta hann margsinnis, einkum á pólsku.

Jafnréttisþing var haldið í byrjun febrúar í annað sinn frá því að ný jafnréttislög voru samþykkt 2008 og var það mjög vel sótt. Umræðuefnin voru fjölbreytt, allt frá mansali á heimsvísu, stjórnarskránni, fjölmiðlum og jafnréttisstefnu Evrópusambandsins til stöðu fjölskyldunnar á krepputímum. Á þinginu var kynnt skýrsla um áhrif efnahagskreppunnar á konur sérstaklega en hún var unnin á vegum Velferðarvaktarinnar og styrkt af Jafnréttisráði. Í skýrslunni kom margt athyglisvert í ljós, ekki síst hve víða skortir á kyngreindar upplýsingar. Í kjölfar hennar sendi Jafnréttisstofa bréf til fjölda stofnana og minnti á þær skyldur að kyngreina upplýsingar. Nú stendur til að fylgja skýrslunni eftir með rannsókn á því hvernig foreldrar brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólar taka við.

Þátttaka karla í jafnréttisumræðunni var einnig til umræðu á jafnréttisþingi. Þetta málefni verður sífellt mikilvægara viðfangsefni einkum á Norðurlöndunum. Fyrir nokkrum árum settu Norðmenn á fót hóp rúmlega 30 karla eða karlapanel eins og þeir kölluðu hópinn sem fór yfir stöðu karla í Noregi, gerði viðamikla könnun á lífsviðhorfum karla og kom með tillögur um ýmislegt sem þyrfti að gera til að auka jafnrétti kynjanna, bæta líf karla, bæta stöðu þeirra almennt eða ákveðinna hópa, t.d. karla af erlendum uppruna sem hættir mjög til að einangrast í norsku samfélagi. Til að gefa ykkur hugmynd um hvað var tekið fyrir í norska karlahópnum má nefna: uppeldi og félagsmótun drengja, mennta- og starfsval, karlar og umönnun barna, heilbrigði og lífsgæði, karlar og samfélagsaðlögun (sem á einkum við um karla af erlendum uppruna) og loks karlar, ofbeldi og kynjajafnrétti.

Það er fróðlegt að geta þess hér að á fundi jafnréttisstofnana Norðurlandanna sem ég sótti fyrir skömmu í Osló varð fundarfólki, sérstaklega Norðmönnunum tíðrætt um þá hörmungaratburði sem gerðust þar í sumar. Þeir spyrja sig nú hvað stofnanir eins og skólar og stjórnvöld hafi verið að gera í mannréttindamálum. Hvernig stofnanir eigi að bregðast við öfgasjónarmiðum eins og birtust hjá Breivik en þau fela m.a. í sér harða árás á jafnrétti kynjanna og femínisma. Í-öfgahópum sem amast við útlendingum og réttindum og áhrifum kvenna eru nánast eingöngu ungir karlar sem vekur margar spurningar um bakgrunn þeirra, aðstæður og hvað það er sem mótar viðhorf þeirra og fyllir þá hatri og fyrirlitningu á t.d. útlendingum og konum. Stjórnmálaflokkar með slík viðhorf eru til bæði í Svíþjóð og Finnlandi og hafa nú komið mönnum á þing.

Í kjölfar norska karlahópsins var einnig settur upp fjölmennur og breiður hópur kvenna Í Noregi, alls 26 einstaklinga sem endanlega tóku þátt í starfinu og fengu það hlutverk að skoða stöðu kvenna í norsku samfélagi. Sá hópur skipti sinni skýrslu sem birtist fyrir tæplega ári síðan upp í eftirfarandi þætti: atvinnulíf, ofbeldi gegn konum, þöglar raddir (eða þær konur sem ekki eiga sér rödd í samfélagsumæðunni), heilbrigði, ung, kynþokkafull og jafn rétthá (með spurningamerki) og loks hvert skal halda? Á eftir hverjum kafla eru settar fram tillögur sem fróðlegt er að skoða.

Þessi vinna Norðmanna hefur vakið verðskuldaða athygli og það er mjög athyglisvert að þeir ákváðu að fara þá leið að láta kynin hvort um sig skoða sína stöðu.

Við þetta má bæta að nú starfar í Noregi 12 manna nefnd sem er að fara yfir jafnréttisstefnu Norðmanna, hverju hún hefur skilað og hverju þarf að breyta með tilliti til kyns, stéttar og uppruna. Á undanförnum árum hefur borið lítið á stéttarhugtakinu í jafnréttisumræðunni en Norðmenn hafa áhyggjur af því hve bilið breikkar milli stétta, einkum þó fólks af mismunandi uppruna, bæði efnahagslega og menningarlega.

Það var í tengslum við umræðuna á Norðurlöndum sem velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson ákvað að setja á fót íslenskan karlahóp sem hefur það hlutverk að skoða stöðu karla á Íslandi og koma með tillögur. Þeir eiga að skila af sér um áramótin. Þá munu Norðmenn leggja mikla áherslu á karla og jafnrétti á næsta ári þegar þeir fara með formennskuna í Norrænu ráðherranefndinni.

Í vor bar til tíðinda að lögð var fram viðamikil skýrsla á Alþingi um ofbeldi gegn konum í nánum samböndum. Í skýrslunni er annars vegar að finna langstærstu könnun sem gerð hefur verið hér á landi á ofbeldi gegn konum í nánum samböndum eða það sem áður var kallað heimilisofbeldi, hins vegar var rætt við þá sem koma að ofbeldismálum með ýmsum hætti svo sem hóp skólastjórnenda, barnaverndarstarfsfólk, lögreglu, félagsþjónustu nokkurra sveitarfélaga, heilbrigðisstarfsfólk og loks félagasamtök.

Könnunin á umfangi og eðli ofbeldis gegn konum er sambærileg við alþjóðlega könnun sem gerð var á vegum Sameinuðu þjóðanna í allmörgum löndum. Ég ætla ekki að tíunda niðurstöðurnar hér en þær sýna að ofbeldi gegn konum hér á landi er mjög svipað og t.d. í Danmörku. Þess má geta að niðurstöðurnar eru greindar eftir landshlutum.

Í skýrslunni er að finna nokkrar tillögur sem ríkisstjórnin samþykkti áður en skýrslan var lögð fram og snerta nokkrar þeirra sveitarfélögin í landinu. Þar er fyrst að nefna ábendingu til sveitarstjórna um að semja aðgerðaáætlun gegn ofbeldi en Akureyrarbær er eina sveitarfélagið sem það hefur gert. Ég legg sérstaka áherslu á þetta atriði en ýmsir atburðir sumarsins minntu okkur óþægilega á hve brýnt er að öll sveitarfélög séu í stakk búin að taka á kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi af öllu tagi.

Þá er að finna í skýrslunni tillögu um sérstakt árvekniverkefni á Reykjanesi en fyrrnefnd rannsókn leiddi í ljós að ofbeldi gegn konum er nokkuð tíðara á Reykjanesi en í öðrum sveitarfélögum eða landshlutum. Komið hefur í ljós að það er mikill vilji til að greina hvað þarna er á ferð og finna leiðir til úrbóta.
Ein megin niðurstaða viðtalanna við starfsfólk og aðra sem koma að ofbeldismálum er gríðarleg þörf fyrir fræðslu og aukna þekkingu. Í skýrslunni til Alþingis er lagt til að fræðsla fyrir almenning verði stóraukin og sjónum sérstaklega beint að heilbrigðisstarfsfólki og kennurum sem og grunnnámi þessara stétta. Þarna þyrftu sveitarfélögin að leggja sitt af mörkum og þess má geta að í sumar voru haldin námskeið fyrir fjölda starfsmanna Akureyrarbæjar um ofbeldismálin, m.a. fyrir starfsmenn félagsmiðstöðva.

Þá er í tillögunum vakin sérstök athygli á viðkvæmum hópum kvenna sem við vitum allt of lítið um, svo sem öldruðum konum, fötluðum, samkynhneigðum og konum af erlendum uppruna. Þess má geta að samkvæmt nýsamþykktum sáttmála Evrópuráðsins um skyldur ríkja til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi er gert ráð fyrir ákveðnum fjölda plássa í kvennaathvörfum. Mér sýnist að það sé samstaða um að láta eitt kvennaathvarf duga hér á landi í bili hvað sem síðar verður. Reyndar er nýbúið að opna athvarf fyrir konur í eða á leið úr vændi sem væntanlega léttir eitthvað á kvennaathvarfinu í Reykjavík þar sem plássin eru of fá.

Þess má að lokum geta svo ég segi skilið við ofbeldismálin að núgildandi aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er að renna út og ný í smíðum.

Undir vor samþykkti Alþingi nýja framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Hún er með nokkuð nýju sniði og skiptist í átta kafla og 43 skilgreind verkefni. Nokkur þeirra snerta sveitarfélögin sérstaklega einkum utan höfuðborgarsvæðisins. Þar má nefna könnun á launamun kynjanna á landsbyggðinni en könnun sem gerð var árið 2008 sýndi mun meiri launamun kynjanna utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess eða allt að 38%. Þá á að gera sérstaka könnun á launamun kynjanna í sjávarútvegi og landbúnaði, kanna starfsumhverfi og starfskjör í sveitarstjórnum og búa til gagnagrunn um jafnrétti kynjanna í sveitarfélögum landsins. Við fáum að heyra um síðast talda verkefnið á morgun.

Innan stjórnarráðsins er nú unnið að fjölmörgum verkefnum þar sem aðferðum kynjaðrar hagstjórnar og samþættingar er beitt. Þar má nefna úttekt á úrræðum Vinnumálastofnunar, úttekt á biðlistum vegna hjartaþræðinga, úthlutanir listamannalauna, skipting fjár milli kynja í þróunarsamvinnu Íslendinga, fjölgun kvenna innan lögreglunnar, útgjöld úr atvinnuleysistryggingasjóði, úrræði Barnaverndarstofu, millifærsla persónuafsláttar og fleira mætti telja. Flestum þessum verkefnum lýkur á þessu ári. Innan margra sveitarfélaga er áhugi á kynjaðri hagstjórn og kynjuðum fjárhagsáætlunum og eflaust geta þau lært ýmislegt af ráðuneytunum og þriggja ára áætlun ríkisins um kynjaða hagstjórn.

Ég gæti tíundað fleira af því sem gerst hefur að undanförnu eða verið í umræðunni en tímans vegna verð ég að snúa mér að framtíðinni. Hvaða verkefni eru brýnust á næstu misserum?

Fyrst vil ég nefna kynbundinn launamun. Mörg sveitarfélög, t.d. Reykjavík og Akureyri hafa náð verulegum árangri með beitingu starfsmats og úttektum á launakerfum en af einhverjum ástæðum þverneitar ríkið að taka upp svipað verklag með þeim afleiðingum að kynbundnum launamun er viðhaldið. Reyndar benda skatttekjur til þess að launabilið hafi minnkað verulega eftir að kreppan skall á en það er af því að laun karla hafa lækkað en ekki af því að laun kvenna hafi hækkað eða að gripið hafi verið til markvissra aðgerða.

Hvað gerist þegar við komumst upp úr efnahagslægðinni? Eykst launabilið þá að nýju? Mér finnst þörf á góðri umræðu um aðferðir til að útrýma þessum launamun í eitt skipti fyrir öll. Við verðum að horfast í augu við að okkur hefur mistekist á almennum vinnumarkaði og hjá ríkinu að ná árangri. Hvernig breytum við hugarfarinu og aðferðunum þannig að við fáum atvinnulífið til liðs við okkur?

Á Norðurlöndunum og úti í Evrópu er mikið rætt um samræmingu atvinnu- og einka- eða fjölskyldulífs og aðgerðir til að jafna stöðuna innan fjölskyldunnar sem er lykill að jafnri atvinnuþátttöku og jöfnu álagi á einstaklingana. Þar er ekki aðeins rætt um fæðingar- og foreldraorlof eða veikindarétt vegna barna eða skiptingu heimilisstarfa, heldur ekki síður umönnun aldraðra og veikra ættingja sem verður sífellt mikilvægari eftir því sem þjóðirnar eldast. Úti í Evrópu eru umræður um sérstaka frídaga fyrir vinnandi fólk vegna umönnunar aldraðra ættingja. Þetta er umræða sem við þurfum að taka upp hér á landi.

Undirstaða fyrir aðgerðir til að jafna fjölskylduábyrgð er að rannsaka hvernig fólk ver tíma sínum í raun en okkur skortir mjög slíka þekkingu.

Framundan er mikil vinna við að búa atvinnulífið undir kynjakvótana í stjórnum fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri en lögin ganga í gildi árið 2013. Það er mikilvægt að standa vel að verki og reyna að skapa jákvæðni og skilning þannig að lögin virki en skapi ekki andóf og leiðindi.

Þá þurfum við stöðugt að halda vöku okkar varðandi hlut kvenna í stjórnmálum. Ég hef verið að fylgjast með kosningabaráttu sem nú stendur yfir bæði í Noregi og Danmörku og það er áberandi hve margar konur eru þar í forystu. Hér á Íslandi er aðeins ein kona formaður stjórnmálaflokks og þar með í forsvari þegar „landsforeldrarnir“ mæta í sjónvarpssal til að ræða málin. Ekki ýta fjölmiðlar undir jafnrétti kynjanna, svo mikið er víst. Ítrekaðar rannsóknir á íslenskum fjölmiðlum sýna að þar er hlutur kvenna um 30% þegar allt er talið og það er óásættanlegt. Í nýjum fjölmiðlalögum sem samþykkt voru síðast liðið vor gerðist það í fyrsta sinn að ýmsar skyldur voru lagðar á herðar þeirra vaðandi jafnrétti kynjanna, svo sem úttekt á því hverjir viðmælendur eru og hvernig starfshlutföll eru innan fjölmiðlanna. Þessum lögum þarf að fylgja fast eftir.

Ofbeldi gegn konum og börnum er því miður ekkert að minnka og þar eru verkefnin ærin, ekki síst við að breyta hugarfari, t.d. dómara. Þá verðum við að sameinast um að skera upp herör gegn klámvæðingu sem hefur greinilega mikil áhrif á viðhorf ungra stráka til stelpna og öfugt. Kvenfyrirlitning virðist fara vaxandi og ekki breytast staðalmyndir tískunnar til hins betra. Nú geta konur varla gengið vegna himinhárra hæla ef þær sinna herskyldu tískunnar. Hver er nú munurinn á þessum hrikalegu hælum og þykku botnum og því að vefja fætur kvenna eins og gert var í Kína forðum? Tilgangurinn er hinn sami að gera konur ósjálfbjarga.

Að lokum vil ég minna á að sveitarfélögin hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna við ýmis konar þjónustu við börn, foreldra, aldraða og reyndar alla íbúa og það mun aðeins vaxa, sbr. flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna. Það er áríðandi að sveitarfélögin hafi skyldur sínar við að tryggja jafnrétti kynjanna til hliðsjónar í allri sinni vinnu og þar eru jafnréttisáætlanir mikilvægt verkfæri sem þarf að nýta miklu betur. Jafnréttisstofa hefur verið að kalla inn jafnréttisáætlanir sveitarfélaga og þar er skemmst frá að segja að víða er góð vinna í gangi en allt of mörg sveitarfélög uppfylla ekki lagalegu skyldur sínar.

Því miður er enn víða pottur brotinn hvað varðar jafnrétti kynjanna. Við þurfum sérstaklega að skoða skólastarfið og hvernig skólinn getur unnið að því að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali og búa einstaklingana undir líf og starf í jafnréttisþjóðfélagi eins og honum ber lagaleg skylda til.

Nýleg rannsókn sem unnin var á vegum Jafnréttisstofu á kennslubókum í sögu á miðstigi grunnskóla er okkur til viðvörnunar um það hve „gamla“ kerfið, feðraveldið, gömlu viðhorfin, dulda námskráin leynist víða. Konur eru sárafáar í þessum bókum, þær eru m.a. nefndar sem fyrirbærið konur í atriðisorðaskrá, rétt eins og knerrir svo ég vitni í höfund fyrrnefndrar skýrslu og um þær fjallað í einni nýjustu bókanna í sérstökum kafla um konur og börn sem telur þrjátíu línur alls í þremur dálkum. Þar segir um konur frá landnámi fram á 19. Öld eða í meira en 1000 ár: „Hlutverk kvenna var fyrst og fremst að sinna barnauppeldi og heimilishaldi“. Ekkert um að þær héldu uppi útflutningi þjóðarinnar á vaðmáli, ekkert um að þær sóttu sjóinn við hlið karla og fóru með þeim í verið, ekkert um að þær voru læknar og ljósmæður, ekkert um að þær miðluðu menningunni og héldu lífi í þjóðinni við hlið karla með því að breyta „mjólk í mat og ull í fat“. Hvernig eru aðrar kennslubækur spyr ég?

Það er mikið verk að vinna við að breyta hugarfari ef okkur á að takast að stíga fleiri skref í átt til þess samfélags sem við viljum sjá, samfélags þar sem konur og karlar njóta sömu virðingar, hafa sömu tækifæri til menntunar og starfa, geta óháð valið sér sinn lífsfarveg og notið sín sem frjálsir og skapandi einstaklingar sem axla ábyrgða á samfélagi sínu, umhverfi og náttúru landsins. Megi þessi landfundur verða okkur gjöfull og hvetjandi til góðra verka í þágu framtíðarinnar.


Ávarp flutt á landsfundi jafnréttisnefnda sveitarfélaga í Kópavogi 9. september 2011.