Þetta kemur okkur öllum við

Hjálmar G. Sigmarsson skrifar

Þetta kemur okkur öllum við

Hugleiðingar um þátttöku karla í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldiEins og margir hafa tekið eftir þá stendur nú yfir alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Tilgangur átaksins er að draga kynbundið ofbeldi, og þá fyrst og fremst ofbeldi karla gegn konum, fram í dagsljósið sem mannréttindabrot og auka þar með þekkingu og ábyrga umræðu um þennan málaflokk. Frá upphafi hefur átakið einnig lagt áherslu á að fá fleiri karlmenn til að taka þátt í baráttunni.

     Áherslan á þátttöku karlmanna í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi hefur almennt verið að vaxa ásmegin síðan í lok síðustu aldar. Fyrst um sinn var um að ræða afmörkuð dæmi um þátttöku karlmanna (t.d. White Ribbon átakið í Kanada), en með Peking yfirlýsingunni (í framhaldi af ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um málefni kvenna í Peking 1995) var lögð áhersla á mikilvægi þess að virkja karlmenn í baráttunni gegn kynjamisrétti og þar á meðal kynbundnu ofbeldi. Síðan þá hefur áherslan á að virkja karla orðið meira áberandi á alþjóðlega vísu. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að setja á stokk alþjóðlegt net samtaka sem vinna að því að virkja karlmenn í þessum tilgangi, þ.e. MenEngage Global Alliance. Einnig hefur Ban Ki-Moon aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, komið af stað alþjóðlegu átaki sem ber yfirskriftina „UNiTE to End Violence Against Women,“ þar sem hann hefur lagt sérstaka áherslu á þátttöku karlmanna með því að stofna net karlkyns leiðtoga (þ.e. Network of Men Leaders). Á Íslandi hefur þátttaka karlmanna einnig aukist mikið undanfarin 10 ár, þar á meðal má nefna karlanefnd jafnréttisráðs 1994-2000, Nei-átak karlahóps Femínistafélags Íslands, V-dags samtökin, og Öðlingsátakið fyrr á þessu ári.

Megið markmiðið með því að virkja karlmenn í þessari baráttu er að vekja þá til umhugsunar um eðli kynbundins ofbeldis og fá þá til að velta fyrir sér hvernig þeir geti komið í veg fyrir það. Í grófum dráttum er hugmyndin tvíþætt. Annars vegar að takast á við þá menningu sem viðheldur þeim viðhorfum sem gera lítið úr, afsaka eða jafnvel afneita kynbundnu ofbeldi karla gegn konum. Þetta felur m.a. í sér kvenfyrirlitningu, ofbeldisfullar karlmennskuímyndir, umburðalyndi fyrir slíkri hegðun og þöggun á afleiðingum þess. Hins vegar er mjög mikilvægt að styðja við starf kvenna og kvenréttindasamtaka sem hafa unnið markvisst gegn skaðlegum staðalmyndum, barist fyrir jafnrétti kvenna og karla, og hvatt karlmenn til að taka afstöðu gegn kynbundnu ofbeldi.

Þátttaka karla eru orðin meira áberandi, bæði sem yfirlýst markmið yfirvalda og í raun, þ.e. fleiri karlar eru sýnilegri í þessari umræðu. Samt sem áður eru margir karlmenn sem taka þessa baráttu ekki til sín og jafnvel streitast hástöfum á móti henni. Þess vegna er vert að spyrja: af hverju eru ekki fleiri karlar að taka þessa baráttu til sín? Ég ætla ekki þykjast geta svarað þeirri spurningu hér og nú, en hins vegar vil ég benda á að þrátt fyrir meiri umræðu og aukna þekkingu um þessi mál, þá fá ýmsar ranghugmyndir og goðsagnir að lifa góðu lífi í almennri umræðu, í fjölmiðlum, í netmiðlum, á kaffistofum og í vinahópum. Í þessu samhengi vil ég nota tækifærið til að taka nokkrar slíkar fullyrðingar fyrir og fyrsta fullyrðingin er:

Þetta kemur karlmönnum ekki við.

Mannréttindi allra og þar af leiðandi kvenréttindi koma okkur öllum við. Réttur einstaklinga til öryggis, réttur einstaklinga til að verða ekki fyrir ofbeldi, réttur þolenda kynferðisofbeldis til að tekið sé mark á þeim og allt gert til að tryggja heilsu þeirra og bata, er óumdeilanlegur. Eins hef ég sjálfur rétt á því að berjast fyrir samfélagi þar sem mæður, vinkonur, systur, samstarfskonur og dætur mínar verða ekki fyrir misrétti, ofbeldi, áreiti, misnotkun og lítilsvirðingu. Eins hef ég rétt á því að þurfa ekki að útskýra af hverju að ég sætti mig ekki við slíkt í samfélagi okkar allra, að ég sætti mig ekki við virðingaleysi, aðgerðaleysi og sinnuleysi.

Þetta er allt að koma.

Með því að halda því fram, að þetta er allt að koma, vilja sumir halda því fram að það er óþarfi að síendurtaka þessi skilaboð. Í ljósi þess að allir ættu að vera á móti kynferðisofbeldi, er óþarfi að vera sífellt að endurtaka skilaboð sem flestir eru sammála. Það er vonandi rétt að flest allir séu sammála því að kynbundið ofbeldi sé af hinu slæma. Það er hins vegar ekki erfitt að benda á ótal dæmi úr fréttum og umræðum undanfarin misseri sem sýna fram á að þetta er ekki allt að koma. Það má kannski segja að þessi mál fá meiri athygli en fyrir nokkrum árum, en það breytir því samt sem áður ekki að á hverju ári leita hundruð einstaklinga til Neyðarmóttöku vegna nauðgana, til samtaka eins og Kvennaathvarfsins, Stígamóta, Aflsins, Sólstafa og Drekaslóða. Einungis brot af þessum málum eru kærð til lögreglu og aðeins brot af þeim enda með dómi. Skilningsleysi gegn brotaþolum og þarfa þeirra er enn að finna ekki bara í almennri umræðu, heldur einnig hjá opinberum aðilum, skipuleggendum útihátíða o.s.frv. Ef þetta er allt að koma, hvað er komið? Það er ekki nóg að segja að nú sé komin skýr lagarammi, framkvæmdaáætlanir, aukin þjónusta og sérstök kynferðisbrotadeild hjá lögreglunni. Það er ekki nóg, ef að meiri hluti þolenda annað hvort segja engum frá, leita ekki hjálpar eða þora ekki að kæra geranda. Það er ekki merki um breyta tíma, breytt viðhorf eða breytta menningu.

Átök gegn kynbundnu ofbeldi fela í sér eftirfarandi fullyrðingu: að allir karlmenn séu nauðgarar.

Þetta er fullyrðing sem heyrist stundum í umræðunni. Að með því að fara fram á það að karlmenn hætti að nauðga konum t.d., þá er verið að ráðast á alla karlmenn, eða a.m.k.  láta þá bera ábyrgð á gjörðum geranda. Sem dæmi um þetta rifja ég upp þegar ég tók þátt í Nei-átaki karlahópsins fyrir þó nokkrum árum síðan og mætti ungum manni sem ég nálgaðist og bauð að taka við kynningabæklingi átaksins. Hann var tregur við og sagðist vera sammála baráttunni, en væri hins vegar ósáttur við átakið okkar og vísaði í útvarpsauglýsingu á okkar vegum. Ég spurði hann hvað honum fannst vera óviðeigandi við auglýsinguna. Hann sagði að frasinn „Karlmenn segja Nei við nauðgunum!“ gangi of langt, það væri verið að ásaka alla karlmenn um nauðganir. Eftir dágott spjall tókst mér að sýna honum fram á svo væri ekki og í staðinn snérist átakið um að virkja karlmenn í baráttunni. Hann endaði með því að taka við bæklingnum og nokkrum barmmerkjum líka. Þetta var ekki í síðasta skiptið þar sem ég eða félagar mínir í hópnum lentum í þessu. En okkur virtist vera að sumum karlmönnum þótti það eitt og sér að nefna karlmenn og nauðgun í sömu setningu, fæli í sér árás á alla karlmenn og sumir fóru þess vegna í vörn.

Femínistar hata karlmenn.

Þrátt fyrir mjög þrautseigar og hugmyndaríkar samsæriskenningar um slíkt, þá er það einfaldlega ekki rétt.

Karlmenn eru líka beittir kynferðisofbeldi.

Þessari fullyrðingu er oft fleygt fram þegar verið er að tala um ofbeldi gegn konum og því jafnvel haldið fram að átök gegn kynbundnu ofbeldi horfi fram hjá því að karlmenn verða einnig fyrir kynferðislegri misnotkun, ofbeldi í nánum samböndum og nauðgunum. Það er staðreynd að karlmenn og drengir verða fyrir kynferðisofbeldi, en það er einfaldlega ekki rétt að fullyrða að kvenréttindasamtök viðurkenni þá staðreynd ekki eða geri lítið úr því. Á hverju ári sækja karlmenn sér hjálp til samtaka eins og Stígamóta og Drekaslóða, því það er því miður þannig að kynferðisofbeldi gegn karlmönnum er enn mikið feimnismál og karlkyns þolendur eru jafnvel enn tregari við að leita sér hjálpar. Þannig að sú þjónusta sem er veitt karlkyns þolendum og sú þekking sem er til um þennan hóp þolenda er tilkomin vegna þeirra starfa sem hafa verið unnin af kvenréttindasamtökum og femínískum rannsóknum. Eins og er með allt kynbundið og kynferðisofbeldi, þá er mikil þörf að auka þekkingu og skilning á þessu enn frekar.

Það eru til ótal margar aðrar fullyrðingar og goðsagnir sem væri mikilvægt að nefna í þessu samhengi. Ég ákvað hins vegar að taka þessar sérstaklega fyrir til þess að benda á nokkrar af þeim ranghugmyndum sem einkenna oft umræðu um kynbundið ofbeldi og þátttöku karla í baráttunni gegn því.

Mikið hefur breyst í umræðunni undanfarin ár, málaflokkurinn hefur fengið breiðari stuðning, lagaumbætur eru komnar áleiðis, einhver þjónusta er til staðar (langt frá því nægjanleg) og svo framvegis. En við erum langt frá markmiðunum. En hvenær eru nóg nóg, við vitum það ekki, því enginn hefur búið í samfélagi án ofbeldis, án nauðgana. En það þarf ekki að þýða að það sé ekki gerlegt. Eitt af mörgu sem hefur komið fram þegar þátttaka karla kemur til , er að þetta er mjög erfitt skref fyrir suma karlmann að taka, þetta er flókið. Án efa, en ef þolendur, konur og karlar, sýna hugrekki í að takast á við það ofbeldi sem þau hafa orðið fyrir og þær afleiðingar sem því fylgja, þá er það minnsta sem við getum gert að standa með þeim.

Tómar yfirlýsingar hjálpa ekki, þetta gerist ekki af sjálfu sér og heldur ekki á stuttum tíma. Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi er ekki auðveld og felur ekki í sér neinar töfralausnir. Það þarf að spyrna á móti kvenfyrirlitningu og klámvæddum skilgreiningum á kynlífi og samskiptum kynjanna. Þátttaka er ein af lausnunum, ein af mörgum. Ásamt meiri forvarnarfræðslu, aukinn stuðning, þjónustu fyrir þolendur og réttaferli sem ber virðingu fyrir þolendum. Þátttaka okkar allra skiptir máli, þ.e. karla og kvenna. Ég hvet kynbræður mína til að taka þátt og leggja sitt fram. Við sem bræður, feður, vinir, skólafélagar og vinnufélagar, getum og eigum að leggja okkur fram við að útrýma ofbeldi gegn konum og stúlkum. Við skulum vera til fyrirmyndar í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, ekki til skammar.