UNIFEM í Bosníu og Hersegóvínu

Hjálmar G. Sigmarsson skrifar

UNIFEM í Bosníu og Hersegóvínu

Fjölbreytt starf í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldiÍ tvö ár starfaði ég á vegum íslensku friðargæslunnar sem jafnréttisráðgjafi á verkefnaskrifstofu UNIFEM (Þróunarsjóður Sameinuðu Þjóðanna í þágu kvenna) í Bosníu og Hersegóvínu.

Ég ætla hér að gera stutta grein fyrir þeim verkefnum um kynbundið ofbeldi sem UNIFEM í Bosníu hefur komið að.

UNIFEM hefur verið með starfsemi á Balkanskaganum síðan 1999 og hafa umsvif aukist mikið og nú eru reknar verkefnaskrifstofur í fimm löndum. Auk skrifstofunnar í Sarajevó, eru skrifstofur í Kosovó, Makedóníu, Serbíu og Albaníu. Skrifstofan í Sarajevó var opnuð haustið 2008 og markmiðið með opnun hennar var að styðja betur við verkefni sem UNIFEM hefur komið að þar í landi, og þá fyrst og fremst í kynjaðri hagstjórn, um  konur, frið og öryggi, atvinnuréttindi kvenna og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi.

Í Bosníu er staða jafnréttismála misjöfn og það hallar á konur á mjög mörgum sviðum, þar á meðal á sviði stjórnmála, atvinnuþátttöku, menntunar, heilsu og öryggismála. Sá málaflokkur sem hefur fengið aukna athygli og meðbyr undanfarin ár er baráttan gegn kynbundnu ofbeldi, sérstaklega heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Í Bosníu er búið að þróa lagaramma og aðgerðaáætlanir um jafnréttismál almennt og umbætur hafa átt sér stað á þeim lögum sem snerta kynbundið ofbeldi. Þrátt fyrir það er margt óunnið. Vandinn liggur fyrst og fremst í því að koma lögunum til framkvæmda og fylgja eftir þeim fyrirheitum sem í þeim felast. Það sem verið er að vinna að er enn að miklu leyti fjármagnað af alþjóðlegum þróunarsjóðum og stofnunum, og framkvæmdin liggur á mörgum sviðum að miklu leyti ef ekki öllu leyti hjá félagasamtökum.

Undanfarin ár hefur UNIFEM stóraukið stuðning sinn við verkefni gegn kynbundnu ofbeldi. Ofbeldissjóður Sameinuðu þjóðanna (e. UN Trust Fund to end Violence against Women and Girls) hefur stutt stór verkefni sem vinna að því að efla opinberar stofnanir.

UNIFEM á alþjóðavísu hefur alla tíð lagt höfuðáherslu á að vinna markvisst með félagasamtökum sem vinna með konum og að réttindum kvenna. Þessi áhersla skiptir enn miklu máli og mun áfram vera kjarni starfsemi UN Women, nýrrar jafnréttisstofnunar  Sameinuðu þjóðanna, sem tekur formlega til starfa 1. janúar á næsta ári. Til þess að tryggja að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi nái sem lengst hefur verið lögð meiri áhersla á að vinna gegn kynbundnu ofbeldi frá sem flestum sjónarhornum og með fleiri hópum. Í aðgerðaáætlun aðalritara Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, er lögð áhersla á að þróa aðferðir með hópum sem geta leikið lykilhlutverk í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, og er þar á meðal nefnt: ungt fólk, trúarhópar, minnihlutahópar og karlmenn.

Undanfarin tvö ár hefur verkefnaskrifstofan í Bosníu stutt við verkefni sem taka á kynbundu ofbeldi frá ýmsum hliðum. Þetta hafa verið verkefni með kvennathvörfum, lögreglu -og hermönnum, trúarhópum, Róma fólki, ungu fólki, karlmönnum, vændiskonum og auk þess með fórnarlömbum kynferðisofbeldis í atökunum eftir hrun Jugóslavíu. Þetta felur í sér að beita þarf mismunandi aðferðum.

Í samstarfi við félagasamtök sem reka kvennaathvörf víða í Bosníu, hefur UNIFEM stutt verkefni þar sem aðferð kynjaðrar hagstjórnar (e. Gender Responsive Budgeting) eru notaðar til þess að vekja athygli yfirvalda á þessum málaflokki og skyldum þeirra til að styðja þolendur kynbundins ofbeldis. Með úttekt á lagaskyldum og greiningu á útgjöldum hefur tekist að fá yfirvöld víðs vegar í Bosníu til að taka við sér og sums staðar er búið að festa þessar skuldbindingar í lög og koma þeim á fjárlög. Þetta verkefni er gott dæmi um mikilvægi þess að safna upplýsingum og beita rökum sem virka í því samhengi sem verið er að vinna í.

Annað gott dæmi um það er verkefni sem UNIFEM hefur unnið með félagasamtökum í því að þróa fræðsluefni og nálganir til að takast á við jafnréttismál út frá trúarbrögðum. Þetta fól í sér að fá sérfræðinga í jafnréttismálum og trúarmálum til að þróa fræðslupakka þar sem jafnréttismál voru skoðuð út frá þeim þremur trúarhefðum sem flestir iðka í Bosníu (þ.e. Íslam, orþódox og kaþólska trú) og þjálfa félagssamtök sem vinna með konum í smærri samfélögum þar sem konur eru líklegri til að verða mismunun. Á þessu ári hefur þessi leið verið þróuð nánar fyrir fræðslu um kynbundið ofbeldi og haldnar verða vinnustofur og námskeið útum alla Bosníu.

Síðan í fyrra hefur skrifstofan einnig unnið að verkefnum með ungu fólki til að takast á við kynbundið ofbeldi. Áherslan hefur verið að styðja ungt fólk við að þróa aðferðir sem höfða til ungs fólks og eru líklegar  til að vekja það til umhugsunar um kynbundið ofbeldi, sem talið er vaxandi vandamál meðal þessa hóps. Sem hluti af 16 daga átakinu gegn kynbundnu ofbeldi í Bosníu í ár, studdi UNIFEM við verkefni þar sem farið var í ferðalag til sex borga og sýndar voru 2 nýjar heimildamyndir um kynbundið ofbeldi, unnar af samtökum ungs fólk með stuðningi UNIFEM. Heimildamyndirnar voru síðan notaðar sem útgangspunktur að vinnufundum þar sem ungt fólk ræddi sín á milli hvað það gæti gert til að takast á við kynbundið ofbeldi í sínu samfélagi. Ein heimildamyndin fjallaði um mikilvægi þess að vinna með ungum karlmönnum til að takast á við kynbundið ofbeldi. Einnig hefur UNIFEM stutt við önnur verkefni sem vinna að því að virkja karlmenn í þessari baráttu, fræðslu fyrir sveitastjórnafulltrúa og jafnréttisnefndir, og einnig þróun aðgerðaáætlunar um karlmenn og jafnréttismál í samstarfi við Jafnréttisstofu Bosníu.

Þetta eru bara nokkur dæmi um það fjölbreytta starf sem UNIFEM hefur stutt í Bosníu sem varðar baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðisofbeldi. Með stofnun UN Women er vonast til að þetta starfi verði þróað áfram og hægt verði að styðja félagsamtök og yfirvöld í Bosníu ennfrekar til að takast á við hinar fjölmörgu birtingarmyndir kynbundins ofbeldis.

Nánari upplýsingar um UNIFEM í Bosníu er að finna á eftirfarandi vefsíðum:
http://www.unifem.sk/
http://www.16dana.ba/?lang=en