Verður jafnréttislögregla kannski nauðsynleg?

Erindi flutt á námstefnu í Færeyjum 4. júní 2009Á síðasta ári voru sett ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á Íslandi. Þau tóku gildi þann 18. mars og eru númer 10/2008. Þetta eru fimmtu jafnréttislögin sem sett eru á Íslandi, en þau fyrstu voru sett árið 1976. Tilgangur þeirra laga var að „stuðla að jafnrétti kynjanna“.Jafnréttislög hafa verið endurskoðuð reglulega, meðal annars vegna þess að þau hafa ekki þótt skila nógum árangri og einnig til að vera í takti við alþjóðlegar samþykktir og skuldbindingar.

Næstu jafnréttislög voru samþykkt árið 1985. Hlutverk þeirra var „að koma á jafnrétti“. Með þessum lögum kom einnig inn eftirlitshlutverk Alþingis, en í lögunum var ákvæði um að ráðherra gæfi Alþingi árlega skýrslu um stöðu jafnréttismála og ríkisstjórninni var uppá lagt að semja sérstaka aðgerðaáætlun til að ná fram jafnrétti.

Þriðju jafnréttislögin voru samþykkt árið 1991. Tilgangur þeirra var að bæta hlut kvenna sérstaklega og kærunefnd jafnréttismála var sett á fót. Kveðið var á um sérstaka sönnunarreglu, sem með nokkurri einföldun er þannig að sá sem grunur er um að hafi brotið lögin þurfi nú að sýna fram á að hann hafi ekki gert það. Þessi sönnunarregla er áfram í núgildandi lögum.

Fjórðu jafnréttislögin voru sett árið 2000. Þá höfðu ýmsar breytingar orðið í alþjóðasamfélaginu. Þar má nefna Peking sáttmálann og að Ísland var orðið aðili að EES samningnum. Markmið laganna frá 2000 var að „koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.“ Lögð var áhersla á það að samþætta jafnréttissjónarmið inn í alla stefnumótun og ákvarðanatöku, þannig að jafnréttismálin kæmust alls staðar á dagskrá. Í þessum lögum var það í fyrsta skipti eitt af markmiðunum að virkja karla í jafnréttisumræðu. Jafnréttisstofa var stofnuð til þess meðal annars að hafa eftirlit með því að farið væri eftir janfréttislögunum. Einnig var kveðið á um það að fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn ættu að setja sér jafnréttisáætlun.

Núgildandi jafnréttislög nr. 10/2008 tóku gildi þann 18. mars 2008, eða 32 árum eftir að fyrstu jafnréttislögin voru samþykkt. Markmið laganna er „að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.“ Þetta yfirmarkmið er það sama og var í lögunum frá 2000. Ýmis ný atriði komu inn með þessum lögum og verður hér gerð grein fyrir þeim helstu.

Eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu gert skýrara.

Þrátt fyrir að jafnréttislög hafi verið í gildi á Íslandi í rúm 30 ár þá er ekki hægt að segja að á Íslandi sé búið að ná markmiðum laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Því var það talið nauðsynlegt að efla eftirlit og eftirfylgni með lögunum. Samkvæmt 4. og 5. mgr. 4. gr. laganna hefur Jafnréttisstofa nú skýrar heimildir til að afla gagna hjá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum í tilvikum þegar stofan hefur rökstuddan grun um brot á lögunum. Tilgangurinn með gagnaöfluninni er þá að meta hvort ástæða sé til að óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar. Verið viðkomandi aðilar ekki við beiðni Jafnréttisstofu um gögn þá getur stofan, að gefnum hæfilegum fresti, lagt á dagsektir, allt að kr. 50 þúsund á dag.
Jafnréttisstofa hefur einnig, samkvæmt 18. gr. laganna, eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir sem hafa fleiri en 25 starfsmenn geri jafnréttisáætlanir eða samþætti jafnréttissjónarmið inn í starfsmannastefnu sína. Jafnréttisstofa metur einnig hvort efni þessara áætlana sé viðunandi. Jafnréttisstofa einnig kallað eftir skýrslum um stöðu og framgang jafnréttismála frá umræddum fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum. Ef Jafnréttisstofu eru ekki veittar umbeðnar upplýsingar eða gögn látin í té þá getur stofan í þessum tilvikum beitt dagsektum, allt að kr. 50 þúsund á dag.

Bindandi úrskurðir kærunefndar jafnréttismála.

Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála eru nú bindandi fyrir málsaðila, saman ber 4. mgr. 5. gr. Fram að gildistöku þessara laga gaf kærunefndin aðeins álit sitt á málum. Með því að gera úrskurðina bindandi fá niðurstöður kærunefndarinnar meira vægi en áður var. Jafnréttisstofa skal núna fylgja úrskurðum kærunefndarinnar eftir ef kærandi óskar þess. Fari hinn brotlegi samkvæmt úrskurðinum ekki að fyrirmælum Jafnréttisstofu um að gera úrbætur samkvæmt úrskurðinum þá getur stofan lagt á dagsektir allt að kr. 50 þúsund á dag.

Kynjakvóti í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera.

Í 15. gr. laganna er enn nýmæli. Þar er kveðið á um það að í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli hlutfall kynjanna vera sem jafnast og aldrei minna en 40% þegar fulltrúar eru fleiri en þrír. Þetta gildir einnig um stjórnir hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki og sveitarfélög eru aðaleigendur að. Þarna er því í raun og veru mælt fyrir um kynjakvóta í stjórnum, nefndum og ráðum.
Jafnréttisstofa fylgist grannt með því að farið sé eftir þessu ákvæði og því miður er misbrestur á því að ríkið fari eftir þessu ákvæði. Það stefnir þó í rétta átt. Rétt er að benda á að Jafnréttisstofa hefur ekki heimildir til að leggja á dagsektir ef ríki og sveitarfélög fara ekki eftir 15. gr. og kannski er það ekki raunhæfur kostur að opinber stofnun kveði á um sektir opinberra aðila, en rétt er að benda á að ekkert valdboð fylgir 15. greininni.

Kynjasamþætting (Gender Mainstreaming).

Kveðið er á um það í 17. gr. laganna að ráðuneytum og stofnunum á þeirra málefnasviðum sé skylt að beita aðferðafræði kynjasamþættingar til þess að tryggja að sjónarmið varðandi bæði kynin séu ávallt höfð til hliðsjónar við alla ákvarðanatöku og alla stefnumótum á vegum hins opinbera. Þetta ákvæði er einnig í samræmi við eitt af meginmarkmiðum laganna um að „gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins“ eins og segir í a. lið 1. mgr. 1. gr. Til þess að auka þekkingu stjórnvalda varðandi kynjasamþættingu þá hefur Jafnréttisstofa staðið fyrir námskeiðum, bæði á síðasta ári og núna í maí 2009, þar sem sænskur sérfræðingur hefur komið og haldið erindi og þjálfað fólk í aðferðum kynjasamþættingar.

Afnám launaleyndar.

Launaleynd hefur verið talin vera ein af ástæðum þess að launamunur kynjanna er viðvarandi. Til þess að vinna gegn þessu er í jafnréttislögunum nú kveðið á um það í 19. gr. að launafólki sé tryggður réttur til þess að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs. Þetta þýðir að atvinnurekendur geta ekki krafist þess af starfsfólki sínu að það semi sig undir ákvæði um launaleynd. Slík samningsákvæði eru óheimil og hafa því ekki gildi. Þetta ákvæði er mikil bót frá því sem var, en þó alls ekki nægjanlegt til þess að afnema launaleynd í raun. Til þess þyrfti að kveða með einhverjum hætti á um skyldu atvinnurekanda til að hafa launaupplýsingar „uppi á borðinu“ , hafa gagnsæi varðandi laun og launakjör. Vonandi verður það gert við næstu endurskoðun jafnréttislaga.

Jafnréttisþing.

Í 10. gr. laganna kemur fram að félags- og tryggingamálaráðherra skuli boða til jafnréttisþings á tveggja ára fresti. Á þinginu á að fjalla um jafnréttismál og félags- og tryggingamálaráðherra á að leggja fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála við upphaf þingsins. Fyrsta jafnréttisþing samkvæmt þessum lögum var haldið í Reykjavík þann 16. janúar s.l. Þingið var, lögum samkvæmt, öllum opið og þátttakendur voru yfir 500. Samkvæmt jafnréttislögunum á félags- og tryggingamála að hafa hliðsjón af umræðum á jafnréttisþingi við samningu framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum. Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum verður lögð fram í haust.

Skýringar lykilhugtaka.

Í 2. gr. laganna koma fram orðskýringar á lykilhugtökum. Þar eru meðal annars hugtökin bein og óbein mismunun skýrð, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi og samþætting. Þetta er mjög mikilvægt til þess að auðvelda alla umræðu og tryggja þannig að sami skilningur sé á hugtökunum hjá þeim sem um þessi málefni fjalla.

Þetta eru helstu nýmælin í lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem sett voru í mars 2008. Til viðbótar verða hér nefnd nokkur ný verkefni sem Jafnréttisstofu voru falin með nýju lögunum.

Forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi.

Í i-lið 3. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að Jafnréttisstofa eigi að vinna að „forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega“. Kynbundið ofbeldi er samfélagslegt vandamál í öllum löndum og þáttur í því að viðhalda kynjaskekkju. Þetta er málaflokkur sem því miður hefur lengi verið erfitt að fá í opinbera umræðu, en slíkt er nauðsynlegt til þess að mögulegt geti orðið að vinna með markvissari hætti að því að uppræta þetta ofbeldi. Það að fá skýringu á hugtakinu inn í lög og einnig að kveða á um skyldu Jafnréttisstofu og fleiri til að vinna að forvörnum eru því mikilvæg skref í átt til þess að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.
Vinna gegn neikvæðum staðalímyndum
Samkævmt l-lið 3. mgr. 4. gr. á Jafnréttisstofa að vinna að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla. Jafnréttisstofa tekur nú til dæmis þátt í verkefni á vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (European Commission) og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um að brjóta upp staðalmyndir í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. (SME´s)

Staða mála á Íslandi í dag.

Mjög margt hefur áunnist í jafnréttismálum síðan fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976. Eftir Alþingiskosningarnar sem voru þann 25. apríl síðast liðinn eru konur nú 43% (42,85%) þingmanna. Í ríkisstjórn eru 40% ráðherra konur. Sýnileiki kvenna er því meiri á Alþingi núna heldur en nokkurn tíman áður. Samkvæmt tölum frá 1. september 2008 eru konur 27% bæjarstjóra, en karlar 73%, og konur eru 36% bæjarfulltrúa en karlar 64 %. Kosið verður til sveitastjórna á næsta ári. Jafnréttisstofu hefur verið falið það hlutverk að vinna að auknum hlut kvenna í sveitarstjórnum og nú þegar er hafinn undirbúningur að því starfi. Varðandi fyrirtæki á einkamarkaði þá eru konur, samkvæmt nýrri könnun Creditinfo á Íslandi, 18,5% framkvæmdastjóra. Karlkyns framkvæmdastjórar eru með 32% hærri laun en kvenkyns framkvæmdastjórar og samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands eru atvinnutekjur kvenna 62% af atvinnutekjum karla. Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði s.l. haust var leiðréttur kybundinn launamunur 19,5%, það er karlar eru að jafnaði með 19,5% hærri heildarlaun en konur. Þetta getur þó hafa breyst eitthvað á síðustu mánuðum í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi.

Þessi grein hófst á nokkrum orðum um jafnréttislögin sem í gildi hafa verið á Íslandi í rúm 30 ár. Ljóst er að staða jafnréttismála á landinu hefur breyst til batnaðar á þessum tíma. Árið 1974 voru konur til dæmis einungis 5% alþingismanna. Kynbundinn launamunur er hins vegar viðvarandi og konur eru færri í öllum áhrifastöðum, sérstaklega innan fyrirtækja eins og áður er nefnt.

Hvað er til ráða? Hvernig er hægt að tryggja það að staða og réttur kynjanna sé jafn eins og marmkiðið er samkvæmt jafnréttislögum? Með því að skoða breytingar á jafnréttislögum gegnum þessi rúmu 30 ár þá sést vel hvernig lögin hafa breyst frá því að vera nokkuð almennt orðuð um það að konur og karlar eigi að vera jöfn, yfir í það að innihalda fyrirmæli um nákvæmar aðgerðir sem á að grípa til, ekki síst á vinnumarkaði, til þess að jafna stöðu kynjnna. Valdboð fylgdu svo nýjustu lögunum eins og ég hef þegar gert grein fyrir.

Yfirskrift þessarar greinar er „Verður janfréttislögregla kannski nauðsynleg?“ Með þessari yfirskrift er bent að það gengur hægt að ná raunverulega jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla. Löggjafinn á Íslandi hefur metið það sem svo að nauðsynlegt hafi verið að kveða á um frekari valdboð en áður þekktust í þessum málaflokki, allt með það að markmiði að ná jafnrétti kynjanna. Það er ekki komin reynsla á það ennþá hvort dagsektirnar sem Jafnréttisstofa getur lagt á og það að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála séu nú bindandi muni ýta okkur frekar í rétta átt. Tíminn á eftir að leiða það í ljós. Það má velta því upp hvað löggjafinn muni gera ef þær valdheimildir sem nú eru í lögunum munu ekki duga, þá gæti næsta skrefið verið einhvers konar jafnréttislögregla. Vonandi þarf þó ekki að koma til þess. Vonandi reynast núgildandi lög raunhæft tæki til að vinna að því að staða kvenna og karla og réttur þeirra verið raunverulega jafn í íslensku samfélagi.