Sveitarfélög minnt á lagaskyldu

Allnokkur sveitarfélög eru með í bígerð að breyta útfærslum á dvalartíma barna í leikskólum og gjaldskrám þeim tengdum og því hefur Jafnréttisstofa sent bréf til sveitarfélaganna þar sem þau eru minnt á skylduna til að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við ákvarðanatöku.

Kynja- og jafnréttissjónarmið skv. 7. tölulið 2. gr. laga nr. 150/2020 fela í sér að „stefnumótunarferli er skipulagt, bætt, þróað og lagt á það mat þannig að sjónarhorn jafnréttis kynja sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.“

Í bréfinu er sveitarfélögin minnt á að til þess að unnt sé að flétta kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun og þar með ákvarðanatöku þarf að afla nauðsynlegra gagna sem varpað geta ljósi á áhrif sem verða á ólíka hópa, í þessu tilviki, foreldra leikskólabarna.

Það er von Jafnréttisstofu að sveitarfélögin horfi ekki einungis til nálægrar framtíðar heldur einnig til þess hvaða áhrif ákvarðanir geti haft til langs tíma. Kortlagning og kynjagreining sveitarfélaganna ætti meðal annars að afhjúpa að sögulega hallar verulega á konur á öllum sviðum vinnumarkaðar, þ.e. hvað varðar vinnutíma, laun, lífeyrisréttindi, starfsþróun o.fl. Þá eru vinnulitlar konur og einstæðar mæður sérstaklega viðkvæmur hópur þegar kemur að kerfisbreytingum. Rannsóknir sýna einnig að ábyrgð kvenna á 2. og 3. vaktinni umfram karla á verulegan þátt í kynjahallanum á vinnumarkaði og því þarf að meta allar ákvarðanir út frá ólíkum þáttum.

Jafnréttisstofa bendir á lagaskylduna og mikilvægi þess að áhrif ákvarðana komi sér ekki verr fyrir hópa í viðkvæmri stöðu og séu í samræmi við markmið laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og laga nr. 85/2018 um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

Áður birt frétt um lagaskyldu sveitarfélaganna: https://www.jafnretti.is/is/um-jafnrettisstofu/frettir/er-akvardanataka-i-leikskolamalum-tekin-ut-fra-kynja-og-jafnrettissjonarmidum