TIL HAMINGJU MEÐ NÝ JAFNRÉTTISLÖG

19.01.2021 Arnfríður Aðalsteinsdóttir skrifar

TIL HAMINGJU MEÐ NÝ JAFNRÉTTISLÖG

Ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna

Ný lög um stjórnsýslu jafnréttismála

 

Ný lög taka gildi

Í lok síðasta árs voru samþykkt á Alþingi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög um stjórnsýslu jafnréttismála.  Lögin sem hafa laganúmerin 150/2020 og 151/2020 taka við af lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Markmið nýju laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (150/2020) eru þau sömu og eldri laga, þ.e. að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Helsta breytingin felst í því að ekki er lengur talað um tvö kyn, karl og konu, heldur er nú með kyni einnig átt við fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Þetta er í samræmi við lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði sem heimila einstaklingum að skilgreina kyn sitt sjálfir.

 

Lög um stjórnsýslu jafnréttismála (151/2020) eru nú sett í fyrsta sinn. Lögin taka til stjórnsýslu jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál nær til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (150/2020), lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna (85/2018) og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu (86/2018). 

 

Jafnréttisáætlanir fyrirtækja og stofnana

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skulu fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli setja sér aðgerðabundna jafnréttisáætlun, eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Í áætluninni skal koma fram hvernig starfsfólki eru tryggð réttindin sem kveðið er á um í 6.-14. gr. laganna.

 

 • 6. gr. Almenn ákvæði um launajafnrétti.
 • 7. gr. Jafnlaunavottun.
 • 8. gr. Jafnlaunastaðfesting.
 • 12. gr. Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun.
 • 13. gr. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs.
 • 14. gr. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni.

 

Þrátt fyrir að lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nái einungis til kyns hafa sumir vinnustaðir farið þá leið að taka fleiri þætti inn í jafnréttisáætlanir sínar þó svo að það sé ekki skylt samkvæmt lögum. Í ljósi þess er athygli vakin á lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Einnig er rétt að benda á að auk þessa ber opinberum stofnunum að gæta kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun og áætlanagerð sbr. 30. gr. laga nr. 150/2020.

 

Leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana.

 

Áætlanir sveitarfélaga um jafnréttismál

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála skulu sveitarstjórnir að afloknum sveitarstjórnarkosningum sjá til þess að sveitarfélagið setji sér áætlun fyrir nýtt kjörtímabil. Skal hún lögð fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitastjórnarkosningar. Sveitarstjórn skal fela byggðaráði eða annarri fastanefnd sveitarfélags að fara með jafnréttismál og hafa, með stuðningi starfsfólks, umsjón með undirbúningi áætlunar og framkvæmd hennar. Áætlunin skal lögð fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar, hún rædd árlega í sveitarstjórn og endurskoðuð eftir þörfum.

 

Með nýjum lögum um stjórnsýslu jafnréttismála er sveitarfélögum gert skylt að taka fleiri þætti en kyn inn í áætlanir sínar. Sveitarfélögin þurfa nú að setja sér markmið og tilgreina aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli eftirfarandi laga:

 • Lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
 • Lög nr. 85/2018 um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar.
 • Lög nr. 86/2018 um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Í áætlun sveitarfélagsins skal einnig koma fram hvernig unnið er að kynja- og jafnréttissjónarmiðum á öllum sviðum, m.a. tiltaka markmið og aðgerðir til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við ráðstöfun fjármagns, í þjónustu sveitarfélagsins og starfsmannamálum.

Leiðbeiningar fyrir sveitarfélög.

 

Jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfesting

Jafnréttisstofa starfar skv. lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Verkefni Jafnréttisstofu eru tilgreind í 4. gr. laganna og meðal nýrra verkefna er umsjón og eftirlit með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu. Jafnlaunavottunin var lögfest í júní 2017 og ber nú öllum fyrirtækjum og stofnunum með 25 starfsmenn eða fleiri að fara í gegnum slíka vottun sem hér segir:

 

 Jafnlaunastaðfestingin er hins vegar nýmæli í lögunum en nú geta fyrirtæki og stofnanir með 25 til 49 starfsmenn, að undanskyldum opinberum aðilum, sjóðum og fyrirtækjum sem eru að hálfu eða í meiri hluta í eigu ríkisins, valið á milli þess að:

 • Öðlast jafnlaunavottun að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfinu. Vottunaraðilinn staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85:2012.
 • Öðlast jafnlaunastaðfestingu að undangenginni úttekt og staðfestingu Jafnréttisstofu á því að jafnlaunastefna fyrirtækisins / stofnunarinnar, jafnréttisáætlun og launagreining byggð á starfaflokkun uppfylli kröfur laganna.

Jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu skal endurnýja þriðja hvert ár.

 

Hlutverk Jafnréttisstofu og heimild til að beita dagsektum

Jafnréttisstofa hefur eftirlit á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál nær til og er eftirlitinu m.a. sinnt með innköllun jafnréttisáætlana frá fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum. Ef umbeðin gögn berast ekki eða þau uppfylla ekki kröfur laganna ítrekar Jafnréttisstofa erindið og gefur frest til að gera úrbætur. Bregðist viðkomandi ekki við þrátt fyrir ábendingar um úrbætur og ítrekanir hefur Jafnréttisstofa heimild til að beita dagsektum sbr. 6. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála. Það sama á við ef fyrirtæki eða stofnanir sinna ekki jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu.

 

Vinnulag við beitingu dagsekta

Forsendur mats á jafnréttisáætlunum

 

Auk eftirlits með löggjöf um jafnréttismál og umsjón og eftirlit með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu sinnir Jafnréttisstofa fræðslu og upplýsingastarfsemi og veitir stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf í tengslum við jafnrétti þegar kemur að kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

 

Jafnréttisstofa vinnur auk þess að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum. Einnig ber Jafnréttisstofu að vinna gegn neikvæðum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla sem og neikvæðum staðalímyndum byggðum á kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

 

Jafnréttisstofa er því bæði þjónustu- og eftirlitsstofnun sem hægt er að leita til ef eitthvað er óljóst og ef einhverjar spurningar vakna er snúa að jafnréttislöggjöfinni. Það sama á við ef einstaklingur telur á sér brotið á grundvelli þessara laga.