Viðburðaríku ári að ljúka

Árið 2009 verður lengi í minnum haft vegna stórra skrefa sem stigin voru í átt til jafnréttis kynjanna. Eins og fólk eflaust man hófst árið á miklum mótmælum sem leiddu til falls ríkisstjórnarinnar og nýrrar minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Í fyrsta sinn settist kona í sæti forsætisráðherra í gamla stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Ekki nóg með það heldur varð tala kvenna og karla á ráðherrastólum jöfn í fyrsta sinn í sögu landsins. Á tíma „100 daga stjórnarinnar“ urðu þau tímamót að Alþingi samþykkti að gera kaup á vændi refsiverð. Nú bendir allt til þess að reyna muni á bannið í málum sem eru til rannsóknar og tengjast mansali og rekstri vændishúss í Reykjavík.

Í apríl fóru fram alþingiskosningar og þá urðu þau tímamót að hlutur kvenna óx úr 33% (miðað við kosningarnar 2007) í 43%. Þar með komst Ísland upp í fjórða sæti á lista Alþjóða þingmannasambandsins en er nú í því fimmta. Í öðru ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur minnkaði hlutur kvenna að nýju en það breyttist síðar á árinu er einn karlráðherranna sagði af sér og kona tók við. Ísland er því eitt örfárra landa þar sem hlutfall kvenna og karla er jafnt í ríkisstjórnum. Sömu sögu er að segja frá Noregi en í Finnlandi eru konur í meirihluta ríkisstjórnarinnar. Það er örugglega gildandi heimsmet. Norðurlöndin eru að standa sig vel flest hver því Svíþjóð er í öðru sæti í heiminum hvað varðar stöðu kvenna á þjóðþingum.

Ár hinna stóru ráðstefna

Ísland fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu og lét ekki sitt eftir liggja í jafnréttismálum. Jafnréttisstofa tók að sér að halda utan um fjögur verkefni og hefur það verið mikið starf. Í byrjun júní var haldin tveggja daga námstefna í Þórshöfn í Færeyjum til að leggja áherslu á samvinnu landanna sem tilheyra „Vestnorden“, þ.e. Færeyja, Grænlands og Íslands. Námsstefnan var vel sótt og tóku Færeyingar virkan þátt en aðeins einn fulltrúi kom frá Grænlandi.

Fyrri daginn var fjallað um jafnrétti í skólastarfi og þann síðari um jafnréttislög og jafnréttisáætlanir. Margt fróðlegt kom fram á námsstefnunni. Það var skemmtilegt að heyra Marna Jakobsen frá Færeyjum segja frá lestrarefni í færeyskum skólum undanfarna áratugi en þar eru hefðbundnar myndir af kóngum, drottningum, prinsum og prinsessum að ógleymdum nornrum, enn býsna fyrirferðamiklar. Merkilegt hvernig samfélög fyrri alda lifa í hugum okkar og hvað prinsessudraumar eru lífseigir, eins og þær eru nú orðnar fáséðar eins og reyndar nornirnar. Hans Petter Grave frá Noregi sagði frá fyrirhuguðum breytingum á lagaumhverfi jafnréttis- eða misréttismála í Noregi. Þar stendur til að búa til nýjan lagabálk sem tekur á allri mismunun. Álitamálin sem tekist var á við voru fjöldamörg og mjög fróðlegt að hlusta á Grave sem er lagaprófessor við Óslóarháskóla. Fleira mætti nefna en það sem er einna minnisstæðast er sú yfirlýsing lögmanns Færeyja að það vanti 2000 konur inn í samfélagið. Fjöldi fólks flutti burt en konurnar snéru ekki til baka eftir kreppuna sem Færeyingar gengu í gegnum undir lok 20. aldar. Nú ræða menn hvernig gera megi samfélagið eftirsóknarverðara fyrir konur en rannsókn sem sagt var frá leiddi í ljós að mjög margar færeyskar konur eru óánægðar með stöðu sína og finnst karlremba keyra úr hófi fram í Færeyjum.

Jafnrétti í skólastarfi

Næst bar til tíðinda að haldin var norræn ráðstefna í Reykjavík í september um jafnrétti í skólastarfi. Hún var afar vel sótt og mikið af skólafólki af öllum skólastigum sem tók þátt. Sólskinsverkefni eða fyrirmyndarverkefni frá öllum Norðurlöndunum voru kynnt og fyrirlestrar fluttir. Sérstakur gestur var Mike Younger prófessor frá Bretlandi sem sagði m.a. að allar rannsóknir sýndu að enginn mælanlegur munur væri á námsgetu stráka og stelpna. Það eru því félagsleg mótun og áhrif sem valda mismunandi líðan og árangri kynjanna. Kynnt var samantekt á norrænum skóla- og námsrannsóknum, fróðlegt yfirlit sem hægt er að nýta við kennslu og rannsóknir. Ég vil sérstaklega nefna erindi Elisabeth Wahl þar sem hún sagði frá aðgerðum sveitarfélaga í N-Svíþjóð til að auka jafnrétti kynjanna. Þar höfðu menn lengi horft aðgerðalausir á konurnar flytja burt til að mennta sig og karlana verða eftir við skógarhögg og landbúnað. Konurnar snéru ekki aftur. Jafnrétti kynjanna er lykillinn að því að gera samfélögin lífvænleg. Þetta mættu mörg íslensk sveitarfélög hafa í huga. Íslenska verkefnið Jafnrétti í leik- og grunnskólum var kynnt sérstaklega en það hefur heppnast einstaklega vel. Fimm leik- og grunnskólar þróuðu spennandi verkefni og fer nú fram víðtæk kynning á framlagi þeirra sem lesa má um á heimasíðu verkefnisins www.jafnrettiiskolum.is

Foreldrar í orlofi

Næsta ráðstefna var haldin í október og fjallaði um foreldraorlof á Norðurlöndunum og var hún einnig vel sótt. Miklar umræður eiga sér nú stað víða í Evrópu um foreldraorlof enda hefur dregið mikið úr barnsfæðingum og ljóst að ekki tekst að snúa þróuninni við jafnframt því að auka atvinnuþátttöku kvenna öðru vísi en að komið verði til móts við fjölskyldur með bættri þjónustu. Fæðingar- og foreldraorlof á Norðurlöndum hefur því vakið mikla athygli víða um lönd ekki síst fæðingarorlof feðra á Íslandi en hvergi í heiminum mælist þátttaka þeirra meiri í umönnun ungra barna.

Á síðasta ári ákvað jafnréttisnefnd Norrænu ráðherranefndarinnar (ÄK-JÄM) að efna til stórrar samanburðarrannsóknar á fæðingar- og foreldraorlofi á Norðurlöndum, m.a. til að mæta miklum áhuga annarra þjóða. Fræðimenn frá Norðurlöndunum vinna við að bera saman mismunandi kerfi, lengd og greiðslur en einnig er lögð áhersla á að kanna áhrif foreldraorlofs á jafnrétti kynjanna, sem og börn og fjölskyldur út frá ýmsum sjónarhólum, t.d. heilsu. Sérstakur gestur ráðstefnunnar var Janet Gornick prófessor frá Bandaríkjunum. Það vakti athygli ráðstefnugesta hve viðhorf til aðkomu ríkisins að stuðningi við foreldra eru gríðarlega misjöfn þar vestra enda staða foreldra í Bandaríkjunum gjörólík því sem við þekkjum á Norðurlöndunum. Bandaríkin eru eitt örfárra ríkja í heiminum sem ekki býður upp á greiðslur í fæðingarorlofi. Ingólfur V. Gíslason greindi frá því að fæðingarorlofskerfið á Íslandi hefði ekki haft þau áhrif að draga úr launamisrétti kynjanna en hefur samt jafnað stöðuna hvað varðar stöðuveitingar. Berit Brandt frá Noregi varpaði m.a. fram þeirri spurningu hvort leikskólar væru orðnir griðastaður fyrir börn, eini staðurinn þar sem ríkti festa og ró í heimi hraða, spennu og þeytings út og suður með stressuðum foreldrum. Rannsókninni lýkur á næsta ári og verða niðurstöður þá kynntar sérstaklega.

Framfarir í stjórnmálum en atvinnulífið stendur sig illa

Síðasta norræna ráðstefnan var svo haldin í nóvember og fjallaði um kyn og völd. Hún var feiknavel sótt og komu um 130 manns frá hinum Norðurlöndunum. Árið 2007 ákvað jafnréttisnefnd Norrænu ráðherranefndarinnar (ÄK-JÄM) að fela NIKK (Nordisk Institut for Kunskap om Køn) að gera úttekt á kyni og völdum á Norðurlöndum og sjálfstjórnarsvæðunum þremur. Það dróst að koma verkefninu af stað og því kom það í hlut Íslendinga að halda utan um lokaráðstefnu verkefnisins. Fjölmennur hópur fræðimanna frá öllum Norðurlöndunum kom að gerð skýrslu um kyn og völd en auk skýrslunnar fylgir með greinasafn þar sem niðurstöðurnar eru greindar nánar. Sérstakur gestur ráðstefnunnar var Claes Borgström fyrrverandi umboðsmaður jafnréttismála í Svíþjóð. Kirsti Niskanen verkefnisstjóri gerði grein fyrir aðferðafræði og helstu niðurstöðum verkefnisins en segja má að miklar framfarir hafi orðið hvað varðar jafnrétti kynjanna í stjórnmálum meðan atvinnulífið stendur sig mun lakar. Noregur sker sig þó úr hvað varðar stjórnir fyrirtækja enda leiddu Norðmenn kvóta í lög fyrir nokkrum árum sem nær til fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni. Árangur er sá að Norðmenn standa sig allra þjóða best hvað varðar jafnrétti kynjanna í stjórnum fyrirtækja og er almenn ánægja með það. Þær Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir prófessor önnuðust rannsóknina að hálfu Íslands. Fjölgun kvenna á Alþingi Íslendinga og jöfn tala kvenna og karla í ríkisstjórn landsins á krepputímum þótti merkileg en staðan í atvinnulífinu þar sem konum hefur fækkað í stjórnum fyrirtækja vakti undrun. Undir lokin fóru fram pallborðsumræður með þátttöku fólks úr stjórnmálum, atvinnulífi og fræðasamfélaginu þar sem sjónir beindust mjög að atvinnulífinu ekki síst kostum eða göllum kvóta. Á næsta ári verður rannsókninni fylgt eftir með ráðstefnum og vonandi frjóum umræðum.

Ávörp og fyrirlestra frá öllum ráðstefnunum má sjá á heimasíðu Jafnréttisstofu  www.jafnretti.is undir fyrirsögninni Formennska Íslands 2009.
 
Jöfnum leikinn og útrýmum staðalímyndum

Eins og gefur að skilja fór mikill tími starfsfólks á Jafnréttisstofu í að sinna norrænu verkefnunum en mörgu öðru var sinnt. Verkefnið Jafnrétti í leik- og grunnskólum vakti verulega athygli og var haldin lokaráðstefna um það síðast liðið vor. Verkefnisstjórinn Arnfríður Aðalsteinsdóttir heimsótti fjölda skóla, fór á fund skólastjórnenda, skólaskrifstofa og annarra sem áhuga höfðu. Fyrri hluta verkefnisins Samstíga (Side by side) sem stutt er af Evrópusambandinu lauk og síðari hlutinn tók við. Verkefnið gengur út á að útbúa námsefni um samþættingu og halda námskeið um hana einkum fyrir stjórnendur í opinbera geiranum. Þau Bergljót Þrastardóttir, Hugrún Hjaltadóttir og Tryggvi Hallgrímsson halda utan um verkefnið. Þá tók Jafnréttisstofa þátt í Evrópuverkefni um útrýmingu heftandi staðalímynda með hvatningu um að nýta mannauðinn. Ingibjörg Elíasdóttir stýrði verkefninu hér á landi og voru haldin alls þrjú námskeið en von á framhaldi. Verkefnið Karlar til ábyrgðar hélt áfram og hafa nú hátt í 60 karlar fengið meðferð á vegum þess. Þann 19. júní var farið í kvennasögugöngu um gamla innbæinn á Akureyri og var þátttaka góð. Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn á Ísafirði í byrjun september og var aðal umræðuefnið kyn og völd með komandi sveitarstjórnarkosningar í huga. Að venju tók Jafnréttisstofa þátt í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og var efnt til samkomu 10. des. Á lokadegi átaksins og mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna. Að loknum fundi var farin ljósaganga að Ráðhústorginu á Akureyri þar sem samstaða var sýnd með því að þátttakendur mynduðu hring á torginu.

Út og suður

Útgáfa náms- og fræðsluefnis var með mesta móti á árinu. Í upphafi árs var gefið út dagatal í tilefni af 30 ára afmæli Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Síðan kom út bókin Jöfnum leikinn sem fjallar um samþættingu kynjasjónarmiða inn í alla stefnumótun og loks heftin Afnemum staðalímyndir kynjanna, annars vegar úrræði fyrir ráðgjafa og hins vegar verkfærakista. Bæklingurinn Konur og karlar á Íslandi 2009 var gefinn út í þriðja sinn bæði á íslensku og ensku og bæklingurinn Gender Equality in Iceland var uppfærður. Þá var prentað plakat tileinkað baráttu gegn kynbundnu ofbeldi en það vann til verðlauna á síðasta ári.

Starfsfólk Jafnréttisstofu hefur tekið þátt í starfi ýmissa hópa og nefnda á árinu. Þar má nefna jafnréttisvaktina, lánasjóð til atvinnumála kvenna, stýrihóp sem fylgir eftir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn kynbundnu ofbeldi, hópur um smíði á jafnréttislaunastaðli, kynjaða hagstjórn, nefnd til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. o.fl.

Jafnréttisstofa tekur verulegan þátt í erlendu samstarfi. Jafnréttisstýra sótti fundi jafnréttisnefndar Norrænu ráðherranefndarinnar vegna formennskuársins en hún situr einnig í jafnréttisnefnd EFTA og ráðgjafarhópi Evrópusambandsins í jafnréttismálum. Hún sótti einnig fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Hugrún Hjaltadóttir er nú fulltrúi í jafnréttisnefnd Evrópuráðsins og Tryggvi Hallgrímsson hefur flutt fyrirlestra í Stokkhólmi og Brussel um kreppuna og áhrif hennar á kynin. Þá hefur starfsfólk flutt fyrirlestra víða um land og farið í heimsóknir til félaga og stofnana.

Afmælisár framundan

Af því sem hér hefur verið talið má ljóst vera að árið 2009 var viðburðaríkt á sviði jafnréttismála. Merkileg skref voru stigin en margt er eftir enn. Það er áhyggjuefni að konum hefur fækkað í stjórnum fyrirtækja hér á landi enda er nú búið að leggja fram tillögu um kvóta á Alþingi. Lítið dregur úr kynbundnum launamun en fróðlegt verður að sjá hver þróunin verður er líða tekur á kreppuna. Atvinnuleysi er enn meira meðal karla en kvenna en mjög mikilvægt er að hafa bæði kyn í huga við alla atvinnusköpun. Sköpunarstarf og þjónusta skilar líka arði í þjóðarbúið rétt eins og fiskveiðar, húsasmíði og brúargerð og lítil fyrirtæki skipta miklu máli. Niðurskurður í velferðarkerfinu er mikið áhyggjuefni og þarf að fylgjast vel með því hvernig hann bitnar á kynjunum, hvoru um sig.

Já, þetta hefur verið ár mikilla viðburða og mikilla átaka. Við getum aðeins vonað að næsta ár verði okkur blíðara en svo mikið er víst að það verður erfitt. Samt sem áður er margt framundan á sviði jafnréttismála. Í vor verður kosið til sveitarstjórna og er undirbúningur þegar hafinn til að stuðla að fjölgun kvenna á því mikilvæga stjórnunarstigi en þær eru nú allt of fáar eða 36%. Næsta ár verður mikið afmælisár og má t.d. minna á 100 ára afmæli 8. mars sem er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Kosningaréttur kvenna til Alþingis verður 95 ára eða 90 ára eftir því hvort við miðum við 1915 eða 1920 þegar allar konur fengu kosningarétt. Kvenfélagasamband Íslands verður 80 ára og 30 ár verða liðin frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Fimmtán ár verða liðin frá kvennaráðstefnunni í Kína og stendur mikið til á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Jafnréttisstofa verður 10 ára.  Þannig mætti áfram telja en allt þetta verður að nýta til að efla umræðu, fræðslu og síðast en ekki síst beinar aðgerðir.

Um leið og Jafnréttisstofa óskar landsmönnum öllum, konum og körlum, strákum og stelpum árs og friðar vill undirrituð þakka öllu okkar samstarfsfólki, heima og erlendis, sem skiptir hundruðum fyrir samvinnuna og sérstaklega vil ég þakka starfsfólki Jafnréttisstofu fyrir vel unnin störf á árinu. Megi næsta ár verða okkur gjöfult og gott.

Kristín Ástgeirsdóttir.