Fréttir

Umhverfi og neysla

Miðvikudaginn 25. janúar mun Brynhildur Pétursdóttir fulltrúi hjá Neytendasamtökunum flytja erindi undir yfirskriftinni Umhverfi og neysla. Torgið hefst kl. 12.00 og er haldið í stofu M102. Allir velkomnir.

Norrænn upplýsingabanki um kyn og loftslagsbreytingar

Í tengslum við fund Norðurlandaráðs í nóvember sl. var opnaður norrænn upplýsingabanki um kyn og loftslagsmál á vefnum undir yfirskriftinni: Equal climate – kön och klimaförändring ur ett nordiskt perspektiv. Þar er m.a. að finna ábendingar um það hvernig hægt er að skoða loftslagsmálin út frá kynjasjónarhorni og tengja þeim aðgerðum sem stjórnvöld eða aðrir vinna að til að draga úr gróðurhúsaáhrifum jörðinni til varnar.

Fæðingarorlof, barnaumhyggja og jafnrétti kynjanna á Norðurlöndunum

Hjá norrænu ráðherranefndinni er komin út bókin Parental leave, childcare and gender equality in the Nordic countries. Hún hafði áður komið út á norrænum málum. Bókin er afrakstur samstarfs félagsvísindamanna á Norðurlöndunum fimm en Ingólfur V. Gíslason og Guðný Björk Eydal leiddu starfið og ritstýra bókinni. 

Ísland heldur efsta sætinu á lista World Economic Forum

Nýlega birti World Economic Forum sem er sjálfstæð alþjóðleg stofnun árlegan lista yfir stöðu kynjajafnréttis í heiminum árið 2011. Þriðja árið í röð vermir Ísland efsta sætið og hefur aðeins bætt stöðu sína frá árinu 2010. Noregur, Finnland og Svíþjóð fylgja fast á eftir í sætum 2-4 en Danmörk er í sjöunda sæti. Það eru einkum pólitísk áhrif kvenna og staðan í menntamálum sem gerir að verkum hve Ísland kemur vel út. Þegar litið er á kynjajafnrétti á vinnumarkaði versnar ástandið heldur og einnig í heilbrigðismálum en reyndar munar sáralitlu milli landa í mælingunum á þessum þáttum. 

Ráðstefna um meðferð kynferðisbrota

Innanríkisráðuneyti, Lagadeild Háskóla Íslands og Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni efna í samvinnu við Evrópuráðið til ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu þann 20. janúar nk. Málstofan fer fram í Skriðu, Menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð í Reykjavík og stendur frá klukkan 10 til 18. Á ráðstefnunni verða bæði erlendir og innlendir fyrirlesarar og leitast verður við að leiða saman sjónarmið fræðasamfélagsins, réttarvörslukerfisins og frjálsra félagasamtaka sem fjalla um málaflokkinn.