Fréttir

Ársskýrsla Jafnréttisstofu

Ársskýrsla Jafnréttisstofu um starfsárið 2010 er nú komin út. Í henni má finna yfirlit yfir helstu verkefni Jafnréttisstofu og þær áherslur sem lagðar voru í jafnréttismálum á umræddu tímabili. Starfsemi Jafnréttisstofu er margþætt og verkefni sem unnin voru á hennar vegum á árinu sýna það glöggt. Af þeim ber helst að nefna 10 ára afmæli Jafnréttisstofu, fjölbreytta útgáfu, kynningarstarf um jafnréttismál fyrir sveitastjórnakosningarnar, fræðslu fyrir starfsfólk félagsþjónustunnar og almenning um kynbundið ofbeldi auk fjölda námskeiða um kynjasamþættingu og kynjaða hagsstjórn og fjárlagagerð.

Að rekast á glerþakið

Þriðjudaginn 21. júní heldur dr. Kelly Coate, fræðimaður við National University of Ireland í Galway á Írlandi, fyrirlestur um starfsframa kvenna innan írska fræðaheimsins sem hún kallar 'Hitting the glass ceiling: a study of the barriers to academic women's career progression in Irish higher education'.  Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 101 í Lögbergi kl. 12-13 og fer fram á ensku.

Kvennasöguganga um innbæinn Akureyri 19.júní

Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í ár eru liðin 96 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla. Í tilefni dagsins verður boðið upp á Kvennasögugöngu um innbæinn á Akureyri. Gengið verður frá Minjasafninu kl.10:30 og mun Sigrún B. Óladóttir,leiðsögumaður leiða gönguna.

Í framtíðarlandinu-Hvernig á jafnréttissamfélagið að líta út?

Jafnréttisstofa býður upp á málstofu á ráðstefnunni Vitið þér enn eða hvað?-samtal um rætur, mánudaginn 20. júní kl. 16.00-18.00 í Akureyrarakademíunni, Þórunnarstræti 99 á Akureyri.

Drögum tjöldin frá!

Jafnréttisstofa, Velferðarráðuneytið, Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við HÍ og Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við HA efndu til  ráðstefnu um kynbundið ofbeldi þann 1.júní sl. sem var mjög vel sótt en rúmlega 100 manns tóku þátt í ráðstefnunni. Sjónum var beint að kynbundnu ofbeldi sem alvarlegu heilbrigðisvandamáli og fólki úr heilbrigðisstéttum var sérstaklega boðið að taka þátt í deginum. 

Vitið þér enn eða hvað? - Samtal um rætur

Fólkvangur um norrænar rætur verður haldinn á Akureyri dagana 19.-21. júní nk.  Fólkvangurinn er  fjölþjóðleg ráðstefna með ótal hliðarviðburðum þar sem fjallað verður, frá sjónarhóli kvenna, um rætur, bæði þær djúpu og fornu sem tengjast út um heim, en einnig þær sem liggja grunnt í íslenskum dölum og ströndum.  Í tengslum við Fólkvanginn, verður boðið upp á ýmiss konar viðburði sem verða í höndum fræðimanna og listafólks: vinnustofur, listviðburði, ritúöl, sýningar og kynningar. Sumar vinnustofurnar eru á ensku, aðrar á íslensku eða óháðar tungumálum.  

Fyrirlestur um kynjaða hagstjórn

Fimmtudaginn 9. júní heldur María Pazos-Morán, rannsóknastjóri á sviði kyngervis og opinberrar stefnumótunar við hagfræðistofnun spænska fjármálaráðuneytisins, fyrirlestur um áhrif efnahagsstefnu á hlutverk kynjanna. Fyrirlesturinn verður haldinn í Lögbergi, stofu 101, kl. 12.00-13.00, og fer fram á ensku.