Fréttir

Ofbeldi, vanræksla og ill meðferð

Símenntun Háskólans á Akureyri býður upp á námskeið á meistarastigi um ofbeldi, vanrækslu og illa meðferð; einkenni, afleiðingar, forvarnir og meðferð. Námið hentar þeim sem starfa við heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, skólakerfið, löggæslu, dómskerfið og sjálfstætt starfandi aðila sem vinna með fólki, einnig þeim sem hafa áhuga á að starfa á þeim vettvangi.

"Flengdar konur kvikmyndanna"

MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands býður upp á hádegisfyrirlestur þann13. mars í Miðjunni í HÍ. Þar mun Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði, fjalla um flengdar konur kvikmyndanna en í kvikmyndum birtast ákveðnir þættir dægurmenningar okkar og þar á meðal sýnin á karla og konur. Frá upphafi kvikmynda má finna dæmi um að fullorðnar konur séu barngerðar m.a. með flengingu.Ástæður og réttlætingar hafa verið nokkrar og í erindinu verður fjallað um þær og sýnd dæmi úr kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Öll velkomin.

18,7% útilistaverka í Reykjavík eru eftir konur en 78,9% eftir karla

Í dag, 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í tilefni dagsins hafa mannréttindaskrifstofa og mannréttindaráð Reykjavíkurborgar gefið út bækling sem nefnist „Kynlegar tölur“ og hefur hann að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í borginni. 

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars verður boðið upp á spennandi viðburði í Reykjavík og á Akureyri. Jafnréttisstofa hvetur alla til að kynna sér viðburði dagsins. Í boði er fjölbreytt dagskrá um jafnréttismál.

Kynleg kreppa

MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna býður upp á opinn fyrirlestur í Miðjunni í Háskólabíói þriðjudaginn 6. mars kl. 12:00-13:00. Þar mun Bryndís E. Jóhannsdóttir, MA í blaða- og fréttamennsku, diplóma í hagnýtri jafnréttisfræði fjalla um kynjajafnrétti á umbrotatímum, velferðarkerfið og hlutverk þess í jafnréttismálum, frjálst eða þvingað val og túlkun þess, hvort jafnrétti á heimilum sé undirstaða raunverulegs jafnréttis, kynjaðan niðurskurð og formleg úrræði til að sporna við bakslagi í jafnréttismálum. Öll velkomin

Kynbundin áhrif loftslagsbreytinga

Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, ávarpaði morgunverðarfund um kynbundin áhrif loftslagsbreytinga, sem haldinn var á Hóteli Sögu þann 24. febrúar sl. Fundurinn var á vegum Alþjóðlegs jafnréttisskóla við Háskóla Íslands (GEST Programme) sem stendur að námskeiðum í Úganda síðar á árinu í því skyni að auka þekkingu og færni fólks til að vinna að verkefnum á sviði jafnréttis og loftslagsbreytinga. 

Klámvæðing er kynferðisleg áreitni

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og MARK – miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna við Háskóla Íslands gefa út bækling sem nefnist Klámvæðing er kynferðisleg áreitni. Bæklingurinn varpar ljósi á það hvernig konur upplifa klám á vinnustöðum og umræðu um útlit sitt í stað frammistöðu. Upplýsingar um þetta efni hafa ekki áður komið út á íslensku og er bæklingurinn ætlaður starfsfólki Reykjavíkurborgar og starfsfólki og nemendum Háskóla Íslands.