Fréttir

Gestir á Jafnréttisstofu

Í síðustu viku fékk Jafnréttisstofa heimsókn frá Human Rights Monitoring Institute í Litháen. Markmið ferðar þeirra til Íslands var að kynna sér starfsemi stofnanna og félagasamtaka hér á landi og mögulegt samstarf í gegnum styrkjakerfi EFTA. Á fundinum með Jafnréttisstofu var farið yfir stöðu jafnréttismála á Íslandi, jafnréttislöggjöfina og fjallað nánar um nokkur atriði sem gestirnir höfðu áhuga á að kynna sér. Þar ber helst að nefna fæðingarorlofskerfið og kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. 

Brautryðjendur í stjórnmálum hljóta jafnréttisviðurkenningu

Jafnréttisráð veitir árlega jafnréttisviðurkenningar en í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna ákvað Jafnréttisráð í ár að heiðra þær núlifandi konur sem með störfum sínum á Alþingi og í ríkisstjórn hafa rutt brautina og stuðlað að auknu jafnrétti á sviði stjórnmálanna. Konurnar eiga sammerkt að hafa verið fyrstar núlifandi kvenna til að gegna veigamiklum embættum í íslenskum stjórnmálum, þ.e. sem forseti Alþingis, sem ráðherra og sem formenn þingflokka. Nánari upplýsingar um verðlaunahafa og myndir frá afhendingunni má sjá á síðu Velferðarráðuneytis.

Skýrsla um jafnrétti á norðurslóðum

Skýrslan Gender Equality in the Arctic: Current Realities, Future Challenges er komin út. Skýrlan er unnin af utanríkisráðuneytinu og byggir á tveggja daga alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var á Akureyri í lok október síðastliðinn.

Vefsíðan Fjölbreytt forysta er komin í loftið

Vefsíðan fjolbreyttforysta.is er í eigu Jafnréttisstofu og er unnin með styrk frá Progress sjóði ESB. Síðunni er ætlað að vekja athygli á mikilvægi jafnrar þátttöku kynjanna í forystu íslensks atvinnulífs. Á vefsíðunni er að finna fræðsluefni um stjórnarhætti og stjórnunarstörf og viðtöl við fólk með reynslu af stjórnarsetu, sérfræðinga og fólk úr atvinnulífinu.

Fyrirmyndardagur á Jafnréttisstofu

Í morgun gerðist Guðmunda Finnbogadóttir starfsmaður á Jafnréttisstofu. Tilefnið var Fyrirmyndardagurinn sem haldinn er hátíðlegur í dag 17. apríl af frumkvæði Vinnumálastofnunar. Markmið dagsins er að gefa fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til að  bjóða einstaklingum með skerta starfsgetu að vera gestastarfsmenn í einn dag eða hluta úr degi. Guðmunda gekk rösklega til verks og raðaði fundargögnum í fimmtíu möppur á mettíma.

Jafnrétti á Norðurlöndum 2015

Út er kominn bæklingur sem lýsir stuttlega stöðu jafnréttis á nokkrum sviðum samfélags og lífs fólks á Norðurlöndunum. Meðal þeirra sviða sem lýst er á myndrænan hátt eru: fjölskyldur, vinnumarkaður, menntun, heilbrigði, áhrifastöður, tekjumismunur og völd. Útgáfan er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni, sem er samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlanda. Frekari upplýsingar hér

Námskeið um vottun jafnlaunakerfa

Endurmenntunarstofnun í samstarfi við velferðarráðuneytið stendur að námskeiði um vottun jafnlaunakerfa. Á námskeiðinu verður fjallað um lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, vinnurétt, kjarasamninga, launagreiningar og flokkun og mat á verðmæti starfa. Námskeiðinu lýkur með útgáfu skírteinis fyrir þá sem ljúka námskeiðinu með prófi.

„Brenndu þetta snifsi að lestri loknum“

Héraðsskjalasafnið á Akureyri boðar til hádegisfyrirlestrar í Héraðsskjalasafni/Amtsbókasafni, Brekkugötu 17, föstudaginn 10. apríl kl. 12:00 – 13:00. Þar mun Svanhildar Bogadóttur borgarskjalavörður í Reykjavík fjalla um mikilvægi þess að varðveita einkaskjöl kvenna til jafns við karla. Einnig verða til sýnis nokkur skjöl kvenna sem varðveitt eru á Héraðsskjalasafninu á Akureyri og munu skjalaverðir í stuttu máli gera þeim skil og segja frá því hvað safnið hefur að geyma. Veitingasala er á staðnum. Súpa, heimabakað brauð og kaffi á kr. 1000.