Fréttir

Örugg í vinnunni?

Alþýðusamband Íslands, BHM, BSRB, Kennarasamband Íslands, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð efna til hádegisverðarfundar þriðjudaginn 8. mars 2016 þar sem fjallað verður um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Jafnrétti í sveitarfélögum

Sérfræðingar frá sænska sveitarfélagasambandinu, SALAR, munu vera með kynningu á málþinginu 31. mars og vera leiðbeinendur á námskeiðinu 1. apríl. SALAR hefur um nokkra ára skeið, með fjárstuðningi frá sænska ríkinu, stutt sænsk sveitarfélög í að gera jafnréttismál sjálfbær innan sveitarfélaga. Áherslan hefur verið á að kynjasjónarmið séu samþætt inn í starfsemi sveitarfélaga og aðferðir kynjasamþættingar nýttar til að veita íbúum betri og skilvirkari þjónustu. Á málþinginu verða einnig íslenskar kynningar og umræður um stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum. Dagskrá málþingsins er hér að neðan. Það hefst kl. 13:30 og lýkur kl. 17:00. Á námskeiðinu verður farið dýpra ofan í hagnýta aðferðarfræði við beita kynjasamþættingu í starfsemi sveitarfélaga og á einstökum sviðum, svo sem í skipulagsmálum, félagsþjónustu, menningar- og tómstundamálum og skólamálum. Námskeiðið mun fara fram á ensku. Það hefst kl. 09:00 og lýkur kl. 16:00. 

Jafnréttisþing og fræðslufundir í Ísafjarðarbæ

Jafnréttismál hafa verið í brennidepli í Ísafjarðarbæ að undanförnu en Grunnskólinn á Ísafirði hélt  nýverið metnaðarfullt jafnréttisþing þar sem allir nemendur í 6. - 10. bekk tóku þátt og var þeim skipt í hópa þvert á árganga. Elstu nemendur skólans stýrðu umræðum í sínum hópum en þessir nemendur fengu fyrir þingið sérstakar leiðbeiningar og þjálfun í hópstjórn. Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, tók þátt í deginum með innleggi í upphafi þingsins og fylgist síðan með vinnu hópanna sem var einkar áhugaverð og fróðleg. Nemendur ræddu saman um gildi þess fyrir stráka og stelpur að lifa í jafnréttissinnuðu samfélagi og settu fram hugmyndir sínar um hvað nemendur, starfsfólk og foreldrar geta gert til að auka jafnrétti í skólanum, heima og jafnvel víðar. 

Leyndarmál kynhyggju

Á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) miðvikudaginn 24. febrúar fjallar Jón Birkir Bergþórsson, mastersnemi við Háskólann í Árósum, um leyndarmál kynhyggju. Hann ætlar að tala um hvað kynhyggja er og hvernig hún liggur að hjarta allri femínískri hugsun og hugmyndafræði. Hann mun svo ræða hvernig hugmyndafræði femínisma hefur þróast til þess að svara kynhyggjunni og af hverju hún er svo skaðleg fyrir bæði konur og karla.  Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og HA.

Staða kvenna í sauðfjárrækt

Landssamtök sauðfjárbænda hafa hafið vinnu við úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt og er fyrsta áfanga úttektarinnar nú lokið. Tilgangurinn er að skoða hvort halli á konur innan greinarinnar og ef svo er, skoða leiðir til úrbóta. Nokkur verkefni hafa verið sett á laggirnar til að bæta stöðu kvenna í landbúnaði undanfarin ár, s.s. jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands og verkefnin Byggjum brýr, Fósturlandsins freyjur og lifandi landbúnaður. Þessi verkefni hafa náð ágætum árangri en ráðast þó ekki að rótum vandans. Segja má að niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á stöðu kynjanna í landbúnaði beri allar að sama brunni. Rétt og sanngjörn skráning eigna er mjög mikilvægur þáttur þegar kemur að jafnrétti kynjanna en enn hefur ekki verið framkvæmd ítarleg úttekt á eignaréttarstöðu kynjanna í landbúnaði hér á landi. 

Ráðstefna um stöðu karla í yngri barna kennslu

Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, SKÁL, Samband íslenskra sveitarfélaga, RannUng og menntamálaráðuneytið efna til ráðstefnunnar Karlar í yngri barna kennslu – hvað ætlar þú að gera? á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 12. febrúar næstkomandi. 

Stofnfundur Félags kvenna í vísindum

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á stofnun nýs félags. Stofnfundur Félags kvenna í vísindum fer fram þann 11. febrúar 2016 kl. 17 í Tjarnarsal Íslenskrar Erfðagreiningar, Sturlugötu 8. Félagið er hugsað sem vettvangur fyrir konur í vísindum til að hittast, mynda og efla tengsl sín á milli. Þá er sérstaklega verið að horfa til þess félagið geti stuðlað að því að konur í vísindum myndi sterk og varanleg stuðnings- og tengslanet en skortur á þeim er talin vera ein af orsökum kynjahalla í vísindum. Allar konur sem stunda rannsóknir á öllum fræðasviðum eða koma að vísindavinnu í einhverri mynd eru velkomnar, hvort sem þær vinna innan veggja háskólanna, í rannsókna-stofnunum, akademíum eða úti í fyrirtækjum.

Stöðvum hrelliklám

Kvenréttindafélag Íslands hefur gefið út skýrslu um hrelliklám. Í skýrslunni er löggjöf ýmissa landa gegn hrelliklámi kynnt og rýnt í viðhorf ungs fólks hérlendis til hrellikláms.