Fréttir

Þáttaskil í sögu þjóðkirkjunnar

Á undanförnum árum hefur kvenprestum fjölgað töluvert á Íslandi en þær hafa þó ekki verið áberandi í valdastöðum innan kirkjunnar.  Því var það það söguleg stund þegar sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir fyrsta konan sem var vígð sem sóknarprestur á Íslandi árið 1974 lagði  biskupskápuna á axlir sr. Agnesar M. Sigurðardóttur fyrsta kvenbiskups Íslands við vígslu hennar í Hallgrímskirkju síðastliðinn sunnudag.

Aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum

Á kvenréttindadeginum 19. júní, var aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún miðar að því að nýta sem best þær leiðir sem Reykjavíkurborg hefur yfir að ráða til að fyrirbyggja ofbeldi og styðja við þolendur ofbeldis. Aðgerðaráætlunin skiptist í tvo hluta; sá fyrri snýr að aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi og sá síðari um leiðir til að stemma stigu við ofbeldi gegn börnum. Í áætluninni er lögð áhersla á forvarnir, aðstoð við brotaþola, fræðslu, samstarf og meðferð fyrir gerendur. 

Kvenréttindadagurinn haldinn hátíðlegur á Hallveigarstöðum

Kvenréttindafélag Íslands heldur upp á kvenréttindadaginn þann 19. júní með hátíðardagskrá og kaffiveitingum á Hallveigarstöðum kl. 17:30  Dagskrá: Helga Guðrún Jónsdóttir, ávarp  formanns Kvenréttindafélags Íslands Sigurlaug Viborg, ávarp forseta Kvenfélagasambands Íslands Ragnhildur Jóhanns, frá Endemi, fjallar um konur í list Fríða Rós Valdimarsdóttir greinir frá niðurstöðum rannsókna um íslenska vændiskaupendur Steinunn Gyðu- Guðjónsdóttir kynnir Kristínarhús, athvarf fyrir konur sem hafa verið seldar mansali eða stundað vændi og vilja komast út úr því Kristín Þóra Harðardóttir úthlutar styrkjum úr Menningar- og minningarsjóði kvenna  

19. júní fer fram kvennasöguganga á Akureyri kl. 16:30

Jafnréttisstofa vill minna á að þann 19. júní fer fram kvennasöguganga á Akureyri. Gangan hefst við nýja kaffihúsið í Lystigarðinum, Café Björk, kl. 16:30 og endar við Minjasafnið á Akureyri. Björgvin Steindórsson, forstöðumaður Lystigarðsins mun ávarpa göngufólk. Leiðsögumaður kvennasögugöngunnar í ár er Hörður Geirsson, safnvörður Minjasafnsins.  Boðið verður uppá kaffi að göngu lokinni. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að mæta og upplifa hluta af sögu kvenna í Innbænum. Kvennasögugangan er nú gengin í fimmta sinn á Akureyri en þátttaka hefur alltaf verið mjög góð. Gangan hefur myndað nýja tengingu við Innbæinn og varpar ljósi á líf kvenna sem höfðu margar hverjar mikil áhrif á bæjarlífið á sínum tíma.

Staðall um launajafnrétti – opinn kynningarfundur á þriðjudag

Tilkynning: Staðall um launajafnrétti verður kynntur á morgunverðarfundi á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 19.júní kl. 8-10. ASÍ, SA og velferðarráðuneytið hafa frá því í árslok 2008 haft forgöngu um gerð staðals um launajafnrétti kynjanna í samræmi við bókun aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 og bráðabirgðaákvæði jafnréttislaga nr. 10/2008. Verkið hefur verið unnið undir leiðsögn Staðlaráðs Íslands og með aðkomu fjölmargra aðila.

Doktorsvörn í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

Þann 15. júní 2012 ver Þorgerður H. Þorvaldsdóttir doktorsritgerð sína From Gender Only to Equality for All: A Critical Examination of the Expansion of Equality Work in Iceland. Dr. Ómar H. Kristmundsson, prófessor og varadeildarforseti Stjórnmálafræðideildar stýrir athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands, Aðalbyggingu, kl. 15:00 og er öllum opin. Vörnin fer fram á ensku.

Vestnorræn vefsíða um jafnréttismál

Grænlendingar hafa ásamt norrænu ráðherranefndinni um jafnréttismál opnað vefsíðu um jafnrétti kynjanna í Grænlandi, Færeyjum og á Íslandi. Vefsíðan mun bjóða norrænum samtökum sem starfa að jafnréttismálum í þessum löndum upp á samskiptavettvang og aukin tækifæri til samvinnu.

Ásta Jóhannsdóttir kosin til formennsku NFMM

Á aðalfundi NFMM (Nordisk förening för forskning om män och maskuliniteter) - Norrænna samtaka um rannsóknir á körlum og karlmennsku, þann 31. maí síðastliðinn var Ásta Jóhannsdóttir kosin formaður samtakanna. Markmið NFMM, samtaka sem stofnuð voru í janúar árið 2009, er að auka þekkingu og rannsóknir á sviði karlafræða. Mikilvægur liður í starfsemi samtakanna er útgáfa NORMA – tímarits á fræðasviði karla og karlmennsku. Tímaritið er leiðandi á sviði karlafræða á Norðurlöndum.

Framhaldsskólar skila jafnréttis- og framkvæmdaáætlunum

Síðastliðið haust kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum frá 28 íslenskum framhaldskólum en samkvæmt jafnréttislögum ber vinnustöðum þar sem fleiri en 25 starfsmenn starfa að setja fram jafnréttis- og framkvæmdaáætlun um hvernig stjórnendur ætla að stuðla að jafnrétti kynjanna hvað varðar, laun, ráðningar, sveigjanleika, tækifæri til endurmenntunar og kynferðislega áreitni eða ofbeldi.