Fréttir

Þræðir og fléttur – Menning, samfélag, umhverfi

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) boðar til alþjóðlegrar ráðstefnu í tilefni af 20 ára afmæli stofnunarinnar og 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Ráðstefnan fer fram dagana 4.–5. nóvember 2011 við Háskóla Íslands. Ráðstefnan í ár skiptist í 20 málstofur með þátttöku fræðimanna af ólíkum fræðasviðum. Athygli er vakin á sérstakri öndvegismálstofu til minningar um framlag kvenna til stofnunar Háskóla Íslands og í tilefni af aldarafmæli laga um rétt kvenna til náms og embætta. Í málstofunni verður leitað svara við spurningunni: Hverju hefur menntun kvenna skilað? Málstofan er haldin í samstarfi við Kvennasögusafnið og Jafnréttisstofu.

Doktorsvörn um karlmennsku og kyngervi í friðargæslunni

Fimmtudaginn 27. október fer fram doktorsvörn við Félags-og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Helga Þórey Björnsdóttir doktorsritgerð sína 'Give me som men who are stout-hearted men, Who will fight for the right they adore' Negotiating Gender and Identity in Icelandic Peacekeeping. Rannsóknin lýtur að menningarlegum og félagslegum hugmyndum um karlmennsku og kyngervi eins og þær birtist í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Lögð er áhersla á að varpa ljósi á slíkar hugmyndir í tengslum við sköpun kynjaðrar sjálfsmyndar hjá hópi íslenskra karlmann sem unnið hafa sem gæsluliðar hjá Íslensku friðargæslunni (ICRU) og sem geta í krafti kyngervis og félagslegrar stöðu, talist hluti af ríkjandi kynjanormi samfélagsins.

Hernaðarlist og valdaklækir?

Stjórnmálafræðideild HÍ og MARK Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna bjóða upp á málþing um stjórnmálamenningu samtímans mánudaginn 24. október kl. 12-13:30 í hátíðarsal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands í tilefni 100 ára afmælis háskólans og 15 ára afmælis  námsbrautar í kynjafræði.

Skyldur sveitarfélaga í jafnréttismálum

Á félagsvísinda- og jafnréttistorgi í dag, miðvikudaginn 19. október mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu fjalla um skyldur sveitarfélaga til að vinna að jafnréttismálum. Torgið hefst kl. 12.00 í stofu N101, Sólborg v/Norðurslóð. Allir velkomnir.

Jafnréttisdagar HÍ 2011

Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands stendur fyrir sérstökum Jafnréttisdögum daganna 13. - 27. október. Markmiðið þeirra er að stuðla að fræðslu og aukinni umræðu og skilningi á jafnréttismálum, innan sem utan háskólasamfélagsins, og stuðla að því að gera jafnréttismál sýnilegri. Ókeypis er á alla viðburði Jafnréttisdaga og aðgangur er öllum heimill.

Hver er hlutdeild kynjanna í námsbókum í sögu á miðstigi grunnskóla?

Kristín Linda Jónsdóttir mun á fyrsta jafnréttistorgi vetrarins í Háskólanum á Akureyri kynna niðurstöður rannsóknar Jafnréttisstofu á hlutdeild kynjanna í námsbókum í sögu á miðstigi grunnskóla. Jafnréttistorgið fer fram miðvikudaginn 12. október kl. 12:00 í stofu M101 í HA.

Kynferðisleg misnotkun á börnum í trúarlegu samhengi

Fagráð um meðferð kynferðisbrota innan Þjóðkirkjunnar, Guðfræði og trúarbragðafræðideild HÍ og Guðrún Ebba Ólafsdóttir bjóða til málþings og námskeiðs um kynferðisleg misnotkun á börnum í trúarlegu samhengi. Aðalfyrirlesari verður Rev. Dr. Marie M. Fortune frá FaithTrust Institute í BNA. Málþingið verður haldið í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. október kl. 10-13 er ókeypis og öllum opið. Námskeiðið verður haldið í Neskirkju miðvikudaginn 19. október kl. 8:30-17 og kostar 3.000 kr.

Skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneyta

Komin er út skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Í skýrslunni er að finna greiningu á skiptingu kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárinu 2010 auk þess sem farið er yfir þróun síðustu missera. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa haft eftirlit með framkvæmd hans. Kynjakvótinn, sem kveðið er á um í 15 grein laga nr. 10/2008, gerir ráð fyrir að hlutur hvors kyns um sig skuli ekki vera minni en 40% nema hlutlægar ástæður heimili annað.

Ný heimasíða Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum komin í loftið

Á heimasíðunni er þekkingu miðlað um kvenna- og kynjarannsóknir; sagt er frá rannsóknum, ráðstefnum og viðburðum á sviði kvenna-, kynja- og jafnréttisfræða bæði hérlendis og erlendis. Einnig eru auglýstir styrkir, störf og köll eftir fyrirlestrum hvort sem um er að ræða íslenskan vettvang eða erlendan. Heimasíðuna má sjá hér.