Fréttir

Konur, friður og öryggi

Mannréttindaskrifstofa Íslands, Jafnréttisstofa, Utanríkisráðuneytið, Rauði krossinn á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi bjóða til málþings þar sem veitt verður innsýn í störf aðila sem unnið hafa að jafnréttismálum, og þar af leiðandi friðaruppbyggingu, á stríðsátakasvæðum. Fjórar konur sem unnið hafa erlendis á eigin vegum fyrir alþjóðastofnanir sem og á vegum Friðargæslu Íslands munu flytja erindi um störf sín. Einnig verða ræddar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda á sviði jafnréttis- og friðarmála í þessu samhengi. Málþingið er lokaþáttur 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi þetta árið. Aðgangur ókeypis og öllum opinn - Nánar um dagskrá HÉR

Nei við hernaðarhyggju og mannréttindabrotum

Laugardaginn 7. desember klukkan 14:00 verður samverustund á Amtbókasafninu helguð baráttu gegn hernaðarhyggju og mannréttindabrotum. Samverustundin er liður í alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem hófst 25. nóvember sl. Lesið verður upp úr bókum sem fjalla m.a. um alvarlegar afleiðingar stríðsátaka. Þennan sama dag stendur Amnesty International fyrir alþjóðlegu bréfamaraþoni til stuðnings fórnarlömbum mannréttindabrota. Hægt er að taka þátt í bréfamaraþoninu á Amtbókasafninu, Bláu könnunni og Eymundsson.

Ísland hlýtur verðlaun Alþjóðasamtaka þingkvenna

"Ég vonast til að Ísland geti lagt af mörkum í samstarfi þjóðanna og tekið virkan þátt í því mikilvæga sameiginlega verkefni að bæta stöðu kvenna og stuðla að jafnrétti kynjanna, hvar sem er í heiminum" sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar hún tók við jafnréttisverðlaunum fyrir hönd Íslands á þingi Alþjóðasamtaka þingkvenna 27. nóvember síðastliðin.

Hádegissamvera í Eymundsson á Akureyri

Í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi mun Vigdís Grímsdóttir lesa úr nýútkominni bók sinni "Dísusaga" kl. 12:00 föstudaginn 6. desember í Eymundsson á Akureyri. Í umfjöllun um bókina segir útgefandi: "Sagan er mögnuð og segir frá stúlku sem tíu ára gömul verður fyrir ofbeldi og lokast inni í dýflissu þöggunar og feluleikja. Í fimmtíu ár sér hún enga útgönguleið, en dag einn fær hún frelsi hjá kúgara sínum og fyrrverandi bjargvætti til að skrifa, þó aðeins í tvo mánuði. Tíminn er naumur og Dísa ákveður að skrifa bréf til mannsins sem hún hefur alltaf elskað. En tekst henni að segja sannleikann? Í Norðurfirði á Ströndum nýtur Dísa ómældrar gleði yfir öllu því sem náttúran og fólkið þar gefur henni til að takast á við ólgandi tilfinningar. Umlukt fjöllunum og sjónum og örygginu á Kaffihúsinu skrifar hún söguna og minningarnar streyma fram. Þetta er saga Dísu, saga ofbeldis, einlægni og mannúðar. Þetta er líka sagan okkar; óvænt, hrífandi og dásamleg bók þar sem Vigdís Grímsdóttir víkur fyrir Dísu Gríms sem nú fær orðið."

Hádegissamvera í Eymundsson á Akureyri

Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi les Bjarni Fritzson upp úr nýútkominni bók sinni  „Strákar“ og spjallar við gesti í Eymundsson, föstudainn 29. október. Bjarni segir að nóg sé komið af því að tala um stráka, nú þurfi að tala við strákana sem oft skorti heilbrigðar fyrirmyndir og fræðslu. Bókina skrifar Bjarni með Kristínu Tómasdóttur sem áður hefur gefið úr þrjár bækur um stelpur. Bókin fjallar um líf stráka frá öllum mögulegu hliðum. „Við vildum hafa bókina fulla af áhugaverðum fróðleiksmolum en hafa hana skemmtilega í senn,“ segir Bjarni. Ýmsir þekktir einstaklingar leggja hönd á plóg til að fá víðari innsýn í efnið og miðla reynslu sinni.