Fréttir

Kynbundinn launamunur - Aðferðir til úrbóta

Jafnréttisstofa í samstarfi við Ár jafnra tækifæra og félagsmálaráðuneytið efnir til ráðstefnunnar Kynbundinn launamunur - Aðferðir til úrbóta þann 23. nóvember kl. 13-16 í Sunnusal Hótel Sögu. Kynntar verða niðurstöður rannsóknar á kynbundnum launamun sem unnin var upp úr gögnum Hagstofu Íslands um atvinnutekjur þjóðarinnar. Í rannsókninni voru skoðaðar atvinnutekjur og heildartekjur kynjanna, eftir hjúskaparstöðu, aldri og búsetu. Einnig verða ræddar ólíkar aðferðir sem notaðar hafa verið til að vinna bug á þeim vanda sem kynbundinn launamunur er.

Jafnréttisfræðsla í leikskólum og grunnskólum

Nýtt verkefni sem miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í skólastarfi, þ.e. í leikskólum og grunnskólum, er að hefja göngu sína. Með markvissri fræðslu og umræðu frá upphafi skólagöngu er hægt að gefa ungu fólki tækifæri til að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína á eigin forsendum óháð staðalmyndum kynjanna og hefðbundnu starfsvali. Jafnréttisstofa hefur umsjón með verkefninu og hefur verið auglýst eftir verkefnisstjóra.

Krossgötur kynjarannsókna

Dagana 9. - 10. nóvember, stendur RIKK fyrir fjórðu ráðstefnu stofnunarinnar um stöðu og leiðir kynjarannsókna. Þessum ráðstefnum er ætlað veita innsýn í þverfaglegt rannsóknastarf á fræðasviðinu. Ráðstefnan um næstu helgi sýnir breidd, fjölbreytni og grósku í íslenskum kvenna- og kynjarannsóknum. Á áttunda tug fræðimanna fjalla um rannsóknir sínar í 18 málstofum. Sérstakir gestir ráðstefnunnar eru Drude Dahlerup, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Stockholm og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.  

Lokaráðstefna Jafnréttisvogarinnar

Lokaráðstefna Evrópuverkefnisins Jafnréttisvogin verður haldið föstudaginn 16. nóvember nk. á Hótel Loftleiðum. Verkefnið snýst um að mæla stöðu jafnréttis hjá sveitarfélögum í fimm löndum og verða niðurstöður þess kynntar á ráðstefnunni.

Réttindi barna við skilnað

Félag um foreldrajafnrétti stendur fyrir ráðstefnunni Réttindi barna við skilnað á feðradaginn, sunnudaginn 11. nóvember kl. 16.

Áhugaverðir atburðir næstu daga

Minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur verður afhjúpaður á horni Þingholtsstrætis og Amtmannsstígs þann 7. nóvember. Heiðar Eiríksson flytur fyrirlesturinn Mansal og kynlífsþrælkun í tengslum við friðargæslu Sameinuðu þjóðanna á Fimmtudagshlaðborði Akureyrarakademíunnar, þann 8. nóvember. Kynjafræðiþing verður svo haldið 9. og 10. nóvember í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Boðið er upp á um 70 fyrirlestra í 16 málstofum. Sérstakir gestir ráðstefnunnar eru Drude Dahlerup, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Stokkhólmi og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.

Frumvarp til nýrra jafnréttislaga

Nú hefur verið lagt fram á Alþingi nýtt frumvarp til jafnréttislaga. Það má nálgast hér. Einnig er hægt að fylgjast með ferli málsins á þingi á þessari slóð.

Ársskýrsla Jafnréttisstofu komin út

Ársskýrsla Jafnréttisstofu fyrir árið 2006 er nú komin út. Starf stofunnar á árinu var margþætt, en sérstök áhersla var lögð á málefni sveitarfélaga. Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga var ákveðið að bjóða nýjum sveitarstjórnum upp á fræðslu um jafnréttismál. Einnig var farið af stað með nýtt Evrópuverkefni um stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum. Verkefnið hefur hlotið nafnið Jafnréttisvogin og er unnið undir stjórn Jafnréttisstofu í samvinnu við fjögur önnur lönd.