Fréttir

Nýir jafnréttisfulltrúar lögreglunnar fræðast um jafnréttismál

Ný skipan jafnréttismála hjá lögreglunni tók gildi í byrjun þessa mánaðar og samkvæmt nýrri jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Ríkislögreglustjóra tilnefna lögreglustjórar um allt land jafnréttisfulltrúa síns embættis, auk þess sem skipuð hefur verið jafnréttisnefnd lögreglunnar á landsvísu. Þessir fulltrúar ásamt lögreglustjórum sitja í dag námskeið um jafnréttismál, þar sem starfsmenn Jafnréttisstofu sjá meðal annars um fræðsluna.

Kynjaverur í heimsókn

Öskudagurinn er í dag og af því tilefni sóttu ýmsar kynjaverur Jafnréttisstofu heim. Löng hefð er fyrir því hér á Akureyri að halda öskudaginn hátíðlegan og greinilegt að börnin leggja mikið upp úr vönduðum búningum og söng.

Konur sitja skemur á þingi en karlar

Konur sitja að jafnaði mun skemur á þingi en karlar. Þetta kom fram í máli Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, félags - og tryggingamálaráðherra, á fundi sem Bandalag kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands héldu í tilefni konudagsins um helgina.

Hvar er fjölskyldan?

Næstu fjóra mánudaga stendur jafnréttisnefnd Háskóla Íslands fyrir fyrirlestraröð um fjölskyldumál og jafnrétti. Í fyrirlestraröðinni verður fjallað um samtvinnun fjölskyldu- og jafnréttismála frá ýmsum sjónarhornum, og hvernig karlar og konur, stofnanir og fyrirtæki geta – og hafa – tekist á við þann vanda sem fylgir því að taka þátt í atvinnulífinu eða mennta sig, samhliða því að eiga og byggja upp gott fjölskyldulíf. M.a. verður horft til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað að undanförnu í efnahags-, atvinnu- og menntamálum, og hvernig slíkar breytingar geta haft áhrif á fjölskyldulíf fólks.

Heimsókn í Fjarðabyggð

Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum sótti um og fékk styrk frá Alcoa Fjarðaáli til að stuðla að jafnréttisfræðslu í Fjarðabyggð. Fyrsta skrefið var stigið nú í vikunni þegar Arnfríður Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri og Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu heimsóttu Fjarðabyggð.

Öndvegissetur í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum

Stjórn Rannsóknasjóðs Rannís hefur úthlutað styrkjum úr nýrri markáætlun Vísinda- og tækniráðs. Um er að ræða stærstu styrki sem veittir hafa verið hér á landi og eru þeir allir til sjö ára. Meðal verkefnanna sem hlutu styrk að þessu sinni er Öndvegissetur í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum.

Ályktun Jafnréttisráðs

Á sama tíma og Jafnréttisráð fagnar jafnri kynjaskiptingu í ríkisstjórn og því að fyrsta konan gegni embætti forsætisráðherra, bendir það á hættur sem steðja að konum og körlum á vinnumarkaði og hvetur til þess að ástandið sem nú ríkir verði skoðað út frá hagsmunum beggja kynja. Ályktunin er hér birt í heild.

Jafnréttisnefnd lögreglunnar

Ríkislögreglustjóri hefur gefið út jafnréttis- og framkvæmdaáætlun fyrir lögregluna og samkvæmt tilnefningu skipað henni sérstaka jafnréttisnefnd. Með þeirri skipan er tekinn upp nýr háttur í jafnréttismálum innan lögreglunnar þar sem ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á framgangi jafnréttismála en lögreglustjórar bera ábyrgð á framgangi jafnréttisáætlunar, hver hjá sínu embætti.

Jafnréttisstofa fagnar jafnri kynjaskiptingu í ríkisstjórn

Nú hefur tekið til starfa fyrsta ríkisstjórn Íslands sem stýrt er af konu og er við hæfi að sú ríkisstjórn sé skipuð körlum og konum til jafns. Jafnréttisstofa fagnar þessum tímamótum og óskar landsmönnum til hamingju með áfangann.