Fréttir

Sértekjur fleyttu Jafnréttisstofu í gegnum kreppuna

„Þann 16. ágúst birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: „Juku umsvifin á kreppuárunum“. Af fréttinni má skilja að Jafnréttisstofa hafi þanist út um 94% á árunum 2007-2012 þegar mikill niðurskurður átti sér stað í ríkisútgjöldum.“ Þannig hefst grein Kristínar Ástgeirsdóttur, framkvæmdarstýru Jafnréttisstofu, sem birt er á heimasíðu stofnunarinnar í dag. Greinina má lesa HÉR

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 2014

Reykjavíkurborg boðar til landsfundar jafnréttisnefnda sveitarfélaga 18.-19. september 2014. Landsfundur jafnréttisnefnda er haldinn árlega og er kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum.  Landsfundurinn er opinn fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaga, en einnig eru velkomnir á fundinn sveitarstjórnarmenn, og fulltrúar þeirra sveitarstjórna sem ekki hafa skipað jafnréttisnefndir ásamt því starfsfólki sem vinnur að jafnréttismálum. Nánari dagskrá verður auglýst síðar. Landsfundir jafnréttisnefnda sveitarfélaga hafa farið fram víða um land en hér má finna fréttir af fyrri fundum.

Misræmi milli réttinda og raunveruleika

Í gær, fimmtudaginn 21. ágúst, flutti hugsjóna- og listhópurinn Barningur fyrirlestur um öryggi kvenna á íslenskum vinnumarkaði, með sérstaka áherslu á kynferðislega áreitni og óviðeigandi/særandi framkomu í garð kvenna sem vinna þjónustustörf. Fyrirlesarar voru þau Aron Freyr Heimisson, Elín Inga Bragadóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir.

Fyrirlestur um öryggi kvenna í þjónustustörfum

Um skeið hefur lista- og hugsjónahópurinn Barningur varpað ljósi á ýmiss samfélagsmál sem tengjast jafnrétti. Hópurinn hefur með umræðu og listsköpun fjallað um staðalmyndir kynjanna, útlitsdýrkun og átröskunarsjúkdóma ásamt því að fjalla um áhrif klámvæðingar á hugmyndir ungs fólks um kynlíf. Á morgun fimmtudaginn 21. ágúst munu þrír meðlimir hópsins, þau Elín Inga Bragadóttir, Margrét Helga Erlingsdóttir og Aron Freyr Heimisson halda fyrirlestur um öryggi kvenna í þjónustustörfum. Fyrirlesturinn er haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri (Kaupvangsstræti / Listagil), er öllum opinn  og hefst klukkan 17:30.

„Sænska leiðin“ gefur góða raun í Noregi – rannsóknir skortir enn á Íslandi

Árið 2009 gengu í gildi lög í Noregi sem mæla fyrir um að vændiskaup séu gerð refsiverð en vændissala refsilaus.  Í vikunni kynnti norska ríkisstjórnin úttekt sem gerð hefur verið á framkvæmd og innleiðingu löggjafarinnar fyrstu fjögur árin. Niðurstöður sýna að vændi hefur minnkað um allt að 25% í landinu. Lögin hafa sérstaklega haft áhrif á umfang svokallaðs götuvænds í Ósló, sem hefur minnkað um allt að 60%.  Þeir sem gagnrýndu lögin hvað harðast í undanfara lagasetningarinnar bentu á að bann við vændiskaupum gæti leitt til aukins ofbeldis gagnvart fólki í vændi. Rannsóknin sýnir að þær áhyggjur áttu ekki við rök að styðjast. Þá segja skýrsluhöfundar að löggjöfin hafi haft áhrif á viðhorf ungra karla til vændiskaupa og orðið til þess að minnka eftirspurn hjá þeim.