Fréttir

Málþing um launamun kynjanna

Þrír starfshópar sem félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra skipuðu í lok árs 2007 til þess að benda á leiðir til að draga úr kynbundnum launamun bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, efna til málþings um þetta viðfangsefni. Málþingið verður haldið í fundarsal Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu í Reykjavík klukkan 15-17,föstudaginn 29. febrúar 2008.

Fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Fjármögnun jafnréttisbaráttunnar er aðalþema árlegs fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hefst í New York í dag. Fjörutíu og fimm ríki eiga sæti í nefndinni hverju sinni og lýkur kjörtímabili Íslands, sem átt hefur sæti í henni sl. fjögur ár, með þessum fundi. Af því tilefni verður framlag Íslands til fundarins með veglegra sniði en undanfarin ár. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra fer fyrir íslensku sendinefndinni, sem er óvenju stór, en um 30 fulltrúar, konur og karlar, sitja fundinn. Í þeim hópi eru fulltrúar frjálsra félagasamtaka, kostaðir af þeim, en einnig sækja fulltrúar félagsmálaráðuneytis, Jafnréttisstofu og þingkonur fundinn.

Jafnréttistorg Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 27. febrúar verður fyrsta Jafnréttistorg vetrarins. Þar mun Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur flytja erindi sitt Tíminn læknar ekki öll sár og er það byggt á mastersrannsókn hennar um kynferðislega misnotkun og önnur sálræn áföll í æsku og áhrif þeirra á heilsufar og líðan kvenna.

Stelpur við stjórn !

Bandalag kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands standa fyrir opnu húsi á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík á konudaginn, sunnudaginn 24. febrúar kl. 15-17. Fundurinn er öllum opinn og eru konur sérstaklega boðnar velkomnar.

Jafnréttismánuður menntamálaráðuneytisins

Í menntamálaráðuneytinu hefur febrúarmánuður 2008 verið útnefndur jafnréttismánuður og hafa jafnréttismál verið í brennidepli undanfarnar vikur. Markmiðið er að vekja jákvæða athygli á jafnréttismálum og varpa ljósi á stöðu jafnréttismála í menntamálaráðuneytinu. Jafnréttisnefnd menntamálaráðuneytisins stendur fyrir jafnréttismánuðinum með góðum stuðningi ráðherra og ráðuneytisstjóra.

Friður í krafti kvenna

Á morgun miðvikudaginn 20. febrúar verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík opinn fundur um framlag kvenna til friðarferlisins í Mið-Austurlöndum með fulltrúum friðarráðs palestínskra og ísraelskra kvenna. Fundurinn er haldinn í tilefni heimsóknar tveggja áhrifakvenna úr friðarráðinu, Anat Saragusti, sjónvarpsfréttakonu frá  Ísrael, og Maha Abu-Dayyeh Shamas, baráttukonu fyrir auknum réttindum kvenna í Palestínu. Þær munu halda erindi um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, friðarferlið og aðkomu ráðsins að því.

Knattspyrnusamband Íslands samþykkir jafnréttisstefnu

Á ársþingi KSÍ um síðustu helgi var jafnréttisáætlun sambandsins samþykkt. Markmiðið með jafnréttisáætluninni er að tryggja jafna möguleika allra til knattspyrnuiðkunar á Íslandi.

Félagsmálaráðherra styrkir atvinnusköpun kvenna

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur úthlutað styrkjum til atvinnumála kvenna að fjárhæð 15.790.000 krónur. Styrkjunum er ætlað að styðja við bakið á konum sem hafa áhuga á að hasla sér völl sem sjálfstæðir atvinnurekendur og eru með áhugaverða viðskiptahugmynd. Að þessu sinni var um að ræða aukaúthlutun styrkja til atvinnumála kvenna fyrir árið 2007 vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar og því mestu úthlutað til kvenna á landsbyggðinni.

Leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana í sveitarfélögum

Evrópusamtök sveitarfélaga (CEMR) og Evrópusamtök launafólks í almannaþágu (EPSU) hafa í sameiningu gefið út leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana í sveitarfélögum.  Leiðbeiningarnar taka m.a. mið af gerðum Evrópusambandsins um jafnréttismál, jafnréttissáttmála CEMR, samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um jafnréttismál auk þess sem þær byggja á reynslu þeirra sem náð hafa hvað bestum árangri á þessu sviði.

Reynsla kvenna af sjómennsku jákvæð

Konur eru fámennar í sjómannastétt, en þær ná því sjaldnast að verða fleiri en 10% starfandi sjómanna samkvæmt erlendum rannsóknum. Þetta lága hlutfall má rekja til menningarbundinna þátta, eins og hefðbundinnar skiptingu starfa í karla- og kvennastörf, og takmarkaðs vilja fólks til að haga sér í ósamræmi við viðteknar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika.