Fréttir

Úthlutun úr Jafnréttissjóði

Miðvikudaginn 24. október var úthlutað styrkjum úr Jafnréttissjóði. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður Jafnréttissjóðs gerði grein fyrir störfum stjórnar sjóðsins. Að þessu sinni bárust 13 umsóknir og styrkbeiðnir námu samtals 33.5 milljónum króna og í ár fengu 5 verkefni styrk samtals að upphæð 9,0 milljón króna. Geir H. Haarde, forsætisráðherra afhenti styrkina.

Menntaskólinn í Kópavogi hlaut viðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2007

Menntaskólinn í Kópavogi hlaut í gær árlega viðurkenningu Jafnréttisráðs. Meginástæða þeirrar ákvörðunar er að í menntaskólanum er skýr og virk jafnréttisstefna gagnvart bæði nemendum og starfsfólki. Skólinn hefur haft forystu um verkefni sem miða að því að jafna stöðu karla og kvenna.

Starfshópar til að fylgja eftir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur skipað tvo starfshópa til að fylgja eftir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Þar er megináherslan lögð á að unnið verði markvisst gegn kynbundnum launamun.

Áhugaverðar uppákomur næstu daga

Næstu daga verða fjölda atburða á dagskrá. Á morgun, 24. október, er ráðstefnan Erum við hrædd við jafnrétti? og boðið verður til Kvennasunds í Vesturbæjarlaug. Þann 25. október verður fluttur fyrirlesturinn Að hafa töglin og hagldirnar: Doris Lessing og feminisminn. Seinna sama dag verður ráðstefnan Konur í sveitarstjórnum. Á laugardaginn þann 27. október er svo ráðstefnan Kynblind og litlaus. Nánar má lesa um alla atburðina í atburðardagatalinu.

Jafnrétti og skóli

Jafnréttisnefnd Kennaraháskóla Íslands stendur fyrir fræðsluskotinni hátíðardagskrá í Kennaraháskóla Íslands með Kristínu Ástgeirsdóttur framkvæmdastýru Jafnréttisstofu þann 24. október.

Jafnrétti skilar arði

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sat fund norrænna jafnréttisráðherra í Helsinki í síðustu viku. Eitt meginumræðuefni fundarins var fyrirkomulag og reynsla af fæðingarorlofi á Norðurlöndunum. Á fundinum voru einnig kynntar niðurstöður rannsóknar sem sýna að jafnrétti skili arði.

Frumvarp til nýrra jafnréttislaga samþykkt í ríkisstjórn

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær frumvarp félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem fer nú til umfjöllunar í þingflokkum stjórnmálaflokkanna. Um er að ræða ný heildarlög á þessu sviði og byggir frumvarpið í meginatriðum á störfum þverpólitískrar nefndar sem starfaði undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara.

Jafnlaunamál

Kvenréttindafélag Íslands stendur fyrir hádegisfundi í dag 10. október nk. kl. 12:00-13:00 í samkomusal Hallveigarstaða við Túngötu. Á fundinum munu Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Hlér Guðjónsson frá Háskólanum á Bifröst ræða jafnlaunamálin.

Ný heimasíða um mansal

Samstarfshópur norrænna og baltneskra samtaka sem vinna gegn mansali hefur opnað heimasíðu. Síðan er hugsuð sem vettvangur til að nálgast upplýsinga um mansal og til þess að efla tengsl í baráttunni gegn mansali.