Fréttir

Jóla- og nýárskveðjur

Starfsfólk Jafnréttisstofu óskar öllum landsmönnum gleðilegra jóla og heillaríks komandi árs. 

Kynjuð fjárlagagerð leidd í lög

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á því að í nýjum lögum um opinber fjármál nr. 675/2015 sem samþykkt voru á Alþingi þann 19. desember er sérstök grein um kynjaða fjárlagagerð og jafnrétti.

Skýrsla um störf jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins

 Jafnréttisfulltrúar Stjórnarráðsins hafa tekið saman skýrslu um störf sín á tímabilinu 2011-2014. Skýrslan byggist á starfsáætlun jafnréttisfulltrúanna sem tekur mið af jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins og verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum 2011-2014.

Jafnréttisstofa hefur gefið út bæklinginn: Jöfnum leikinn

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er kveðið á um í 1. gr. að unnið skuli að jafnrétti kynjanna hér á landi með því að beita kynjasamþættingu. Kynjasamþætting felur í sér að spurt sé ákveðinna spurninga og ákveðinni aðferðafræði beitt við alla ákvarðanatöku og stefnumótun, hvort sem um er að ræða stjórnvöld eða atvinnulíf. Samkvæmt 18. gr. laganna er stofnunum og fyrirtækjum þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skylt að setja sér jafnréttisáætlun þar sem réttindi starfsmanna skv. 19.-22. gr. laganna skulu tryggð. Bæklingnum er því ætlað að kynna ávinning kynjasamþættingar fyrir stofnanir og fyrirtæki jafnframt því að reynast nothæft tæki við gerð jafnréttisáætlana.

Handbók um kynjasamþættingu

Jafnréttisstofa hefur gefið út handbókina Jöfnum leikinn en hún fjallar um kynjasamþættingu. 

Fræðsla um ofbeldi gegn fötluðum konum

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur gert samkomulag við Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum um að setrið annist útgáfu og dreifingu á kynningarefni um ofbeldi gegn fötluðum konum og hvert fatlaðar konur geti sótt stuðning hafi þær sætt ofbeldi. Til verkefnisins verður varið 1,8 milljónum króna.

Málþing um ofbeldið á landsbyggðunum

Um sjötíu manns sóttu málþing um aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum, heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi og afleiðingar þess á landsbyggðunum. Málþingið var haldið á Akureyri þann 4. desember sl. en var einnig sent út netinu.

Heimilisfriður - Heimsfriður

Þann 25. nóvember hefst alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi, átak sem rekja má allt aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins var valin til að tengja saman á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Átakið hefst á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gegn konum og því lýkur 10. desember á hinum alþjóðlega mannréttindadegi. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.

Sjávarútvegurinn hefur allt að vinna með auknu kynjajafnrétti

Á sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í Reykjavík 19.-20 nóvember var málstofa undir yfirskriftinni „Af hverju eru ekki fleiri konur í stjórnunarstöðum í sjávarútvegi?“. Frummælendur voru dr. Þóranna Jónsdóttir sviðsstjóri viðskiptasviðs HR, Kristín Ástgeirsdóttir Jafnréttisstofu, Guðrún Anna Finnbogadóttir sjávarútvegsfræðingur, Marie Christine Monfort sem unnið hefur um árabil í sjávarútvegi og Hilmar Hjaltason frá Capacent. Þetta er í fyrsta sinn sem kynjajafnrétti er rætt á þessum viðamikla vettvangi sjávarútvegsins. 

Vel heppnað Jafnréttisþing og athyglisverð fjölmiðlaviðurkenning

Á nýafstöðnu jafnréttisþingi sem fram fór 25. nóvember sl. var megin áhersla lögð á stöðu kvenna og kynjaðar birtingarmyndir á opinberum vettvangi en markmiðið var að varpa ljósi á ólíka stöðu kynjanna í fjölmiðlum og kvikmyndum annars vegar og hins vegar að fjalla um hatursorðræðu.