Fréttir

„Ekki benda á mig...“ - Um mismunun á íslenskum vinnumarkaði

Á Félagsvísindatorgi Háskólans á Akureyri, miðvikudaginn 12. febrúar kl. 12.00-13.00, flytur Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur á Jafnréttisstofu erindið: „Ekki benda á mig...“ - Um mismunun á íslenskum vinnumarkaði. Í erindi sínu mun Ingibjörg fjalla um nýja rannsókn sem Jafnréttisstofa lét gera um jafnrétti og mismunun á vinnumarkaði.

Styrkir til atvinnumála kvenna 2014 - Kynningarfundir

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna vegna ársins 2014 er velferðarráðherra veitir árlega. Styrkir þessir eru veittir af velferðarráðherra og er markmið þeirra að efla atvinnulíf og auka aðgengi kvenna að fjármagni.Til ráðstöfunar að þessu sinni eru 35 milljónir og er hámarksstyrkur kr. 3.000.000. Sérstök ráðgjafanefnd metur umsóknir og er umsóknarfrestur til miðnættis þann 24.febrúar og mun úthlutun fara fram í apríl. 

Félagsvísindatorg: Fjölbreytileiki í stjórnum fyrirtækja

Miðvikudaginn 5. febrúar mun Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu flytja erindið „Fjölbreytileiki í stjórnum fyrirtækja“ á félagsvísindatorgi Háskólans á Akureyri. Félagsvísindatorgið fer fram í stofu M102 milli kl. 12 til 13. Fjallað verður um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja en þann 1. september sl. tóku gildi lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns sé að lágmarki 40 prósent í stjórnum lífeyrissjóða og fyrirtækja þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli. Rætt verður um  áhrif laganna og þróun umræðna hérlendis og erlendis um aukin efnahagsleg völd kvenna auk þess sem Bergljót mun kynna nýtt verkefni Jafnréttisstofu sem á að ýta enn frekar undir jafnrétti kynjanna í stjórnum og við stjórnun fyrirtækja. Bergljót Þrastardóttir er sérfræðingur á Jafnréttisstofu. Hún er mannfræðingur frá HÍ, lauk kennsluréttindanámi frá HA árið 2003 og framhaldsnámi í opinberri stjórnsýslu við HÍ árið 2012.  Bergljót er í doktorsnámi við menntavísindasvið HÍ.