Fréttir

Starfsemi Karla til ábyrgðar tryggð

Vegna umræðna í fjölmiðlum síðustu daga um erfiða fjárhagsstöðu verkefnisins Karlar til ábyrgðar, er rétt að koma þeim ánægjulegu tíðindum á framfæri að ráðuneyti félags- og tryggingamála hefur ákveðið að veita viðbótarfé til starfseminnar. Þetta meðferðarúrræði fyrir karla sem vilja losna úr viðjum ofbeldisbeitingar sinnar verður því starfrækt áfram. Ljóst er að þörfin er veruleg því frá endurreisn starfseminnar árið 2006 hafa á annað hundrað karla leitað til úrræðisins.

Staðalímyndir og líðan kynjanna á unglingastigi í tengslum við náms- og starfsval

Fimmtudaginn 9. september heldur Kristján Ketill Stefánsson, stundakennari og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fyrirlestur er nefnist „Staðalímyndir og líðan kynjanna á unglingastigi í tengslum við náms- og starfsval“. Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.15.

Jafnréttisstofa 10 ára

Jafnréttisstofa verður 10 ára þann 15. september. Af því tilefni verður efnt til afmælisráðstefnu í Ketilhúsinu 10. september frá kl. 13.15-16.30. Ráðstefnan er haldin í tengslum við árlegan landsfund jafnréttisnefnda sveitarfélaga sem verður á Akureyri 10.-11. september.