Fréttir

Réttur þinn - Mikilvægar upplýsingar fyrir erlendar konur á Íslandi

Jafnréttisstofa hefur gefið út bækling með mikilvægum upplýsingum fyrir erlendar konur á Íslandi. Bæklingurinn ber nafnið Réttur þinn og er gefinn út á íslensku, ensku, pólsku, spænsku, taílensku, rússnesku og arabísku. Í honum má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi íslenskt samfélag og réttarkerfi. Upplýsingar um jafnrétti kynjanna, dvalarleyfi, hjónabönd, skilnað, forsjármál, umgengnismál, fjármál, ofbeldi í nánum samböndum og hótanir. Þar má einnig finna vísanir í frekari upplýsingar um aðstoð, svo sem símanúmer, heimilisföng og heimasíður ýmissa stofnanna og félagasamtaka.

Fyrirlestraröð um konur í Reykjavík á 19. öld

Þriðjudaginn 18. janúar hefst fyrirlestraröð Minjasafns Reykjavíkur þar sem fjallað eru um konur í Reykjavík á 19. öld frá margvíslegum sjónarhornum. Fyrsta fyrirlesturinn flytur Ólöf Garðarsdóttir prófessor og nefnist hann „Hvernig varpa hagtölur ljósi á líf kvenna?"

Jafnréttismál mikilvæg hjá þriðja hverjum frambjóðanda

Þrátt fyrir að jafnréttismál hafi ekki verið áberandi í stjórnlagaþingskosningunum voru þau mikilvægur hluti í stefnumörkun og málflutningi meira en þriðja hvers frambjóðanda. Þetta kemur fram í könnun sem Birgir Guðmundsson við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri gerði fyrir stjórnlagaþingskosningarnar með stuðningi frá Jafnréttisráði. Í skýrslu um rannsóknina segir að „málaflokkurinn skipti augljóslega umtalsverðu máli hjá það stórum hópi frambjóðenda að nær ómögulegt er annað en að hann verði tekinn upp á stjórnlagaþinginu sjálfu.“