Fréttir

Ísland heldur efsta sætinu á lista World Economic Forum

Nýlega birti World Economic Forum sem er sjálfstæð alþjóðleg stofnun árlegan lista yfir stöðu kynjajafnréttis í heiminum árið 2011. Þriðja árið í röð vermir Ísland efsta sætið og hefur aðeins bætt stöðu sína frá árinu 2010. Noregur, Finnland og Svíþjóð fylgja fast á eftir í sætum 2-4 en Danmörk er í sjöunda sæti. Það eru einkum pólitísk áhrif kvenna og staðan í menntamálum sem gerir að verkum hve Ísland kemur vel út. Þegar litið er á kynjajafnrétti á vinnumarkaði versnar ástandið heldur og einnig í heilbrigðismálum en reyndar munar sáralitlu milli landa í mælingunum á þessum þáttum. 

Ráðstefna um meðferð kynferðisbrota

Innanríkisráðuneyti, Lagadeild Háskóla Íslands og Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni efna í samvinnu við Evrópuráðið til ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu þann 20. janúar nk. Málstofan fer fram í Skriðu, Menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð í Reykjavík og stendur frá klukkan 10 til 18. Á ráðstefnunni verða bæði erlendir og innlendir fyrirlesarar og leitast verður við að leiða saman sjónarmið fræðasamfélagsins, réttarvörslukerfisins og frjálsra félagasamtaka sem fjalla um málaflokkinn.