Fréttir

Jafnréttissjóður auglýsir eftir umsóknum um styrki

Jafnréttissjóður auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Tilgangur sjóðsins er að efla kynjarannsóknir og stuðla þannig að bættri stöðu kvenna og karla og framgangi jafnréttis. Í samræmi við hlutverk sjóðsins verða veittir styrkir til rannsókna sem tengjast jafnréttismálum.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga verður haldinn 14. september nk. á Akranesi. Landsfundur jafnréttisnefnda er haldinn árlega og er kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum.

Upplýsingar um ESB og jafnréttismál á heimasíðu Jafnréttisstofu

Jafnréttisstofa hefur tekið saman yfirlit um jafnrétti kynjanna og Evrópusambandið. Í samantektinni er að finna upplýsingar um helstu áherslur Evrópusambandsins, stöðu jafnréttismála innan ESB, lagaramma ESB í jafnréttismálum, stofnanir og sjóði. Einnig er að finna upplýsingar um íslensk Evrópuverkefni og tilskipanir ESB sem Ísland hefur innleitt.

Þáttaskil í sögu þjóðkirkjunnar

Á undanförnum árum hefur kvenprestum fjölgað töluvert á Íslandi en þær hafa þó ekki verið áberandi í valdastöðum innan kirkjunnar.  Því var það það söguleg stund þegar sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir fyrsta konan sem var vígð sem sóknarprestur á Íslandi árið 1974 lagði  biskupskápuna á axlir sr. Agnesar M. Sigurðardóttur fyrsta kvenbiskups Íslands við vígslu hennar í Hallgrímskirkju síðastliðinn sunnudag.

Aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum

Á kvenréttindadeginum 19. júní, var aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún miðar að því að nýta sem best þær leiðir sem Reykjavíkurborg hefur yfir að ráða til að fyrirbyggja ofbeldi og styðja við þolendur ofbeldis. Aðgerðaráætlunin skiptist í tvo hluta; sá fyrri snýr að aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi og sá síðari um leiðir til að stemma stigu við ofbeldi gegn börnum. Í áætluninni er lögð áhersla á forvarnir, aðstoð við brotaþola, fræðslu, samstarf og meðferð fyrir gerendur. 

Kvenréttindadagurinn haldinn hátíðlegur á Hallveigarstöðum

Kvenréttindafélag Íslands heldur upp á kvenréttindadaginn þann 19. júní með hátíðardagskrá og kaffiveitingum á Hallveigarstöðum kl. 17:30  Dagskrá: Helga Guðrún Jónsdóttir, ávarp  formanns Kvenréttindafélags Íslands Sigurlaug Viborg, ávarp forseta Kvenfélagasambands Íslands Ragnhildur Jóhanns, frá Endemi, fjallar um konur í list Fríða Rós Valdimarsdóttir greinir frá niðurstöðum rannsókna um íslenska vændiskaupendur Steinunn Gyðu- Guðjónsdóttir kynnir Kristínarhús, athvarf fyrir konur sem hafa verið seldar mansali eða stundað vændi og vilja komast út úr því Kristín Þóra Harðardóttir úthlutar styrkjum úr Menningar- og minningarsjóði kvenna  

19. júní fer fram kvennasöguganga á Akureyri kl. 16:30

Jafnréttisstofa vill minna á að þann 19. júní fer fram kvennasöguganga á Akureyri. Gangan hefst við nýja kaffihúsið í Lystigarðinum, Café Björk, kl. 16:30 og endar við Minjasafnið á Akureyri. Björgvin Steindórsson, forstöðumaður Lystigarðsins mun ávarpa göngufólk. Leiðsögumaður kvennasögugöngunnar í ár er Hörður Geirsson, safnvörður Minjasafnsins.  Boðið verður uppá kaffi að göngu lokinni. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að mæta og upplifa hluta af sögu kvenna í Innbænum. Kvennasögugangan er nú gengin í fimmta sinn á Akureyri en þátttaka hefur alltaf verið mjög góð. Gangan hefur myndað nýja tengingu við Innbæinn og varpar ljósi á líf kvenna sem höfðu margar hverjar mikil áhrif á bæjarlífið á sínum tíma.

Staðall um launajafnrétti – opinn kynningarfundur á þriðjudag

Tilkynning: Staðall um launajafnrétti verður kynntur á morgunverðarfundi á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 19.júní kl. 8-10. ASÍ, SA og velferðarráðuneytið hafa frá því í árslok 2008 haft forgöngu um gerð staðals um launajafnrétti kynjanna í samræmi við bókun aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 og bráðabirgðaákvæði jafnréttislaga nr. 10/2008. Verkið hefur verið unnið undir leiðsögn Staðlaráðs Íslands og með aðkomu fjölmargra aðila.

Doktorsvörn í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

Þann 15. júní 2012 ver Þorgerður H. Þorvaldsdóttir doktorsritgerð sína From Gender Only to Equality for All: A Critical Examination of the Expansion of Equality Work in Iceland. Dr. Ómar H. Kristmundsson, prófessor og varadeildarforseti Stjórnmálafræðideildar stýrir athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands, Aðalbyggingu, kl. 15:00 og er öllum opin. Vörnin fer fram á ensku.

Vestnorræn vefsíða um jafnréttismál

Grænlendingar hafa ásamt norrænu ráðherranefndinni um jafnréttismál opnað vefsíðu um jafnrétti kynjanna í Grænlandi, Færeyjum og á Íslandi. Vefsíðan mun bjóða norrænum samtökum sem starfa að jafnréttismálum í þessum löndum upp á samskiptavettvang og aukin tækifæri til samvinnu.