Fréttir

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga

Árlegur landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn á Akranesi þann 14. september 2012. Landsfundir jafnrettisnefnda eru kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum. Landsfundir eru opnir fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaga og fulltrúum þeirra nefnda sem fara með jafnréttismál, en einnig eru velkomnir á fundina pólitískir fulltrúar og starfmenn sveitarfélaganna.  Um fjörtíu fulltrúar hvaðanæva af landinu tóku þátt í fundinum á Akranesi og þóttu fyrirlestrar, umræður og vinnulotur í kjölfar þeirra mjög hagnýtar. Á fundinum voru ýmis málefni til umfjöllunar, s.s. jafnrétti á Íslandi með augum kvenna af erlendum uppruna, kynjuð fjárhags- og starfsáætlanagerð hjá Reykjavíkurborg, gerð jafnréttis- og aðgerðaráætlana og samanburður á árangri stúlkna og drengja í grunnskólum. 

Kynbundinn launamunur í innanríkisráðuneytinu leiðréttur

Innanríkisráðuneytið hefur ákveðið að leiðrétta kynbundinn launamun í ráðuneytinu en við jafnlaunaúttekt kom í ljós 2,5% óútskýrður launamunur meðal sérfræðinga ráðuneytisins. Ráðuneytið telur óviðunandi að konur og karlar njóti ekki sömu launa fyrir sömu störf og fagnar úttektinni sem gefur tækifæri til að leiðrétta þessa skekkju.

Kynbundinn launamunur ekki á undanhaldi

Niðurstöður úr launakönnun SFR voru kynntar þann 7. september sl.  Könnunin sem er unnin af Capacent í samvinnu við VR og Stéttarfélag Reykjavíkurborgar sýnir að innan VR og SFR hafa orðið litlar breytingar á kynbundnum launamun frá síðustu könnun. Launamunur, sem eingöngu er hægt að rekja til kynferðis þegar búið er að taka tillit til annarra áhrifaþátta, mælist nú 9,4% af heildarlaunum hjá VR og hefur lækkað lítillega frá fyrra ári. Hjá SFR mælist kynbundinn launamunur 12,1%  og hefur lækkað úr 13% í fyrra, en hjá Stéttarfélagi Reykjavíkurborgar hefur kynbundinn launamunur af heildarlaunum hins vegar aukist úr 9% í fyrra í 11,8% nú.

Karlar og jafnréttismál

Miðvikudaginn 19. september mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu flytja erindi á jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri sem fjallar um tengsl karla við jafnréttismál. Í erindinu mun Tryggvi gera grein fyrir þeirri vinnu sem farið hefur fram, bæði á Íslandi og á Norðurlöndunum, til þess að auka hlut karla í umræðu um jafnréttismál. Þá mun Tryggvi kynna stefnu stjórnvalda á sviðinu og þá vinnu sem nú á sér stað, m.a. á vegum starfshóps velferðarráðherra. Torgið hefst kl. 12.00 og er í stofu M102.

Breið samstaða um aðgerðir gegn kynbundnum launamun

Stjórnvöld og samtök aðila vinnumarkaðarins hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf til að eyða kynbundnum launamun sem enn er viðvarandi vandi á innlendum vinnumarkaði.

Aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna

Í desember 2011 skipaði velferðarráðherra framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem meðal annars var falið að samhæfa aðgerðir til að draga úr launamisrétti kynja og vinna að gerð tímasettrar aðgerðaáætlunar. Var þetta gert í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum samþykkt var á liðnu ári. Aðgerðaáætlunin var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar 28. september síðastliðinn.

Morgunverðarfundur um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs

Velferðarráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu boðar til morgunverðarfundar um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á Grand hóteli þriðjudaginn 20. nóvember klukkan 8-10:30. Fundurinn er skipulagður af vinnuhópi um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem nú starfar í velferðarráðuneytinu. 

Dagur gegn einelti

Á morgun 8. nóvember verður haldinn sérstakur baráttudagur gegn einelti hér á landi þar sem þjóðin er hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Í tengslum við daginn eru allir hvattir til að skrifa undir þjóðarsáttmála gegn einelti, sem er aðgengilegur á heimasíðunni www.gegneinelti.is.

Félagsvísinda- og jafnréttistorg HA - Rannsókn á íslenska lífeyriskerfinu

Steinunn Rögnvaldsdóttir, MA í kynjafræði, mun kynna rannsókn sína á íslenska lífeyriskerfinu, á morgun miðvikudaginn 7. nóvember í stofu M102. Torgið hefst klukkan tólf og stendur til eitt. Rannsóknir á lífeyriskerfinu frá kynjafræðilegu sjónarhorni varpa ljósi á hvernig staða kvenna á ellilífeyri ber mark áratuga kynjamismununar í íslensku samfélagi. Ólaunuð heimilisstörf kvenna, kynbundinn launamunur og kynskiptur vinnumarkaður ásamt fleiri þáttum hafa myndað gjá milli lífeyrisgreiðslna karla og kvenna.

Ísland í fyrsta sæti í alþjóðlegri úttekt á kynjajafnrétti

Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) hefur gefið út árlega skýrslu um stöðu kynjajafnréttis í heiminum. Ísland er nú í efsta sæti þessarar úttektar Alþjóðaefnahagsráðsins á jafnrétti kynjanna en þetta er í fjórða árið í röð sem Ísland skipar sér í efsta sæti jafnréttislistans. Lagt er mat á stöðuna á fjórum sviðum, þ.e. út frá aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu, aðgengi að menntun, þátttöku í stjórnmálum og efnahagslegri stöðu þar sem horft er til atvinnuþátttöku, launajafnréttis, heildaratvinnutekna og hlutfalls kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga.