Fréttir

Ráðstefnur um hlutastörf, jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði 12. og 13. nóvember 2014

 Ísland fer í ár með formennsku í starfi norrænu ráðherranefndarinnar og leggur í samræmi við stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í jafnréttismálum meðal annars áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði og mun þannig halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var af Norðmönnum og Svíum á árunum 2012 og 2013. Mörg verkefni og rannsóknir um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á vinnumarkaði eru í burðarliðnum og verða þau kynnt á formennskuárinu.  Formennskuárið er einnig nýtt til að efla umræður meðal norrænna stjórnvalda um árangursríkar leiðir til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og um hvaða aðgerðir hafa gefið góða raun til að draga úr kynbundnum launamun. Þá er lögð áhersla á kynningu rannsókna um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Karlar til ábyrgðar - kynning á úttekt

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF) og Félagsvísindastofnun hafa unnið úttekt á meðferðarúrræðinu Karlar til ábyrgðar. Kynning á niðurstöðum árangursmatsins fer fram í stofu 101 í Lögbergi mánudaginn 13. október, frá 11:30 til 13:00.  Meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar er eina sérhæfða meðferðarúrræðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum og í nánum samböndum.  Tilgangur úttektarinnar, sem kynnt verður, var að leita svara við því hvert viðhorf þeirra sem sækja meðferðina er og að kanna hvaða breytingar hafa orðið á hegðun, lífsgæðum og félagslegum samskiptum þeirra karla sem sækja meðferð hjá Körlum til ábyrgðar. Þá var einnig leitast við að svara því hvort breytingar verða á högum kvenna við það að eiginmaður þeirra, sambýlismaður  eða kærasti sæki meðferð.

Kynjakvóti fjölgar konum meðal æðstu stjórnenda í norskum fyrirtækjum

Lög um kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga (ASA) voru samþykkt af norsku ríkisstjórninni árið 2003. Í lögunum er kveðið á um að hlutur hvors kyns í stjórn skuli vera að lágmarki 40%. Sissel Jensen við Norska viðskiptaháskólann (Norges Handelshöyskole) hefur í alþjóðlegu rannsóknarteymi kannað áhrif lagasetningarinnar á jafnrétti í viðskiptalífinu.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn í Reykjavík 18. og 19. september sl. Fyrri daginn var ráðstefna sem var opin öllum en seinni dagurinn var einungis fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk sem vinnur að jafnréttismálum. Fundurinn var undirbúinn af mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og  Jafnréttisstofu. Landsfundum er ætlað að vera vettvangur til að fræðast, efla tengsl og stofna til samstarfs um verkefni sá sviði jafnréttismála. Jafnréttisnefndir sveitarfélaga eða þær nefndir sem fara með hlutverk þeirra skulu, skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, leggja fram jafnréttisáætlun til fjögurra ára. Landsfundurinn var góður undirbúningur fyrir þá vinnu.

Jafnréttisstofa á ferð og flugi - Á Austurlandi

Jafnréttisstofa verður á á Þórshöfn í dag, fimmtudaginn 9. október, og boðar til opins fundar á Bárunni með íbúum Langanesbyggðar, sveitarstjórnarfólki, forstöðumönnum stofnanna og fyrirtækja á svæðinu. Á fundinum sem hefst klukkan 12:00 verður fjallað um skyldur sveitarfélaga og fyrirtækja í jafnréttismálum og staðalmyndir kynjanna.

Verkakonur í fortíð og nútíð

Þann 25. október næstkomandi verða liðin 100 ár frá stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar. Í tilefni af 100 ára afmælinu standa Starfsgreinasambandið, Efling stéttarfélag, Alþýðusamband Íslands, Jafnréttisstofa og Kvennasögusafn Íslands fyrir ráðstefnu í Iðnó föstudaginn 10. október kl. 13:00-16:00. Yfirskrift ráðstefnunnar er Verkakonur í fortíð og nútíð. Þar verður sjónum beint að baráttu verkakvenna á síðustu öld og stöðu þeirra í dag. Boðið verður upp á áhugaverð erindi og pallborðsumræður þar sem m.a. forystukonur Verkakvennafélagsins Framsóknar líta yfir farinn veg og skoða hvað hefur áunnist í baráttunni um bætt kjör verkakvenna.