Fréttir

Staða jafnlaunavottunar

Skrifstofa jafnréttismála í forsætisráðuneytinu lét nýlega gera könnun meðal þeirra 76 fyrirtækja sem höfðu öðlast jafnlaunavottun fyrir 30. apríl sl. Niðurstöður eru mjög jákvæðar og rúmlega 81% svarenda voru fremur eða mjög ánægð með jafnlaunavottunina og að hafa innleitt jafnlaunastaðalinn. Flestir svarenda notuðu niðurstöður launagreiningar til úrbóta á jafnlaunakerfinu.

Málþing um afnám kynjaðra staðalmynda í skólastarfi

Jafnréttisstofa hefur í samstarfi við jafnréttisstofnanir í Eistlandi og Litháen unnið að verkefni um afnám kynjaðra staðalmynda sem eru heftandi fyrir marga og leiða til einsleitni í náms- og starfsvali. Megin áhersla verkefnisins er á skóla- og tómstundastarf vegna þess að í því starfi er mikilvægt að ræða við nemendur um hugmyndir samfélagsins og þeirra um t.d. kyn, kyngervi og hlutverk kynjanna. Afrakstur verkefnisins verður kynntur á málþingi á Akureyri og eru skólastjórnendur, kennarar, námsráðgjafar og félagsmálaráðgjafar hvattir til að mæta.

Akureyrarbær veitir jafnréttisviðurkenningar

Á Vorkomu stjórnar Akureyrarstofu á sumardaginn fyrsta var tilkynnt um jafnréttisviðurkenningar Akureyrarbæjar, auk fleiri viðurkenninga, en árlega veitir bærinn viðurkenningu þeirri stofnun, fyrirtæki, nefnd eða ráði Akureyrarbæjar, einstaklingi eða félagi sem hefur að mati frístundaráðs bæjarins staðið sig best við framgang jafnréttismála á Akureyri, að undangenginni auglýsingu eftir tilnefningum.

Veggspjald um einelti, kynferðislega áreitni, kynbunda áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Á síðasta ári gáfu Jafnréttisstofa og Vinnueftirlitið í sameiningu út dagatal þar sem minnt var á skyldur atvinnurekenda til að tryggja starfsfólki öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Liður í því er að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Á dagatalinu var teikning eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur með skilgreiningum og dæmum um óæskilega hegðun á vinnustað. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að gera veggspjald með myndskreytingunni og senda það rafrænt og tilbúið til útprentunar til fyrirtækja og stofnana.

Opið fyrir umsóknir um styrki úr Jafnréttissjóði Íslands

Rannís lýsir eftir umsóknum um styrki úr Jafnréttissjóði Íslands. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í sjóðinn og er umsóknarfrestur til 20. maí 2019, kl. 16:00.

Samstarf Jafnréttisstofu og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ)

Gæðaverkefnið Fyrirmyndarfélag ÍSÍ hvetur íþrótta- og ungmennafélög til að huga vel að jafnréttismálum í sínu starfi og setja sér jafnréttisáætlun. Í kjölfar #MeToo umræðunnar tóku ÍSÍ og Jafnréttisstofa höndum saman með það að markmiði að aðstoða íþróttafélög við gerð jafnréttisáætlana þar sem m.a. kemur fram hvernig staðið er að forvörnum til að fyrirbyggja kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni.

Enskur bæklingur um stjórnsýslu jafnréttismála

Nýr enskur bæklingur um jafnréttismál á Íslandi er kominn út. Í honum er að finna upplýsingar um stjórnsýslu jafnréttismála á Íslandi og samantekt um jafnréttismál á ýmsum sviðum samfélagsins. Einnig má þar lesa um helstu áfanga í jafnréttismálum. Hægt er að nálgast rafræna útgáfu hér eða hafa samband við Jafnréttisstofu og fá eintak sent.

Konur og karlar á Íslandi 2019

Jafnréttisstofa gefur út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2019, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti. Bæklingurinn Konur og karlar á Íslandi 2019 kemur út á íslensku og ensku og hefur að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í íslensku samfélagi.

Herferðin Þú átt von tilnefnd til Lúðursins

Herferðin Þú átt VON sem Jafnréttisstofa gerði í samstarfi við ENNEMM og Sagafilm er tilnefnd til Lúðursins í flokki almannaheillaauglýsinga! ÍMARK, félag íslensks markaðsfólks, í samráði við Samband íslenskra auglýsingastofa, stendur að veitingu Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunanna og verða þau veitt þann 8. mars nk.

Að bogna en brotna ekki. Áföll – Afleiðingar – Úrvinnsla

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna boða Zontaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbburinn Þórunn hyrna og Jafnréttisstofa til hádegisfundar um áföll, afleiðingar þeirra og úrvinnslu.