Fréttir

Handbók um kynjaða fjárlagagerð gefin út

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á kynjajafnrétti og er kynjuð fjárlagagerð ein leið að því marki. Stefnt er að því að kynna fyrstu verkefni ríkisins í kynjaðri fjárlagagerð í fjárlögum ársins 2011. Verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð, sem skipuð var af fjármálaráðherra í apríl 2009, mun hafa yfirumsjón með því verki. Af því tilefni hefur fjármálaráðuneytið gefið út handbók undir yfirskriftinni Kynjuð fjárlagagerð: handbók um framkvæmd, sem ætlað er að varpa ljósi á aðferðafræði kynjaðrar fjárlagagerðar og vera þeim sem að fjárlagagerðinni koma til halds og traust.

Jafnrétti í skólum

Er kynjaskipting í skólastarfi leiðin að jafnréttisþjóðfélagi? Getur aukið jafnrétti kynjanna stöðvað fólksflóttann frá landsbyggðinni? Norræna ráðherranefndin, Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Jafnréttisstofa stóðu að tveimur norrænum ráðstefnum á liðnu ári þar sem rætt var um jafnréttishlutverk skólans. Nú er komin út skýrslan „Ligestilling i Norden“ með erindum og umræðum frá ráðstefnunum.

HIV breiðist hratt út meðal ungra kvenna

UNIFEM á Íslandi bjóða í samvinnu við Kríurnar – þróunarsamtök í þágu kvenna í Afríku, til fundar með namibísku konunni Vicky Bam laugardaginn 20. mars kl. 13 í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna á Íslandi við Laugaveg 42. Vicky mun halda erindi um það hvernig er að lifa með HIV/eyðni í sunnanverðri Afríku.

Uppboð til styrktar Neyðarmóttöku

Karlkynsöðlingarnir, sem tóku þátt í Öðlingsátakinu sem hófst á bóndadag og þeir stóðu að fram til konudagsins 21. febrúar sl., hafa óskað eftir því að kveðja sinn hluta átaksins með stæl og efna til uppboðs til styrktar Neyðarmóttöku vegna nauðgana. Uppboðið fer fram á Grand Hótel í Reykjavík, miðvikudaginn 17. mars kl. 17.00.

Jöfnum leikinn - Námskeið um kynjasamþættingu

Í dag er síðasti dagurinn til að skrá sig á námskeiðið Jöfnum leikinn. Námskeiðið fer fram þann 14. Desember nk. frá kl. 13:00 til 16:00 á Hótel Reykjavík Centrum. Á námskeiðinu verður fjallað um stöðu jafnréttismála á Íslandi í dag, hvað kynjasamþætting er, hvers vegna við þurfum á skipulögðu jafnréttisstarfi að halda og hvernig hægt er að aðlaga aðferðina að starfi þátttakenda.

Þolendum nauðgana um allan heim neitað um réttlæti og virðingu

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna birtir Amnesty International tvær skýrslur sem skoða kynferðislegt ofbeldi annars vegar í Kambódíu (Breaking the silence: Sexual violence in Cambodia) og hins vegar í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð (Case Closed: Rape and Human Rights in the Nordic Countries).

Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja samþykkt á Alþingi

Alþingi samþykkti í dag lög sem gera meðal annars ráð fyrir því, að í stjórnum opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en þrjá stjórnarmenn skuli hlutfall hvors kyns í stjórninni vera að minnsta kosti 40% í lok árs 2013.

8. mars alþjóðlegur baráttudagur kvenna

8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna er 100 ára í ár. Af því tilefni verða ýmsir viðburðir á dagskrá hér á landi og erlendis.

Konur taka við Öðlingskyndlinum

Á konudaginn tóku konur formlega við Öðlingskyndlinum úr höndum karla, sem hafa kynnt átakið og bók Þórdísa Elvu Þorvaldsdóttur: Á mannamáli, frá bóndeginum síðastliðnum. Hér eftir mun átakið og ágóði af sölu bókarinnar renna til Kvennahreyfingarinnar sem undirbýr stóran viðburð í kringum kvennafrídaginn 25. október nk.

Frelsi til fjölskyldulífs

Í tilefni 100 ára afmæli alþjóðlegs baráttudags kvenna þann 8. mars, verður blásið til hádegisfundar á Grand hótel undir yfirskriftinni Frelsi til fjölskyldulífs - samræming fjölskyldu og atvinnulífs. Flutt verða þrjú erindi yfir heitri súpu en það eru þau Gyða Margrét Pétursdóttir, Ingólfur V. Gíslason og Heiða Björk Rúnarsdóttir sem tala. Að fundinum standa ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, SSF, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa.