Fréttir

Málþing um kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki

Þann 3. október var haldið fjölmennt málþing um kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki. Að málþinginu stóðu: Stígamót, Rannsóknasetur í fötlunarfræðum, Landssamtökin Þroskahjálp, NPA miðstöðin, Öryrkjabandalag Íslands, Kvennaathvarfið, Reykjavíkurborg, Jafnréttisstofa, Velferðarráðuneytið, Þroskaþjálfafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Ás styrktarfélag. Þessir aðilar sendu frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í kjölfar málþingsins auk þess sem glærur af málþinginu eru nú aðgengilegar. 

Félagsvísindatorg í Háskólanum á Akureyri

Miðvikudaginn 2. október kl. 12.00-13.00 flytur Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur og fyrrverandi þingkona Kvennalistans erindið „Öll mál eru kvennamál“ - Kvennalistinn og áhrif hans 1983-1999 á félagsvísindatorgi í stofu M102.

Vitundarvakning um ofbeldi gegn börnum-Fræðsluþing víða um land

Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum stendur fyrir fræðsluþingum víða um land í október 2013. Þingin eru hugsuð fyrir stjórnendur, kennara og annað starfsfólk grunn- og framhaldsskóla. Einnig eru hvattir til að mæta; forvarnarfulltrúar, náms- og starfsráðgjafar, þeir sem starfa við íþrótta-og æskulýðsmál, barnavernd, heilsugæslu og félagsþjónustu að ógleymdum sveitarstjórnum og löggæslu. Vitundavakning leggur áherslu á að fræða þá sem vinna með börnum um eðli og afleiðingar kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis, svo allir séu í stakk búnir til að bregðast við, ef börn sýna þess merki að hafa orðið fyrir ofbeldi.

Nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands

Út er komin skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Í skýrslunni er að finna greiningu á kynjaskiptingu í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárinu 2011 og 2012. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa haft eftirlit með framkvæmd hans. Kynjakvótinn, sem kveðið er á um í 15 grein laga nr. 10/2008, gerir ráð fyrir að hlutur hvors kyns um sig skuli ekki vera minni en 40% nema hlutlægar ástæður heimili annað.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 2013

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga verður haldinn á Hvolsvelli þann 27. september nk. Dagskrá fundarins er mjög spennandi og fjölbreytt og eru fulltrúar sveitarfélaga sem starfa að jafnréttis- og félagsmálum hvattir til að mæta á fundinn. Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga er kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum. Landsfundurinn er opinn fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaga, en einnig eru velkomnir á fundinn fulltrúar þeirra sveitarstjórna sem ekki hafa skipað jafnréttisnefndir sem og stjórnmálamenn og aðrir starfmenn sveitarfélaganna. Dagskrá landsfundarins

Fjárlaganefnd Alþingis heimsækir Jafnréttisstofu

Fjárlaganefnd Alþingis heimsótti Jafnréttisstofu í vikunni en nefndin heimsækir þessa dagana fjölmargar opinberar stofnanir á Akureyri. Starfsfólk Jafnréttisstofu kynnti starfsemi stofnunarinnar og urðu góðar umræður. 

Ársskýrsla Jafnréttisstofu 2012 komin út

Ársskýrsla Jafnréttisstofu um starfsárið 2012 er nú komin út. Í henni má finna yfirlit yfir helstu verkefni Jafnréttisstofu og þær áherslur sem lagðar voru í jafnréttismálum á umræddu tímabili. Starfsemi Jafnréttisstofu er margþætt og verkefni sem unnin voru á hennar vegum á árinu sýna það glöggt. Í byrjun árs gaf Jafnréttisstofa út bæklinginn Gender Equality in Iceland sem gefur góða mynd af jafnréttismálum á Íslandi og hefur bæklingnum verið mjög vel tekið. Jafnréttisstofa gaf einnig út bæklinginn Kynjakrónur í samstarfi við Fjármálaráðuneytið og stóð fyrir námskeiðum víða um land um kynjasamþættingu og gerð jafnréttisáætlana. Jafnréttisstofa hélt einnig ráðstefnur í samstarfi við ýmsa aðila og kallaði inn jafnréttisáætlanir frá framhaldsskólum og opinberum stofnunum svo eitthvað sé nefnt. Ársskýrsla Jafnréttisstofu 2012

Málþing - Kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki

Málþing um kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki mun fara fram á Grand Hóteli Reykjavík fimmtudaginn 3. október kl. 13.00-17.00. Málþingið er haldið af Velferðarráðuneytinu, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg, Öryrkjabandalagi Íslands, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ás-styrktarfélagi, Landssamtökunum Þroskahjálp, Stígamótum, Kvennaathvarfinu, NPA miðstöðinni og Þroskaþjálfafélagi Íslands. Um er að ræða opið málþing og er aðgangur ókeypis.  Rit- og tálknmálstúlkar verða á staðnum. Skráning fer fram á slóðinni: www.throskahjalp.is

Hlutfall kvenna í stjórnum lífeyrissjóða eykst um 18,4%

Þann 1. september 2013 tóku gildi lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns sé að lágmarki 40% í stjórnum lífeyrissjóða, einkahlutafélaga, hlutafélaga,  samlagshlutafélaga, opinberra hlutafélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli.  KPMG hefur undanfarin ár tekið saman upplýsingar um kynjahlutfall stjórnarmanna hjá lífeyrissjóðum. Samanburðurinn leiðir í ljós að heildarhlutfall kvenna í stjórnum lífeyrissjóða er nú 44,4% og hefur aukist um 18,4% prósentustig frá árinu 2010.

Fundur Jafnréttisfulltrúa ráðuneyta með Jafnréttisstofu

Árlegur samráðsfundur jafnréttisfulltrúa ráðuneyta og starfsfólks Jafnréttisstofu  fór fram á Jafnréttisstofu þann 9. september sl. Þar var farið  yfir helstu verkefni Jafnréttisstofu og þau verkefni sem eru í gangi innan ráðuneytanna eða í undirstofnunum þeirra. Meðal annars var sjónum beint að formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014 en þá stendur mikið til hvað varðar jafnrétti kynjanna. Að þessu sinni voru tvær mismununartilskipanir Evrópusambandsins kynntar sérstaklega og rætt um þá réttarvernd sem þær munu veita hér á landi en til stendur að innleiða þær á næstu mánuðum. Þær munu hafa í för með sér verulegar breytingar á stjórnsýslu jafnréttismála.