Fréttir

Norrænar jafnréttisstofnanir funda í Reykjavík

Árlegur (lokaður) fundur jafnréttisstofnana á Norðurlöndunum verður haldinn í Reykjavík 5.-6. september. Að þessu sinni verða aðalumræðuefnin staða og hlutverk félagasamtaka í mannréttindabaráttu og hatursorðræða í netmiðlum. Þá verða einnig kynntar nýlegar úttektir Norðmanna á skipulagi og stefnu þeirra hvað varðar jafnrétti kynjanna.

Styrkur til ritunar meistararitgerðar

Bandalag kvenna í Reykjavík í samstarfi við Stjórnmálafræðideild HÍ og námsbraut í blaða- og fréttamennsku auglýsir styrk til ritunar meistararitgerðar um birtingarmyndir kvenna í íslenskum fjölmiðlum. Miðað er við lokaverkefni í meistaranámi, að lágmarki 30 ECTS einingar. Verkefnið þarf að hefjast sem fyrst og er miðað við að því ljúki ekki síðar en vorið 2014. Verkefnið hentar meistaranema í kynjafræði, stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, blaða- og fréttamennsku eða almennum félagsvísindum og skal beita kynjafræðilegu sjónarhorni á verkefnið. Markmið verkefnisins er að m.a. að kanna kynjahlutföll í fjölmiðlum og að hvaða marki mismunandi birtingarmyndir búi að baki mismunandi sýnileika kynjanna. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði gagnagreining, spurningakönnun og/eða viðtalsrannsókn.

Ráðherra í heimsókn á Jafnréttisstofu

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti sér starfsemi Jafnréttisstofu á Akureyri í vikunni og ræddi við starfsfólk um áherslur í jafnréttismálum og helstu verkefni stofnunarinnar. Í för með ráðherranum voru Matthías Páll Imsland, aðstoðarmaður ráðherra, Höskuldur Þórhallsson, þingmaður, Ingi Valur Jóhannsson, Rán Ingvarsdóttir og Margrét Erlendsdóttir.

NIKK – Norræna þekkingar- og upplýsingamiðstöðin um jafnréttismál auglýsir styrki

Norræna þekkingar- og upplýsingamiðstöðin um jafnréttismál, NIKK, hefur auglýst styrki vegna verkefna á sviði jafnréttismála. Umsóknarfrestur er til og með 15. september næstkomandi. Opnað verður fyrir umsóknir þann 15 ágúst.

Kyn, velferð og leiðir úr kreppum

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd og Félagsráðgjafardeild HÍ í samstarfi við MARK og Jafnréttisstofu bjóða upp á málstofu þann 20. ágúst n.k. í Lögbergi (101).  Í málstofunni mun Ann Shola Orloff, prófessor í félagsfræði við Northwestern Háskólann í Chicago flytja fyrirlestur sinn: Kyn, velferð og leiðir úr kreppum. Málstofan hefst kl. 12:10 og er öllum opin.

Hvernig gengur Íslendingum að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf?

Þessari spurningu er velt upp í nýlegu meistaraverkefni Ragnheiðar G. Eyjólfsdóttur í Stjórnun og eflingu mannauðs (OBTM) frá Háskólanum í Reykjavík. Megin markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði gengur að samræma fjölskyldulíf sitt og atvinnu.

Leiðir sem stuðla að samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs

Vinnuhópur sem falið var að fjalla um leiðir til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf hefur skilað félags- og húsnæðismálaráðherra tillögum sínum og greinargerð. Velferðarráðherra skipaði hópinn í samstarfi við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu haustið 2012.

Fjölmenn kvennasöguganga á Akureyri

Fjölmennt var í fyrstu kvennasögugöngu um Oddeyrina á Akureyri þann 19. júní sl. en hátt í 200 manns hófu gönguna frá Ráðhústorgi. Margir einstaklingar komu að göngunni í ár aðrir en leiðsögumaðurinn Örn Ingi Gíslason og leikkonan Saga Jónsdóttir sem fjallaði á skemmtilegan og upplýsandi hátt um Vilhelmínu Lever sem kaus fyrst kvenna til sveitarstjórnar á Íslandi fyrir 140 árum. Þátttakendur í göngunni mættu ýmsum leiknum karakterum á götum eyrarinnar en ungt fólk úr verkefninu „Skapandi sumarstörf“ hjá Akureyrarbæ setti sig í stellingar íbúa á eyrinni. Eigendur fornbíla keyrðu um eyrina með farþega frá liðnum tíma.

Sendiherra flytur erindi í Kvennaháskóla Kína

Kristín A. Árnadóttir sendiherra flutti erindi um kynjajafnrétti og stöðu jafnréttismála á Íslandi í Kvennaháskóla Kína (China Women’s University) í Peking í lok maí. Fyrirlesturinn var upphaf fundaraðar í háskólanum með fulltrúum erlendra ríkja. Fyrirlesturinn fór fram í hátíðarsal skólans og voru um 400 nemendur, kennarar og aðra gestir viðstaddir.

Tímaritið 19.júní komið út

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á að nýtt tölublað af 19. júní er komið út. 19. júní er ársrit Kvenréttindafélags Íslands og með elstu tímaritum hér landi, en fyrsti árgangur blaðsins kom út árið 1951. Í rúmlega sextíu ár hafa í tímaritinu birst greinar sem tengjast konum, kvenfrelsi og kvennamenningu. Þessar greinar eru ómetanleg heimild um samfélagssögu síðustu áratuga. Að þessu sinni er tímaritið gefið út með nýju sniði ætlað nýrri öld. 19. júní kemur út á rafrænu formi sem allir hafa aðgang að í snjallsímum, spjaldtölvum og á tölvum. Vitaskuld er svo hægt að prentað tímaritið í heild, eða hluta, út og lesa þannig.