Í velferðarráðuneytinu er starfræktur Jafnréttissjóður Íslands sem stofnaður var með samþykki þingsályktunar 1009/2015 í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna. Megintilgangur Jafnréttissjóðs Íslands er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.
06.05.2016
Á Jafnréttistorgi miðvikudaginn 20. apríl kl. 12.00-12.50 flytur Dr. Marta Einarsdóttir sérfræðingur við RHA erindi sem nefnist ,,Konur sem ganga menntaveginn virða ekki karla”: Menntun og atvinnuþátttaka kvenna í Mósambík sem ógnun við kynjahlutverk.
Erindið er byggt á etnógrafískri doktorsrannsókn Dr. Mörtu Einarsdóttur, sem bjó í litlu þorpi í Mósambík, hjá einstæðri móður og fjölskyldu hennar og skoðaði þær hindranir sem sumar giftar konur urðu fyrir þegar þær hófu nám á ný á fullorðinsaldri. Fjallað er um hvernig sumir karlar túlka aukna menntun og atvinnuþátttöku kvenna sem ógnun við karlmennskuímyndina og kynhlutverk sitt sem ,,fyrirvinna” og ,,húsbóndi.” Þessi andstaða birtist á mismunandi hátt, frá úrtölum upp í andlegt og líkamlegt ofbeldi.
18.04.2016
Í síðustu viku hélt Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð vel heppnað málþing um Jafnrétti í
sveitarfélögum. Áhersla var á að sýna hvernig jafnrétti kynjanna getur aukið gæði þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin veita. Nú er hægt að sjá öll erindin á heimasíðu Sambandsins.
06.04.2016
Ísland var eitt af fyrstu ríkjum Evrópu til að undirrita nýjan samning Evrópuráðsins þann 11. maí 2011 um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum sem kenndur hefur verið við borgina Istanbúl þar sem hann var endanlega samþykktur Nú stendur til að ljúka fullgildingu samningsins og innleiða hann á Íslandi. Liður í innleiðingunni er frumvarp til laga um breytingar á hegningarlögum sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Af því tilefni boða Jafnréttisstofa og Mannréttindaskrifstofa Íslands til málþings um Istanbúlsamninginn og innleiðingu hans á Íslandi. Málþingið verður haldinn þann 8.apríl kl. 13-15 í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík.
04.04.2016
Jafnréttisráð óskar eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar Jafnréttisráðs fyrir árið 2016. Viðurkenningu geta hlotið einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög, hópar eða félagasamtök, sem á einn eða annan hátt hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði jafnréttismála. Í ár stendur til að veita tvær viðurkenningar. Eina til fyrirtækis, sveitarfélags eða stofnunnar og aðra til einstaklings, hóps eða félagasamtaka.
30.03.2016
Jeff Hearn, prófessor í kynjafræði við hug- og félagsvísindasvið Örebro-háskóla í Svíþjóð og rannsóknaprófessor í félagsfræði við Huddersfield-háskóla, í Bretlandi, heldur áttunda fyrirlestur vormisseris, „Hnattrænn vandi karla … og hvernig á að bregðast við honum? Mótspyrna, ábyrgð og viðbrögð“, fimmtudaginn 31. mars, kl. 12-13, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Í fyrirlestrinum fjallar Jeff um nauðsyn þessa að endurskoða áherslur gagnrýnna rannsókna á körlum og karlmennsku í ljósi hnattrænna og þverþjóðlegra breytinga, svo sem hnattræns hagkerfis, fólksflutninga, upplýsinga- og samskiptatækni. Þetta skiptir ekki aðeins máli í rannsóknum og greiningu heldur einnig í stefnumótun og stjórnmálum. Þessi staða verður skoðuð með hliðsjón af spurningum um mótspyrnu, ábyrgð og mögulegum við brögðum við henni.
30.03.2016
Bæklingurinn var gefinn út í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti þann 8. mars síðast liðinn. Kynlegar tölur hefur að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í borginni og á landinu. Í ár er sjónum beint m.a. að morðum , útvarpi og hlaðvarpi, heilbrigðismálum og íþróttafélögum í Reykjavík.
14.03.2016
Jafnréttisstofa gefur árlega út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi í samstarfi við við Hagstofu Íslands og velferðarráðuneytið.
Í bæklingnum er að finna samantekt á helstu tölum og hlut kvenna og karla á ýmsum sviðum samfélagsins. Í bæklingnum eru meðal annars upplýsingar um stöðu kynjanna á vinnumarkaði, í menntakerfinu, í fjölmiðlum og í áhrifastöðum, ásamt upplýsingum um mannfjölda, fjölskyldur og fæðingarorlof. Bæklingurinn er einnig gefinn út á ensku.
10.03.2016
„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn, en hvað ef þorpið er óuppalið?“ spurði Brynhildur Þórarinsdóttir móðir og rithöfundur í erindi sem hún flutti á fundi á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í Hofi á Akureyri. Fundurinn bar yfirskriftina Uppeldi barna í anda jafnréttis og var haldinn af Jafnréttisstofu, Zontaklúbbnum Þórunni hyrnu og Zontaklúbbi Akureyrar. Rúmlega hundrað manns sóttu fundinn.
09.03.2016
Árið 1985 fullgilti Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um Afnám allrar mismununar gagnvart konum en hann var samþykktur á vettvangi SÞ árið 1979. Síðan þá hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda verið kallaðir nokkrum sinnum fyrir CEDAW nefndina til að gera grein fyrir því hvernig staðið hefur verið við samninginn. Þetta er eins konar yfirheyrsla þar sem fyrst er flutt skýrsla landsins en síðan spyrja nefndarmenn fulltrúana spjörunum úr um ýmis atriði sem þeim finnst að betur megi fara eða hvers vegna ekki sé búið að bæta úr því sem athugasemdir voru gerðar við síðast. Fulltrúar Íslands voru kallaðir fyrir nefndina 17. febrúar síðast liðinn og nú eru athugasemdir CEDAW nefndarinnar komnar fram. Kvenréttindafélag Íslands hefur vakið athygli á þeim og þær kalla sannarlega á umræður. Athugasemdirnar eru fjölmargar en sérstaklega er lögð áhersla á eftirfarandi:
1. að stjórnvöld samþykki tafarlaust aðgerðaáætlun gegn kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi sem taki tillit til þarfa kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna, og tryggi fjármagn og mannafl til að lögregluembætti út um allt land geti tekið upp verklag lögreglunnar í Reykjavík í ofbeldismálum (verkefnið „Að halda glugganum opnum“).
2. að grípa tafarlaust til aðgerða, jafnvel sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti, og í háttsettum stöðum innan utanríkisþjónustunnar (stöðu sendiherra)
09.03.2016