Fréttir

Jafnréttisfræðsla í leikskólum og grunnskólum

Nýtt verkefni sem miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í skólastarfi, þ.e. í leikskólum og grunnskólum, er að hefja göngu sína. Með markvissri fræðslu og umræðu frá upphafi skólagöngu er hægt að gefa ungu fólki tækifæri til að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína á eigin forsendum óháð staðalmyndum kynjanna og hefðbundnu starfsvali. Jafnréttisstofa hefur umsjón með verkefninu og hefur verið auglýst eftir verkefnisstjóra.

Krossgötur kynjarannsókna

Dagana 9. - 10. nóvember, stendur RIKK fyrir fjórðu ráðstefnu stofnunarinnar um stöðu og leiðir kynjarannsókna. Þessum ráðstefnum er ætlað veita innsýn í þverfaglegt rannsóknastarf á fræðasviðinu. Ráðstefnan um næstu helgi sýnir breidd, fjölbreytni og grósku í íslenskum kvenna- og kynjarannsóknum. Á áttunda tug fræðimanna fjalla um rannsóknir sínar í 18 málstofum. Sérstakir gestir ráðstefnunnar eru Drude Dahlerup, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Stockholm og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.  

Lokaráðstefna Jafnréttisvogarinnar

Lokaráðstefna Evrópuverkefnisins Jafnréttisvogin verður haldið föstudaginn 16. nóvember nk. á Hótel Loftleiðum. Verkefnið snýst um að mæla stöðu jafnréttis hjá sveitarfélögum í fimm löndum og verða niðurstöður þess kynntar á ráðstefnunni.

Réttindi barna við skilnað

Félag um foreldrajafnrétti stendur fyrir ráðstefnunni Réttindi barna við skilnað á feðradaginn, sunnudaginn 11. nóvember kl. 16.

Áhugaverðir atburðir næstu daga

Minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur verður afhjúpaður á horni Þingholtsstrætis og Amtmannsstígs þann 7. nóvember. Heiðar Eiríksson flytur fyrirlesturinn Mansal og kynlífsþrælkun í tengslum við friðargæslu Sameinuðu þjóðanna á Fimmtudagshlaðborði Akureyrarakademíunnar, þann 8. nóvember. Kynjafræðiþing verður svo haldið 9. og 10. nóvember í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Boðið er upp á um 70 fyrirlestra í 16 málstofum. Sérstakir gestir ráðstefnunnar eru Drude Dahlerup, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Stokkhólmi og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.

Frumvarp til nýrra jafnréttislaga

Nú hefur verið lagt fram á Alþingi nýtt frumvarp til jafnréttislaga. Það má nálgast hér. Einnig er hægt að fylgjast með ferli málsins á þingi á þessari slóð.

Ársskýrsla Jafnréttisstofu komin út

Ársskýrsla Jafnréttisstofu fyrir árið 2006 er nú komin út. Starf stofunnar á árinu var margþætt, en sérstök áhersla var lögð á málefni sveitarfélaga. Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga var ákveðið að bjóða nýjum sveitarstjórnum upp á fræðslu um jafnréttismál. Einnig var farið af stað með nýtt Evrópuverkefni um stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum. Verkefnið hefur hlotið nafnið Jafnréttisvogin og er unnið undir stjórn Jafnréttisstofu í samvinnu við fjögur önnur lönd.

Úthlutun úr Jafnréttissjóði

Miðvikudaginn 24. október var úthlutað styrkjum úr Jafnréttissjóði. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður Jafnréttissjóðs gerði grein fyrir störfum stjórnar sjóðsins. Að þessu sinni bárust 13 umsóknir og styrkbeiðnir námu samtals 33.5 milljónum króna og í ár fengu 5 verkefni styrk samtals að upphæð 9,0 milljón króna. Geir H. Haarde, forsætisráðherra afhenti styrkina.

Menntaskólinn í Kópavogi hlaut viðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2007

Menntaskólinn í Kópavogi hlaut í gær árlega viðurkenningu Jafnréttisráðs. Meginástæða þeirrar ákvörðunar er að í menntaskólanum er skýr og virk jafnréttisstefna gagnvart bæði nemendum og starfsfólki. Skólinn hefur haft forystu um verkefni sem miða að því að jafna stöðu karla og kvenna.

Starfshópar til að fylgja eftir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur skipað tvo starfshópa til að fylgja eftir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Þar er megináherslan lögð á að unnið verði markvisst gegn kynbundnum launamun.