Fréttir

Ályktun Jafnréttisráðs um kynbundinn launamun

Í tilefndi dagsins sendir Jafnréttisráð frá sér eftirfarandi ályktun: Jafnréttisráð samþykkti á fundi sínum 8. október sl. að hvetja alla þá sem koma að kjaramálum að leggja sig fram um að uppræta kynbundinn launamun og sætta sig ekki við óbreytt ástand.

Skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna 2013

Komin er út skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Í skýrslunni er að finna greiningu á skiptingu kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárinu 2013 auk þess sem farið er yfir þróun síðustu ára. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa haft eftirlit með framkvæmd hans.

Opinn fundur kvennafrídaginn 24. október

Þann 24. október næstkomandi mun Jafnréttisstofa, í samstarfi við Akureyrarbæ, standa að opnum fundi um stöðu kvenna í umönnunar- og þjónustustörfum með sérstaka áherslu á kynbundna og kynferðislega áreitni. 

Kyn og fræði - ný þekking verður til

Forsætisráðherra mun úthluta styrkjum til rannsókna á sviði jafnréttismála úr Jafnréttissjóði á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október næstkomandi á morgunverðarmálþingi á Grand Hótel Reykjavík við Sigtún. Styrkirnir eru fjórir og eru samtals að upphæð 8,6 mkr.

Styttra á milli Akureyrar og Kópavogs en Kópavogs og Kópavogs

Í gær var styttra milli Akureyrar og Kópavogs en Kópavogs og Kópavogs. Þetta fékk Arnfríður Aðalsteinsdóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, að reyna. Hún brá sér af bæ og hitti leikskólastjóra í Kópavogi. Á meðan það tók leikskólastjóra, búsetta í Kópavogi, tvo klukkutíma að komast á Bæjarskrifstofur Kópavogs tók sama ferðalag frá Akureyri ekki nema klukkutíma. Ferðalagið var engu að síður vel þess virði og leikskólastjórar fengu fræðslu um staðalmyndir kynjanna og tilgang jafnréttisáætlana í skólastarfi. Leikskólar Kópavogsbæjar búa svo vel að til er metnaðarfull jafnréttisstefna fyrir skólana sem einungis þarf að endurskoða og uppfæra. Í framhaldinu mun síðan hver skóli fyrir sig setja sér sína eigin aðgerðaáætlun. Sjá frétt um færð í Kópavogi

Súpufundur á Seyðisfirði Kvennafrídaginn 24. október 2014

Á kvennafrídaginn, föstudaginn 24. október, mun Seyðisfjarðarkaupstaður standa fyrir hádegisverðarfundi á Hótel Öldu, Seyðisfirði. Húsið opnar kl. 11:50 og dagskráin hefst kl. 12.10. Gestum er boðið að kaupa súpu meðan á dagskrá stendur. Frummælendur á fundinum eru Tinna Halldórsdóttir, Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, Erna Rut Rúnarsdóttir og Gunnhildur Eldjárnsdóttir.  Í frétt á vefsíðu sveitarfélagsins segir að í tilefni dagsins muni Seyðisfjarðarkaupstaður veita konum frí frá klukkan 11.50.

Karlar tregari til svara...

"Svör bárust síður frá körlum en konum" sögðu þær Eva Björk Jónudóttir jafnréttisfulltrúi Seyðisfjarðarkaupsstaðar og Sigurveig Gísladóttir fulltrúi velferðarnefndar, nefndarinnar sem fer með jafnréttismál sveitarfélagsins. Þetta kom fram á fundi sem Jafnréttisstofa átti með þeim Evu Björk og Sigurveigu á ferð sinni um Austurland í byrjun október. Á fundinum kynntu Eva og Sigurveig m.a. könnun sem lögð hafði verið fyrir starfsfólk Seyðisfjarðarkaupstaðar. Í könnuninni voru jafnréttismál, launamál, einelti og kynferðisleg áreitni skoðuð. 

Ráðstefnur um hlutastörf, jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði 12. og 13. nóvember 2014

 Ísland fer í ár með formennsku í starfi norrænu ráðherranefndarinnar og leggur í samræmi við stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í jafnréttismálum meðal annars áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði og mun þannig halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var af Norðmönnum og Svíum á árunum 2012 og 2013. Mörg verkefni og rannsóknir um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á vinnumarkaði eru í burðarliðnum og verða þau kynnt á formennskuárinu.  Formennskuárið er einnig nýtt til að efla umræður meðal norrænna stjórnvalda um árangursríkar leiðir til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og um hvaða aðgerðir hafa gefið góða raun til að draga úr kynbundnum launamun. Þá er lögð áhersla á kynningu rannsókna um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Karlar til ábyrgðar - kynning á úttekt

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF) og Félagsvísindastofnun hafa unnið úttekt á meðferðarúrræðinu Karlar til ábyrgðar. Kynning á niðurstöðum árangursmatsins fer fram í stofu 101 í Lögbergi mánudaginn 13. október, frá 11:30 til 13:00.  Meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar er eina sérhæfða meðferðarúrræðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum og í nánum samböndum.  Tilgangur úttektarinnar, sem kynnt verður, var að leita svara við því hvert viðhorf þeirra sem sækja meðferðina er og að kanna hvaða breytingar hafa orðið á hegðun, lífsgæðum og félagslegum samskiptum þeirra karla sem sækja meðferð hjá Körlum til ábyrgðar. Þá var einnig leitast við að svara því hvort breytingar verða á högum kvenna við það að eiginmaður þeirra, sambýlismaður  eða kærasti sæki meðferð.

Kynjakvóti fjölgar konum meðal æðstu stjórnenda í norskum fyrirtækjum

Lög um kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga (ASA) voru samþykkt af norsku ríkisstjórninni árið 2003. Í lögunum er kveðið á um að hlutur hvors kyns í stjórn skuli vera að lágmarki 40%. Sissel Jensen við Norska viðskiptaháskólann (Norges Handelshöyskole) hefur í alþjóðlegu rannsóknarteymi kannað áhrif lagasetningarinnar á jafnrétti í viðskiptalífinu.