Fréttir

„Ekki benda á mig...“ - Um mismunun á íslenskum vinnumarkaði

Á Félagsvísindatorgi Háskólans á Akureyri, miðvikudaginn 12. febrúar kl. 12.00-13.00, flytur Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur á Jafnréttisstofu erindið: „Ekki benda á mig...“ - Um mismunun á íslenskum vinnumarkaði. Í erindi sínu mun Ingibjörg fjalla um nýja rannsókn sem Jafnréttisstofa lét gera um jafnrétti og mismunun á vinnumarkaði.

Styrkir til atvinnumála kvenna 2014 - Kynningarfundir

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna vegna ársins 2014 er velferðarráðherra veitir árlega. Styrkir þessir eru veittir af velferðarráðherra og er markmið þeirra að efla atvinnulíf og auka aðgengi kvenna að fjármagni.Til ráðstöfunar að þessu sinni eru 35 milljónir og er hámarksstyrkur kr. 3.000.000. Sérstök ráðgjafanefnd metur umsóknir og er umsóknarfrestur til miðnættis þann 24.febrúar og mun úthlutun fara fram í apríl. 

Félagsvísindatorg: Fjölbreytileiki í stjórnum fyrirtækja

Miðvikudaginn 5. febrúar mun Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu flytja erindið „Fjölbreytileiki í stjórnum fyrirtækja“ á félagsvísindatorgi Háskólans á Akureyri. Félagsvísindatorgið fer fram í stofu M102 milli kl. 12 til 13. Fjallað verður um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja en þann 1. september sl. tóku gildi lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns sé að lágmarki 40 prósent í stjórnum lífeyrissjóða og fyrirtækja þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli. Rætt verður um  áhrif laganna og þróun umræðna hérlendis og erlendis um aukin efnahagsleg völd kvenna auk þess sem Bergljót mun kynna nýtt verkefni Jafnréttisstofu sem á að ýta enn frekar undir jafnrétti kynjanna í stjórnum og við stjórnun fyrirtækja. Bergljót Þrastardóttir er sérfræðingur á Jafnréttisstofu. Hún er mannfræðingur frá HÍ, lauk kennsluréttindanámi frá HA árið 2003 og framhaldsnámi í opinberri stjórnsýslu við HÍ árið 2012.  Bergljót er í doktorsnámi við menntavísindasvið HÍ.

Málþing um margbreytileika samfélagsins

Fimmtudaginn 30. janúar kl. 12.00-13.00 munu Mannréttindaskrifstofa Íslands, Jafnréttisstofa og Fjölmenningarsetur, styrkt af Progress áætlun Evrópusambandsins, standa fyrir málþingi um margbreytileika samfélagsins. Fundurinn er haldinn á þremur stöðum samtímis: Stofu 310 Árnagarði Háskóla Íslands, Stofu L-101 Háskólanum á Akureyri og Árnagötu 2-4 Ísafirði. Nánar um málþingið HÉR

Fundur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra boðaði til fundar um lög um kvóta í stjórnum fyrirtækja 22. janúar sl. Fundurinn var boðaður í þeim tilgangi að fá fram sjónarmið stjórnenda í atvinnulífinu á því hvernig lögin um kynjakvóta væru að virka. Fundurinn var vel sóttur af fulltrúum úr ýmsum geirum atvinnulífsins sem skiptust á skoðunum um tilgang laganna, virkni þeirra og framkvæmd. Á fundinum kom m.a. fram að hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hækkar eftir því sem að þau eru stærri og að viðhorf margra í atvinnulífinu til kvóta í stjórnum fyrirtækja hefur orðið jákvæðara á síðustu árum. 

Ályktun Jafnréttisráðs um átakið Konur til forystu

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á eftirfarandi ályktun Jafnréttisráðs: Jafnréttisráð lýsir ánægju sinni með átakið Konur til forystu. Átakið er samstarfsverkefni kvenna úr öllum stjórnmálaflokkum og nýtur stuðnings  stærstu kvennasamtaka landsins. Markmið átaksins er mjög þarft, en það snýst um að velja konur til forystu í stjórnmálum sem og í atvinnulífinu. Það er bæði jafnréttismál og hagur þjóðarinnar að njóta til jafns krafta beggja kynja í  valda- og ábyrgðastöðum.

Málþing um margbreytileika fjölskyldugerða 17. janúar

Þann 17. janúar næstkomandi mun velferðarvaktin halda málþing um margbreytileika fjölskyldugerða þar sem meðal annars verður rætt hvernig börn við ólíkar aðstæður skilgreina fjölskyldur sínar og hvort opinber fjölskyldustefna taki mið af fjölbreytilegum fjölskylduformum. Skráning á málþingið fer fram á vef velferðarráðuneytisins - Sjá: HÉR Velferðarvaktin heldur málþingið í samstarfi við velferðarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Heimili og skóla, Kennarasamband Íslands og Félag stjúpfjölskyldna. Nánar um málþingið, dagskrá og skráningu á heimasíðu velferðarráðuneytis HÉR

Málstofa í Háskólanum á Akureyri fimmtudaginn 28. nóvember

Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi býður Háskólinn á Akureyri til málstofu þar sem Sigrún Sigurðardóttir lektor við heilbrigðisvísindasvið fjallar um afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku fyrir heilsufar og líðan unglinga og veltir upp spurningunni hvort drengir og stúkur sýni sömu einkenni og viðbrögð eftir ofbeldi. Mikilvægt er að þekkja einkenni og afleiðingar kynferðislegs ofbeldis og vera þannig betur í stakk búin til að greina ofbeldið og veita stuðning og umhyggju. Fyrirlesturinn á sérstaklega erindi til foreldra, starfsfólks í heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu, lögreglu, félagsþjónustu svo og allra þeirra sem vinna með börnum og unglingum. Málstofan er öllum opin og fer fram á milli klukkan 12:10 – 12:55 Ath:Erindið verður sent út í beinni útsendingu í vefvarpi háskólans á slóðinni http://www.unak.is/haskolinn/vefvarp Hægt verður að hlusta á erindið í vefvarpinu daginn eftir flutning. Nánari upplýsingar HÉR

Ný upplýsingasíða aðgerðahóps um launajafnrétti

Aðgerðahópur stjórnvalda um launajafnrétti hefur opnað upplýsingasíðu á vefsvæði velferðarráðuneytisins. Í aðgerðahópnum sitja aðilar vinnumarkaðarins og hefur hópurinn það verkefni að vinna að samræmingu launarannsókna, gera áætlun um kynningu jafnlaunastaðals ásamt því að vinna að upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja. Upplýsingasíðuna má sjá HÉR Forsaga skipunar aðgerðahópsins er sú að í desember 2011 skipaði velferðarráðherra framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem ætlað var að samhæfa aðgerðir til að draga úr launamisrétti kynja og vinna að aðgerðaáætlun stjórnvalda sem birt var haustið 2012. Ein af tillögum í aðgerðaáætluninni er skipan aðgerðahóps sem hefur það hlutverk að  vera samstarfs- og samráðsvettvangur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Þann 24. október 2012 undirrituðu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins viljayfirlýsingu um samstarfið og í desember sama ár var aðgerðahópurinn skipaður. Formaður aðgerðahópsins er Anna Kolbrún Árnadóttir.