Fréttir

Ráðstefna um karla og karlmennskurannsóknir

Þann 4.-6. júní verður haldin stór Norræn ráðstefna í Reykjavík um karla og karlmennskurannsóknir undir yfirskriftinni: Emerging ideas in masculinity research - Masculinity studies in the North. Ráðstefnan er samstarfsverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar á formennskuári Íslands og norræns netverks um karla og karlmennskurannsóknir en þetta er þriðja Norræna rástefnan í þessu samstarfi.

Málþing um valdeflandi starf með börnum og unglingum

Jafnréttisstofa, í samstarfi við Embætti landlæknis og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar standa að málþingi þann 4. júní næstkomandi. Frummælandi er fræði- og listakonan Dr. Dana Edell. Hún fjallar um birtingarmyndir klámvæðingar og áhrif klámvæðingar á kynímynd unglinga.  Þorsteinn V. Einarsson verkefnisstjóri félagsmiðstöðvarinnar Dregyn segir frá tildrögum þess að unglingsdrengir í Grafarvogi vöktu athygli á áhrifum staðalmynda með því að bera naglalakk. Þá mun Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis, fjalla um áhrif staðalmynda og hvernig vinna má gegn þeim í skóla og frístundastarfi. Sjá kynningu

Þórgunnur Oddsdóttir stóð sig best í jafnréttisátaki Landans

 Á facebook síðu Landans – frétta og þjóðlífsþætti RÚV, segir frá því að síðastliðið haust hafi sérstöku jafnréttisátaki Landans verið hrundið af stað. Markmið átaksins var að jafna hlut kynjanna meðal viðmælenda en rannsóknir hafa einmitt sýnt að karlar eru um 70% þeirra sem rætt er við í fréttum og á ljósvakamiðlum. Til að fylgjast með framgangi átaksins var notast við svokallað kynjabókhald. Hver þáttur var skoðaður með það að markmiði að viðmælendur væru jafnt karlar og konur og hver umsjónarmaður var ábyrgur fyrir sínu kynjabókhaldi. Niðurstöður vetrarins sýna að konur voru 46% viðmælenda.

Norrænt samstarf um jafnari hlut kvenna í fjölmiðlum

Síðastliðin ár hefur krafa til fjölmiðla um að vinna gegn staðalímyndum kynja og tryggja jafnan sýnileika karla og kvenna aukist til muna. Með Pekingsáttmálanum hafa ríki sameinuðu þjóðanna þegar skuldbundið sig til að vinna að jöfnum rétti og jöfnu aðgengi karla og kvenna að þjóðfélagsumræðu og fjölmiðlum. Í ár, 2014, hóf Nordicom, Norrænt þekkingarsetur á sviði fjölmiðlarannsókna, vinnu við að auka umræðu um stöðu kynjajafnréttis í fjölmiðlum á Norðurlöndunum. Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og ber heitið „Nordic Gender & Media Forum“. Markmið þess er að safna upplýsingum og gögnum um stöðu jafnréttismála á sviðum kvikmynda, frétta, auglýsinga og tölvuleikja. Á heimasíðu verkefnisins má finna upplýsingar um viðburði og fundi sem haldnir verða á árinu. 

Barátta gegn kynbundnu ofbeldi: Norrænt málþing haustið 2014

Málþing verður haldið á Grand hótel Reykjavík 25. september um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi. Norræna ráðherranefndin, velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið og Jafnréttisstofu efna til þess í tengslum við formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Málþingsstjóri verður Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Stuttmyndasamkeppni um jafnrétti á Norðurlöndum

Á þessu ári eru 40 ár liðin síðan Norðurlöndin hófu að starfa saman að jafnréttismálum. Af því tilefni verður ýmislegt gert til þess að halda uppá samstarfið. Ef þú ert á aldrinum 15-25 ára getur þú tekið þátt í stuttmyndakeppni um jafnrétti, þar sem lagt er upp með að spyrja hversu langt við erum komin í jafnréttismálum, hvaða þýðingu jafnréttismál hafa og hvað Norðurlöndin geta gert til þess að verða enn betri í jafnréttismálum. Fyrir fyrstu verðlaun í keppninni verða veittar 25.000 danskar krónur.  Nánari upplýsingar um skilyrði þátttöku er að finna á heimasíðu Norræns samstarfs

Mitt verk eða þitt?

Hvernig gengur þér að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf? Hjá sumum gengur ótrúlega vel að púsla þessu saman á meðan aðrir eiga í stökustu vandræðum með að láta hlutina ganga upp. Fræðslumyndbandið Mitt verk eða þitt? sýnir hvernig tvær íslenskar fjölskyldur takast á við verkefnið. Í myndbandinu segir frá rannsóknum sem sýna að þrátt fyrir aukna atvinnuþátttöku íslenskra kvenna virðist ábyrgð á heimili og börnum hvíla þyngra á þeim. Myndbandið sem er hugsað sem fræðsluefni fyrir skóla og atvinnulíf má einnig nálgast á heimasíðunni www.hiðgullnajafnvægi.is

Þinn réttur – endurskoðuð útgáfa komin út

Önnur útgáfa upplýsingaritsins Þinn réttur, mikilvægar upplýsingar fyrir erlendar konur á Íslandi er komin út. Ritið er gefið út af Jafnréttisstofu í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands og styrkt af Progress áætlun Evrópusambandsins. Útgáfan er ætluð erlendum konum á Íslandi og öðrum sem vilja fræðast um lagaleg réttindi og skyldur. Ritið er gefið út á ensku, pólsku, tælensku, spænsku, rússnesku og arabísku, ásamt íslensku.

Leiðir til að sporna gegn mansali - skýrsla á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar

Árið 2011 samþykktu Samstarfsráðherrar Norrænu ráðherranefndarinnar (MR-SAM) að setja á stofn áætlun til að sporna gegn mansali. Áætlunin hefur meðal annars að markmiði að efla samstarf um leiðir til að greina mansal við landamæri ásamt því að standa fyrir sérstökum fræðslufundum aðila sem vinna að málaflokki mansals í Rússlandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen ásamt Norðurlöndunum.

Fjölmennur fundur um fjölbreytta forystu

Í dag fór fram fundur Jafnréttisstofu og Félags Kvenna í Atvinnulífinu á Norðurlandi (FKA) um faglega og fjölbreytta forystu í fyrirtækjum. Jafnréttisstýra Kristín Ástgeirsdóttir opnaði fundinn og minntist niðurstaðna rannsókna sem sýna hvernig fjölbreytni í mannauði getur skilað fyrirtækjum betri niðurstöðu í rekstri.