Fréttir

Jafnréttisáætlanir skólanna eiga að tryggja framþróun í jafnréttismálum

Mikill meirihluti leik- og grunnskóla hefur sett sér jafnréttisáætlun í samræmi við skyldur skv. jafnréttislögum. Þegar Jafnréttisstofa kallaði hins vegar eftir upplýsingum um hvernig gengi að framfylgja áætlunum svar svarhlutfall dræmt. Þetta kemur fram í samantekt Bergljótar Þrastardóttur sérfræðings hjá Jafnréttisstofu.

Úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands

Þann 19. júní var styrkjum úr Jafnréttissjóði Íslands úthlutað við hátíðlega athöfn á Hótel Borg. Jafnréttisstofa er samstarfsaðili í tveimur verkefnefnum sem hlutu styrk. Annað verkefnið heitir „Konur upp á dekk!“ og er samstarfsverkefni AkureyrarAkademíunnar, Starfsgreinasambandsins, Jafnréttisstofu og JCI Sprota. Í janúar 2018 stóðu AkureyrarAkademían, Jafnréttisstofa og JCI Sproti fyrir námskeiðinu „Konur upp á dekk! Hagnýt fræðsla og samræðuþing um stjórnmál“ sem haldið var á Akureyri. Markmið þess var fyrst og fremst að auka hlut kvenna í bæjarstjórnarkosningunum sem fram fóru í maí sl. Verkefnið heppnaðist svo vel að full ástæða þótti til að þróa það enn frekar. Allir samstarfsaðilarnir ásamt Starfsgreinasambandinu ákváðu því í sameiningu að sækja um styrk í Jafnréttissjóð Íslands til að standa fyrir sambærilegum námskeiðum á sex stöðum á landinu sem væru sérsniðin að konum í verkalýðshreyfingunni. Meginmarkmið námskeiðanna er að stuðla að aukinni þátttöku kvenna bæði innan og í forystu verkalýðshreyfingarinnar en mjög hallar á konur á þessu sviði. Það er mikið ánægjuefni að verkefnið er styrkt með þessum hætti Við hlökkum til að hefja vinnuna og hitta kröftugar konur um land allt!

Hlutfall kynjanna í nefndum og ráðum heldur áfram að þróast í átt til jafnréttis

Komin er út skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Í skýrslunni er að finna greiningu á skiptingu kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárinu 2017 auk þess sem farið er yfir þróun síðustu ára. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa eftirlit með framkvæmd hans.

Bann við allri mismunun

Frumvörp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna urðu að lögum frá Alþingi í gær. Með lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Þetta þykir mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af tilskipun Evrópuráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.

Skyldur sveitarfélaga samkvæmt jafnréttislögum

Jafnréttisstofa vekur athygli sveitarstjórna á ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem lúta að skyldum sveitarfélaga. Eftirfarandi ákvæði eiga sérstaklega við sveitarfélögin: • 12. gr. laganna kveður á um að skipa skuli jafnréttisnefndir sem fjalla um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan viðkomandi sveitarfélags. Skulu nefndirnar m.a. hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára sem leggja skal fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar. • 15. gr. laganna kveður á um að þess skuli gætt við skipan í nefndir, ráð og stjórnir að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

Kynjajafnrétti á norðurslóðum

Jafnréttisstofa er þátttakandi í verkefninu Kynjajafnrétti á norðurslóðum (Gender Equality in the Arctic) ásamt utanríkisráðuneytinu og Norðurslóðanetinu. Verkefnið byggir á fyrra verkefni sem unnið var á árunum 2013-2015 og endaði með ráðstefnunni Gender Equality in the Arctic – Current Realities, Future Challenges sem haldin var á Akureyri haustið 2014. Niðurstöður þeirrar ráðstefnu er að finna hér.

Jafnrétti fyrir alla?

Í síðustu viku komu þeir Gísli Björnsson og Ragnar Smárason, verkefnastjórar við Háskóla Íslands, í heimsókn til Jafnréttisstofu til að fræðast um starfsemi stofunnar og jafnframt fræddu þeir starfsfólk Jafnréttisstofu um rannsókn sem þeir vinna að en hún snýst um aðgengi karla með þroskahömlun að jafnréttisstarfi og ber yfirskriftina Jafnrétti fyrir alla?

Samnorræn jafnlaunavottun

Norræna velferðarnefndin vinnur að því að koma á fót samnorrænni jafnlaunavottun að íslenskri fyrirmynd sem ætlað er að loka launabilinu milli kvenna og karla. Munurinn mælist nú að jafnaði um 15% á Norðurlöndunum. Nefndin fundaði á Akureyri í gær og heimsótti m.a. Jafnréttisstofu.

Félags- og jafnréttismálaráðherra í heimsókn

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttisráðherra, heimsótti Jafnréttisstofu í vikunni, ásamt Sóleyju Ragnarsdóttur, aðstoðarmanni sínum. Starfsfólk átti góða stund með ráðherra þar sem meðal annars var rætt það helsta sem er á döfinni í jafnréttismálum og verkefni Jafnréttisstofu, þau sem eru í vinnslu og einnig tilvonandi verkefni á komandi misserum.

Bæklingur um áreitni á þremur tungumálum

Allt launafólk á rétt á því að njóta skilyrðislausrar verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað. Mikilvægt er að allir starfsmenn þekki sín réttindi. Nú er kominn út bækling á íslensku, ensku og pólsku þar sem farið er yfir rétt starfsfólks þegar kemur að kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Að bæklingnum standa ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa. Íslensk útgáfa bæklingsins var fyrst gefin út á alþjóðlegum baráttudegi kvenna árið 2016. Hann er nú endurútgefinn auk þess sem hann hefur verið þýddur á ensku og pólsku.