Fréttir

Engin kona lokið sveinsprófi í stálsmíði

Ágústa Sveinsdóttir og Ólafur Sveinn Jóhannesson starfsmenn Tækniskóla Íslands heimsóttu Akureyri í gær og kynntu verkefnið #Kvennastarf á jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri. Í máli þeirra kom fram að 32.641 karlar hafa lokið sveinsprófi í löggildri iðngrein á Íslandi eða 84%. Konur sem lokið hafa sama prófi eru 5.151 eða 16%. Einungis 4 konur hafa lokið sveinsprófi í pípulögnum og enn í dag hefur engin kona lokið sveinspróf í stálsmíði. Frekari upplýsingar og áhugaverð myndbönd sem taka á kynbundnu náms- og starfsval má finna á slóðinni www.kvennastarf.is

Alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti

Starfsfólk Jafnréttisstofu stóð upp frá vinnu sinni í gær klukkan ellefu ásamt fleira fólki og myndaði hring á bílastæðinu fyrir utan Borgir á Akureyri til að sýna á táknrænan hátt samstöðu gegn kynþáttamisrétti. Tilefnið var að í gær 21. mars var alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi þessa dagsetningu til að minnast 69 mótmælenda sem myrtir voru 21. mars árið 1960 er þeir tóku þátt í mótmælum gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku.

#Kvennastarf

Jafnréttistorg miðvikudaginn 22. mars kl. 12.00-12.50 í Háskólanum á Akureyri. Þar munu Ágústa Sveinsdóttir, markaðsfulltrúi Tækniskóla Íslands, og Ólafur Sveinn Jóhannesson, deildarstjóri markaðs- og kynningardeildar skólans, fjalla um átakið #Kvennastarf og eiga samtal við áheyrendur um efnið. Jafnréttistorgið verður í stofu M-102 og er öllum opið án endurgjalds. Það er Tækniskólinn og Samtök iðnaðarins, í samstarfi við alla iðn- og verkmenntaskóla á landinu, sem standa að átakinu. Markmiðið er að hvetja stelpur og ungt fólk almennt til að skoða alla möguleika í vali á námi og framtíðarstarfi og horfa opnum augum á hvar áhugasvið þeirra liggur. Allir eiga að geta starfað við það sem þá langar til. Jafnréttistorgin eru samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri.

Yfirlit um jafnréttismál á ensku

Jafnréttisstofa hefur nú gefið út nýtt yfirlit um jafnréttismál á ensku. Útgáfan inniheldur upplýsingar um stöðu jafnréttismála, tengsl málaflokksins við stjórnsýslu og rannsóknir ásamt umfjöllun um þá fjölmörgu aðila sem vinna að kynjajafnrétti á Íslandi.  Útgáfan er kaflaskipt til að einfalda framsetningu og veita gleggri yfirsýn. Á mörgum stöðum er vísað í lesefni, rannsóknir og heimsíður viðeigandi stofnana og samtaka.  Skjalið er aðgengilegt á pdf-formi HÉR

Fullt út úr dyrum á Akureyri

Tæplega tvöhundruð manns sóttu hádegisfund á Akureyri í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna. Umfjöllunarefni fundarins var líðan ungs fólks. Frummælendur voru Ingibjörg Auðunsdóttir fyrrverandi sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri, menntaskólakennarinn Arnar Már Arngrímsson handhafi verðlauna Norðurlandaráðs í barna- og unglingabókmenntum 2016 og Karólína Rós Ólafsdóttir nemandi við Menntaskólann á Akureyri og formaður FemMa Femínistafélags skólans.

KONUR OG KARLAR Á ÍSLANDI 2017

Bæklingurinn Konur og karlar á Íslandi 2017 er kominn út. Í bæklingnum má finna ýmsar upplýsingar um stöðu kvenna og karla í íslensku samfélagi. Jafnréttisstofa er útgefandi bæklingsins í samstarfi við Hagstofu Íslands og velferðarráðuneytið. Í bæklingnum kemur fram að karlar hafa hærri laun en konur, þeir eru fjölmennari í áhrifastöðum og sem viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum. Konur lifa hins vegar lengur en karlar, þær eru fjölmennari í háskólanámi og taka frekar fæðingarorlof. Bæklingurinn er gefinn út á ensku og íslensku. Hægt er að nálgast útgáfuna hér á heimasíðunni á íslensku og ensku. Einnig er hægt að panta eintök með því að senda póst til Jafnréttisstofu á netfangið jafnretti@jafnretti.is 

ALÞJÓÐLEGUR BARÁTTUDAGUR KVENNA

Jafnréttisstofa minnir á hádegisfundi í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna miðvikudaginn 8. mars. Á Grand hótel Reykjavík er yfirskrift fundarins Öll störf eru kvennastörf! Brjótum upp kynbundið náms- og starfsval. Dagskrá fundarins má finna hér. Í anddyri Borga á Sólborgarsvæðinu á Akureyri verður hins vegar fjallað um ungt fólk og er yfirskriftin Líðan ungs fólks. Hvað er til ráða?  Dagskrá fundarins má finna hér. Báðir fundirnir hefjast klukkan 11:45.

Styrkir til náms í leikskólakennarafræðum

Ákveðið hefur verið að ráða þrjá karlkyns verkefnisstjóra og veita þeim styrk að upphæð 1.000.000 kr. til að hefja nám á meistarastigi haustið 2017 sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.  Það eru Samband íslenskra sveitarfélaga, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla sem hafa tekið höndum saman til að vinna að verkefni undir yfirskriftinni „Karlar í yngri barna kennslu“.

Líðan ungs fólks

Í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna miðvikudaginn 8. mars n.k. er boðað til hádegisfundar að Borgum við Norðurslóð á Akureyri frá kl. 11.45-13.15. Fyrirlesarar verða Ingibjörg Auðunsdóttir, Arnar Már Arngrímsson og Karólína Rós Ólafsdóttir. Umfjöllunarefni fundarins er líðan ungs fólks.

Öll störf eru kvennastörf!

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars n.k. er boðað til hádegisverðarfundur á Grand hótel Reykjavík kl. 11.45-13.00. Að fundinum standa: Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja.