Fréttir

RÁÐSTEFNA UM MÁL OG KYN

10. norræna ráðstefnan um mál og kyn verður haldin í Háskólanum á Akureyri dagana 20.-21. október 2017. Jafnréttisstofa vill vekja athygli á að tillögur að málstofum skulu sendast á netfangið finnurf[at]unak.is fyrir 30 maí.

Jafnréttisráðherra í heimsókn

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra heimsótti Jafnréttisstofu síðastliðinn föstudag og átti góða stund með starfsfólki þar sem hann fór meðal annars yfir það helsta sem er á döfinni í jafnréttismálum. Bar þar hæst frumvarp jafnréttisráðherra um jafnlaunavottun sem nú er til afgreiðslu í þinginu. Sagðist ráðherra binda miklar vonir við vottunina sem verkfæri í baráttunni við kynbundinn launamun.

EINN BLÁR STRENGUR

Ráðstefnan Einn blár strengur verður haldin í Háskólanum á Akureyri laugardaginn 20. maí. Verkefnið á uppruna sinn í Bandaríkjunum og miðar að því að vekja athygli á því að einn af hverjum sex drengjum verður fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. Einn blár strengur af sex strengjum í gítarnum vísar því í einn af hverjum sex drengjum. SKRÁNING HÉR

Rakarastofuráðstefna í Norræna húsinu

Í tilefni af formennskuári Íslands í Eystrasaltsráðinu verður haldin ráðstefna um karla og kynjajafnrétti í Norræna húsinu þann 23. maí næstkomandi. Markmið ráðstefnunnar er að virkja karlmenn í baráttunni gegn mansali og efla þátttöku þeirra í úrræðum gegn kynbundnu ofbeldi.  Fyrsta rakarastofuráðstefnan var haldin í janúar 2015 þegar Ísland og Súrinam stóðu sameignlega að rakarastofuráðstefnu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Þátttakendur og frummælendur á ráðstefnunni, þann 23. maí, munu koma frá félagasamtökum, stofnunum og alþjóðlegum samtökum sem láta sig málefnið varða. Ráðstefnan, sem fer fram á ensku, er haldin í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina og upplýsingar um dagskrá og skráningu má finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Jafnréttisstofa hlaut styrk frá ESB

Jafnréttisstofa hefur hlotið styrk frá ESB til að setja af stað verkefni gegn ofbeldi í nánum samböndum. Verkefnið verður unnið í samstarfi við innanríkisráðuneytið, velferðarráðuneytið, Ríkislögreglustjóra, Lögregluna á Höfuðborgarsvæðinu, Lögregluna á Norðurlandi eystra, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ. Meginmarkmið verkefnisins er að uppræta ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi og er lagt upp með að tilkynningum til lögreglu muni fjölga um 20% á þeim rúmu tveimur árum sem verkefnið stendur. 

Ráðstefnan Mál og kyn

10. norræna ráðstefnan um mál og kyn verður haldin í Háskólanum á Akureyri dagana 20.-21. október 2017. Ráðstefna þessi er nú haldin í fyrsta sinn á Íslandi en hún er helsti vettvangur norræns fræðafólks til fræðilegrar umræðu á þessu sviði rannsókna. Ráðstefnan á rætur sínar innan málvísinda og hefur þannig einkum höfðað til þeirra sem fást með einum eða öðrum hætti við mál og kyn innan ramma félagslegra málvísinda, orðræðu- og/eða samtalsgreiningar, mállýskufræða, málsögu eða annarra greina málvísinda, en hún er þó ekki síður opin fræðafólki sem nálgast þetta efni frá sjónarhóli félagsfræði, kynjafræði, bókmenntafræði, menntunarfræði og fleiri greina.

Erindi nemenda vakti mikla athygli

Fjórir nemendur VMA, Arnaldur Skorri Jónsson, Hrannar Þór Rósarson, Íris Hrönn Garðarsdóttir og Laufey Ipsita Stefánsdóttir, vöktu mikla athygli á ráðstefnu um jafnrétti í skólastarfi sem haldin var í Háskólanum á Akureyri s.l. laugardag. Að ráðstefnunni stóðu Miðstöð skólaþróunar HA og Jafnréttisstofa. Arnaldur Hrannar, Íris og Laufey tóku kynjafræði sem valáfanga, hjá Snorra Björnssyni, í námi sínu í VMA. Í erindi sem þau fluttu á ráðstefnunni sögðu þau frá upplifun sinni og reynslu af áfanganum og hvernig þau tengdu hann áhugamálum sínum og daglegu lífi. Einnig leituðu þau svara við spurningunni hvers vegna kynjafræði og hvort kynjafræði skipti máli í lífi ungs fólks.

Frumvarp um jafnlaunavottun lagt fram á Alþingi

Frumvarp Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem kveður á um lögfestingu skyldu til jafnlaunavottunar meðal fyrirtækja með 25 eða fleiri starfsmenn hefur verið lagt fram á Alþingi. Meginmarkmið frumvarpsins er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir einkar ánægjulegt að leggja fram þetta mikilvæga mál: „Ég bind miklar vonir við að jafnlaunavottun verði raunverulegt tæki til að sporna við kynbundnum launamun sem er því miður enn veruleiki á Íslandi.“

Jafnrétti í skólastarfi

Rúmlega hundrað manns sóttu árlega vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar Háskólans á Akureyri sem haldin var laugardaginn 1. apríl s.l. Þema ráðstefnunnar, sem að þessu sinni var haldin í samstarfi við Jafnréttisstofu, var jafnrétti í skólastarfi en jafnrétti er einn af grunnþáttum íslenskrar menntastefnu. Aðalfyrirlesarar voru Guðný Guðbjörnsdóttir prófessor við Menntavísindasviði HÍ, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við Menntavísindasvið HÍ, Íris Hrönn Garðarsdóttir, Arnaldur Skorri Jónsson, Laufey Ipsita Stefánsdóttir og Hrannar Þ Rósarson nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri. Auk þess var fjöldi áhugaverðra erinda í boði í þremur málstofulotum.

Jafnrétti í skólastarfi

Vorráðstefna Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri verður haldin laugardaginn 1. apríl 2017 í samstarfi við Jafnréttisstofu. Þema ráðstefnunnar er jafnrétti í skólastarfi og er efni hennar ætlað að höfða til allra skólastiga. Aðalfyrirlesarar verða Dr. Guðný Guðbjörnsdóttir og  Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, en þau eru bæði prófessorar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Einnig munu nemendur við Verkmenntaskólann á Akureyri fjalla um upplifun sína og reynslu af kynjafræðiáfanga í framhaldsskóla. Auk aðalfyrirlestra verður boðið upp á 23 málstofuerindi og/eða smiðjur þar sem reifuð verða ýmis mál er lúta að jafnrétti í skólastarfi í víðum skilningi.