Fréttir

Upprætum kynferðislega áreitni á vinnustöðum

Þriðjudaginn 25. október kl. 8:00 - 10:00 heldur Vinnueftirlitið í samstarfi við Velferðarráðuneytið morgunfund í Gullteig á Grand Hóteli. Fundarstjóri verður Ásta Snorradóttir, fagstjóri hjá Vinnueftirlitinu Fundurinn er öllum opinn. Þátttökugjald er kr. 3.000,- og er morgunverður innifalinn. Skráðu þig hér Tengd skjöl: Enginn á að sætta sig við einelti, áreitni eða ofbeldi: Leiðbeiningarrit fyrir starfsfólk Sættum okkur ekki við einelti, áreitni eða ofbeldi: Leiðbeiningarrit fyrir stjórnendur, mannauðsráðgjafa og vinnuverndarfulltrúa

Jafnréttistorg: Ímynd og staða íslenskra kvenna - ákveðin mótsögn?

Á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) miðvikudaginn 26. október, kl. 12.00-12.50, mun dr. Guðný Gústafsdóttir fjalla um spurninguna ímynd og staða íslenskra kvenna – ákveðin mótsögn? og eiga samtal við áheyrendur um efnið. Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Ímynd kvenna á Íslandi samtímans hefur verið samofin kynjajafnrétti. Ímyndin á rætur í sögunni og var á síðustu áratugum styrkt með félagslegum athöfnum, svo sem kosningu Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta árið 1980 og framboði Kvennalista til Alþingis. Þegar ímyndin er mátuð við stöðu kvenna kemur í ljós ákveðin mótsögn. Þrátt fyrir framgang kvenna, formlegt kynjajafnrétti, mikla menntun og atvinnuþátttöku, hafa völd og áhrif kvenna í hinu opinbera rými haldist takmörkuð. Í doktorsritgerðinni var leitast við að varpa ljósi á þessa mótsögn með því að greina hugmyndir um kvenleika og þann þegnrétt sem þeim fylgdi í orðræðu tímarita sem gefin voru út á tímabilinu 1980-2000. Ímynd hins kvenlega þegns á Íslandi samtímans er greind með hliðsjón af menningarbundnum, pólitískum og hugmyndafræðilegum áhrifavöldum. Dr. Guðný Gústafsdóttir er menntuð í félagsfræði og norrænum og þýskum bókmenntum, auk rekstrar- og viðskiptafræði. Hún hefur meistarpróf (MA) í kynjafræði frá Háskóla Íslands 2009, og doktorspróf (PhD) í kynjafræði frá Háskóla Íslands 2016. Guðný starfar við kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands. Torgið verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.

Rjúfum hefðirnar - förum nýjar leiðir

Nú í sumar fékk Jafnréttisstofa styrk úr Jafnréttissjóði Íslands til verkefnisins Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir. Markmið verkefnisins er að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla, sbr. 4. gr. jafnréttislaga. Miðvikudaginn 12. október, kynnti Arnfríður Aðalsteinsdóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, og Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, sviðsforseti heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri, verkefnið í tengslum við jafnréttisdaga háskólanna.

Kjarajafnrétti strax!

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Austurvelli, kl. 15:15 undir kjörorðinu KJARAJAFNRÉTTI STRAX!  Meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38. 

Burt með launamuninn

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins kynnir tillögur um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum á morgunverðarfundi á Reykjavík Hilton Nordica, mánudaginn 24. október næstkomandi kl. 8.00–10.30.  Samhliða kynningu á tillögum aðgerðahópsins mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, opna vefsíðu jafnlaunastaðalsins og kynna nýtt jafnlaunamerki. Á fundinum verður jafnframt sagt frá tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins og forystufólk atvinnulífsins tekur þátt í pallborðsumræðum um hvernig hrinda megi tillögum um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum í framkvæmd. 

Jafnréttisdagar Háskóla Íslands 2016

Jafnréttisdagar eru nú haldnir áttunda árið í röð í Háskóla Íslands. Að þessu sinni hefst dagskráin mánudaginn 10. október og lýkur föstudaginn 21. október. Sem fyrr er ókeypis á alla viðburði Jafnréttisdaga og aðgangur öllum heimill. Jafnréttisdagar tvinna saman hinar ýmsu víddir jafnréttis og femínísma og skoða fjölbreytileika, forréttindi, þöggun, jafnréttisbaráttu, vald og mismunun. Áhersla er lögð á þau tækifæri sem skapast með því að setja hugmyndir um normið – hið „eðlilega“ – og hið undirskipaða undir smásjána. Dagskráin er fjölbreytt og byggir á þverfaglegu samstarfi þar sem gerð er tilraun til að sameina hátíðarbrag og gagnrýna sýn stöðu jafnréttismála. Leitast er við að skapa opna umræðu og aukinn skilning á jafnrétti ásamt því að auka sýnileika jafnréttismála og virkja slagkraft þeirra fjölmörgu aðila sem vinna að jafnrétti. Allir háskólar landsins taka þátt í jafnréttisdögum og má finna upplýsingar um dagskrá annarra háskóla á heimasíðum þeirra. Að öðru leyti er hægt að fylgjast með Facebooksíðu Jafnréttisdaga til að fá upplýsingar um viðburði allra háskólanna.

Jafnréttisdagar Háskólans á Akureyri

Jafnréttisráð Háskólans á Akureyri stendur fyrir dagskrá á Jafnréttisdögum sem fara fram í Háskólanum á Akureyri dagana 10. – 13. október næstkomandi. Dagskráin er afar fjölbreytt en jafnréttisdagarnir eru samstarfsverkefni allra háskóla í landinu. Þemað í ár er ljósið. Opnun Jafnréttisdaga í Háskólanum á Akureyri hefst mánudaginn 10. október klukkan 9.30 á því að kveikt verður á kertum og ljósaseríum í Miðborg, anddyri skólans, en síðan mun Anna Richardsdóttir, listakona, fremja þar „Hreingjörning“. Þar á eftir, kl. 10.00, mun FSHA (Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri) og alþjóðadeild skólans standa fyrir jafnréttis- og tungumálakaffi en þar geta gestir keypt kaffi og „jafnréttismúffur“. Auk þess gefst tækifæri til að fræðast um erlend tungumál og spreyta sig á þeim.  Í Miðborg hefur verið sett upp örsýningin „Jafnrétti í augnsýn“ þar sem markmiðið er að minna gesti á hin víðfemu svið jafnréttismála og vekja þá til umhugsunar. Þriðjudaginn 11. október verður opnað Heimspekikaffihús kl. 10 á bókasafni HA í umsjón Margrétar Elísabetar Ólafsdóttur, lektors við kennaradeild. Þar mun Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri LA, ræða um liðveislu sviðslista í jafnréttisbaráttunni og aðferðafræði samyrkju í sviðslistum. Hádegisfyrirlestrar verða haldnir frá mánudegi til fimmtudags og er efni þeirra fjölbreytt. Á mánudag fjallar Hans Jónsson um stöðu hinsegin fólks á Íslandi og á þriðjudag spyr Hildur Friðriksdóttir hvort þörf sé á lagalegri skilgreiningu á hrelliklámi. Á miðvikudeginum verður verkefnið Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir kynnt en þar er á ferðinni samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri ásamt öðrum. Á fimmtudag fjallar Margrét Nilsdóttir um BDSM og jafnrétti. Dagskrá Jafnréttisdaga líkur með lokahófi á vegum FSHA í anddyrinu á Borgum, fimmtudaginn, 13. október, kl. 18-21. Á dagskrá er jafnréttis-quiz í umsjón Bjarka Freys Brynjólfssonar og hljómsveitin Gringlombian spilar. Léttar veitingar verða í boði FSHA. Hér má sjá dagskránna í heild sinni.

JAFNRÉTTISMÁL ERU SVEITARSTJÓRNARMÁL

Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál var yfirskrift landsfundar um jafnréttismál sem haldinn var á Akureyri föstudaginn 16. september. Rúmlega sextíu manns frá 17 sveitarfélögum sátu landsfundinn sem boðað var til af Akureyrarbæ í samstarfi við Jafnréttisstofu. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Síðan tók Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra við fundarstjórn.

Stundin er runnin upp

Á þessu ári eru 40 ár liðin frá því að fyrstu jafnréttislögin voru sett  og Jafnréttisráð var stofnað. Á 16 ára afmælisdegi Jafnréttisstofu 15. september síðast liðinn efndu Jafnréttisráð og stofan til ráðstefnu undir heitinu „Stundin er runnin upp“ en það er tilvitnun í textann Áfram stelpur frá árinu 1975. Eins og allir vita er Jafnréttisstofa staðsett á Akureyri og því þótti við hæfi að halda afmælisráðstefnuna þar. Daginn eftir var landsfundur um jafnréttismál í sveitarfélögunum einnig á Akureyri og því rík ástæða til að tengja þessa viðburði saman. 

Jafnréttisstarf í friðaruppbyggingu: Framlag friðar- og átakafræða

Á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) miðvikudaginn 21. september, kl. 12.00-12.50, mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu fjalla um jafnrétti, konur, frið og öryggi og eiga samtal við áheyrendur um efnið. Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Allir velkomnir. Með ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur frið og öryggi, sem var samþykkt árið 2000, viðurkenndi Öryggisráðið í fyrsta skipti sérstöðu kvenna á átakasvæðum og mikilvægi framlags þeirra til friðar. Ályktunin hefur haft áhrif á áherslur og starf alþjóðastofnana sem vinna að friðaruppbyggingu, þar sem nú er sérstaklega kveðið á um skyldur þeirra til að vinna að jafnrétti og taka mið af kynjasjónarmiðum. Friðar- og átakafræði fást við að greina hættu á átökum og vekja athygli á ástæðum þeirra. Meðal markmiða fræðasviðsins er vera leiðbeinandi fyrir þá sem fara með framkvæmd uppbyggingarstarfs á átakasvæðum. Í erindinu fjallar Tryggvi um vandamál og álitamál sem komið hafa upp vegna innleiðingar markmiða í fyrrgreindri ályktun. Umfjöllunin tekur mið af raunverulegum verkefnum í friðargæslu með sérstakri áherslu á áskoranir sem felast í jafnréttisstarfi í umhverfi mismunandi andstöðu. Tryggvi Hallgrímsson er félagsfræðingur og hefur MA gráðu í skipulagsheildum og stjórnun frá Háskólanum í Tromsö í Noregi. Hann hefur starfað sem sérfræðingur á Jafnréttisstofu frá árinu 2008. Torgið verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.