Fréttir

Formennskuáætlun Noregs í norrænu ráðherranefndinni

Árið 2017 fer Noregur með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og hefur nú lagt fram áherslur sínar í jafnréttismálum.  Þær byggja á samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um jafnrétti kynja 2015-2018 sem ber yfirskriftina Saman í þágu jafnréttis – öflugri Norðurlönd. Áherslur ársins eru að vinna gegn ofbeldi og hatursorðræðu, jafnrétti á vinnumarkaði og karlar og jafnrétti. Fyrsti viðburður ársins verður ráðstefna um jafnrétti á vinnumarkaði undir yfirskriftinni Vinnumarkaður framtíðarinnar sem haldin verður í Osló dagana 7.-8. febrúar.

Jafnrétti í skólastarfi

Árleg vorráðstefna Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) verður haldin 1. apríl n.k. í samstarfi við Jafnréttisstofu. Þema ráðstefnunnar er jafnrétti í skólastarfi.Samkvæmt gildandi menntastefnu er markmið jafnréttismenntunar að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag sem byggir á þessum gildum. 

Jafnréttisráðherra fundar með jafnréttisstýru

Þorsteinn Víglundsson nýr ráðherra jafnréttismála átti fund með Kristínu Ástgeirsdóttur framkvæmdastýru Jafnréttisstofu fyrr í vikunni. Til umræðu voru helstu verkefni sem framundan eru á sviði jafnréttismála  með áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði og innleiðingu jafnlaunastaðals. 

Meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins

María Rut Kristinsdóttir sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu var með áhugavert erindi í hádeginu í dag í boði Jafnréttisstofu. Tilefnið var 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Í erindi sínu kynnti María Rut fyrstu tillögur samráðshóps um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Fjölmennt lið lögreglu sótti fyrirlesturinn ásamt öðru fagfólki. Góðar og gagnlegar umræður sköpuðust og sagði María Rut umræðurnar gott veganesti inn í frekari vinnu samráðshópsins. Samráðshópnum, sem skipaður var í mars á þessu ári, er ætlað að kortleggja stöðu mála og leggja fram aðgerðaáætlun sem miðar meðal annars að því að tryggja réttaröryggi, vandaða málsmeðferð og auka traust á réttarvörslukerfinu. 

Ársskýrsla Jafnréttisráðs

Út er komin ársskýrsla Jafnréttisráðs fyrir tímabilið 2015-2016, en ráðið er ein af fastanefndum velferðarráðuneytisins og  starfar á grundvelli laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008. 

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins fjallar um kynjaða fjárhagsáætlunargerð

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins er pólitískur samstarfsvettvangur evrópskra sveitarfélaga og svæða. Ísland á þrjá fulltrúa á þinginu sem stjórn sambandsins tilnefnir til fjögurra ára í senn. Þingið kemur saman tvisvar á ári, að vori og hausti. Haustþingi er nýlega lokið og þar var samþykkt ályktun um kynjaða fjárhagsáætlanagerð. 

Fjölmiðlaumfjöllun og kynferðisbrot

Á opnum fundi Jafnréttisstofu, sem haldinn var í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi, hélt Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans fyrirlestur um mörk fjölmiðla í tengslum við fréttaflutning af kynferðisbrotum. Þórunn ræddi nokkur nýleg dæmi um slíka umfjöllun og spurði hvernig fréttaflutningur stæðist kröfur sem settar eru fram í siðareglum blaðamanna. 

„Umfjöllun um kynferðisbrot – hvar liggja mörk fjölmiðla?"

Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans verður með hádegisfyrirlestur í anddyri Borga við Norðurslóð á Akureyri á morgun þriðjudaginn 29. nóvember. Þar mun Þórunn velta fyrir sér hvar mörk fjölmiðla liggja þegar fréttir eru fluttar af kynferðisofbeldismálum. Fyrirlesturinn er hluti af dagskrá alþjóðlegs 16 daga átaks Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið er nú haldið í tuttugasta og fimmta sinn. Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO telur að þriðja hver kona í heiminum verði fyrir ofbeldi í nánum samböndum og fjórða hver kona verði fyrir einhvers konar kynbundnu ofbeldi. Ofbeldið er einstaklingunum afar dýrt líkamlega, andlega og félagslega og það kostar samfélagið gríðarlegar upphæðir. Að þessu sinni beina Sameinuðu þjóðirnar því til þjóða heims að sjá til þess að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi fái það fjármagn sem dugar til að sinna brotaþolum, tryggja meðferð ofbeldismanna, fræða almenning og skapa réttlæti við málsmeðferð.

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Alþjóðlegt 16 daga átak Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi hefst í dag 25. nóvember. Á Akureyri standa Zontaklúbbarnirá Akureyri fyrir ljósagöngu sem leggur af stað frá Akureyrarkirkju klukkan 17:00 í dag. Gengið verður niður á Ráðhústorg þar sem sem göngufólk tekur höndum saman gegn ofbeldi. Dagskrá 16 daga átaksins á Akureyri.

Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum

18. nóvember er helgaður vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun.  Af því tilefni vekur stýrihópur um aðgerðir gegn ofbeldi athygli á vef Vitundarvakningarinnar, með öllu efni sem framleitt var á árunum 2012 til 2015. Þar á meðal er myndin Fáðu já  fyrir táninga og Stattu með þér fyrir miðstig grunnskóla. Kennsluleiðbeiningar fylgja báðum myndunum. Bent er á teiknimynd Evrópuráðsins með íslensku tali: Segðu einhverjum sem þú treystir  sem var frumsýnd árið 2015. Einnig er vísað á kynningu fyrir uppalendur og alla sem vinna með börnum frá Róberti Spanó dómara við Mannréttindadómstól Evrópu.