Fréttir

Börnin njóti vafans

Mánudaginn 21. nóvember frá kl. 12:00 til 14:45 boða Háskólinn á Akureyri og Jafnréttisstofa til málþings í hátíðarsal skólans. Málþingið ber yfirskriftina „Börnin njóti vafans“ og fjallar um heimilisofbeldi og áföll. Dagskrána má finna hér.  Málþingið er liður í dagskrá árlegs alþjóðlegs 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Markmið átaksins er að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Hörmungar heimilisofbeldis koma okkur öllum við, -  hörmungarnar eru ekki einkamál þeirra sem þjást. Málþingið er lokaafurð námskeiðsins Sálræn áföll og ofbeldi sem kennt er í framhaldsnámi á heilbrigðisvísindasviði HA. Umsjónarmaður námskeiðsins er Sigrún Sigurðardóttir lektor við HA.

Ísland í fyrsta sæti í átta ár

Alþjóða efnahagsráðið hefur gefið úr hina árlegu Global Gender Gap Report þar sem sýnt er fram á árangur 114 landa í jafnréttismálum. Samkvæmt skýrslunni er Ísland í efsta sæti eins og síðustu 7 ár þegar kemur að árangri í jafnréttismálum. Þegar horft er til þeirra þátta sem mæla árangur landa kemur í ljós að Ísland er í fyrsta sæti þegar kemur að forystu kvenna á sviði stjórnmálanna og aðgengi að menntun.

Jafnrétti kynjanna hvergi meira en á Íslandi

Í nýrri skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins kemur fram að jafnrétti kynjanna er hvergi meira en á Íslandi. Norðurlöndin skipa efstu þrjú sæti listans, þar sem Noregur er í öðru sæti og Finnland er í því þriðja. Í skýrslunni er lagt mat á jafnrétti kynja í stjórnmálum, menntun, atvinnu og heilbrigði.

Vefgátt um jafnréttismál á Íslandi - á ensku

Kvenréttindafélag Íslands hefur opnað vefgátt á heimasíðu sinni þar sem erlendir gestir og blaðamenn geta nálgast upplýsingar um stöðu kvenna á Íslandi og jafnrétti kynjanna. Á þessari síðu er að finna lýsingar á og krækjur í greinar og skýrslur um stöðu kvenna og jafnrétti kynjanna á Íslandi sem skrifaðar hafa verið á ensku.

Ný vefsíða um jafnlaunastaðalinn

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, opnaði nýja vefsíðu um jafnlaunastaðalinn á morgunverðarfundi þann 24. október. Á fundinum var fjallað tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins en síðan er hluti af því verkefni og birtir greinargóðar upplýsingar um staðalinn og notkun hans. Staðallinn tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja hvers konar mismunun og hann nýtist atvinnurekendum til að bjóða starfsfólki réttláta og gagnsæja launastefnu.

Áfram stelpur og strákar komið þið með!

Saga, starfsmat, völd og virðing kvenna var til umræðu á hádegisfundi sem Jafnréttisstofa stóð fyrir í samstarfi við Akureyrarbæ í tilefni Kvennafrídagsins í gær. Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu rakti söguna og hvernig konur hafa ætíð verið til færri fiska metnar. Lengi vel höfðu þær einungis hálf laun á við karla og nú sýna tölur Hagstofunnar að konur hafa tæplega 30% lægri meðaltekjur af atvinnu en karlar. Mikið verk er því enn óunnið. Kristín lauk máli sínu á því að hvetja fundarmenn til dáða. „Áfram stelpur og strákar komið þið með.“

Heimilisofbeldi er ekki einkamál fjölskyldna heldur varðar samfélagið allt

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á Lögfræðitorgi Háskólans á Akureyri í stofu M101 nú í hádeginu. Þar fjallar Svala Ísfeld Ólafsdóttir um nýtt ákvæði í almennum hegningarlögum sem ætlað er að vinna gegn heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Einnig lýsir hún aðdraganda ákvæðisins og forsendum, efni þess og tilgangi, auk þeirra sjónarmiða sem það byggir á. Svala Ísfeld Ólafsdóttir er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og formaður refsiréttarnefndar.

RÚV, Kynjabilið og Björg Einarsdóttir hlutu fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs

Í dag, á Kvennafrídaginn þann 24.október, veitti Jafnréttisráð, ásamt ráðherra jafnréttismála, Eygló Harðardóttir sérstaka fjölmiðlaviðurkenningu í annað sinn. Fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs geta hlotið aðilar sem hafa skarað fram úr þegar kemur að umfjöllun um mál sem tengjast jafnrétti kynjanna. Í ár eru veittar viðurkenningar þremur flokkunum: a. RÚV hlýtur fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs 2016 fyrir metnaðarfullt jafnréttisátak til að jafna stöðu kynjanna í umfjöllun og meðal starfsfólks. b. Kynjabilið hlýtur fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs 2016 fyrir nýstárlega og spennandi framsetningu á fréttum og upplýsingum um ójafnrétti kynjanna í samfélaginu. c. Björg Einarsdóttir hlýtur fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs 2016 fyrir einstakt og óeigingjarnt starf við skrásetningu á sögu kvenna og umfjöllun um jafnréttismál.

Kvennafrídagurinn 24. október 2016

Í tilefni Kvennafrídagsins mánudaginn 24. október boða Jafnréttisstofa og Akureyrarbær til opins hádegisfundar á Hótel KEA. Á fundinum verður fjallað um launajafnrétti kynjanna en rannsóknir sýna að enn hallar á konur í launa- og kjaramálum. Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti lét vinna launakönnun sem tók til vinnumarkaðarins í heild. Í könnuninni sem tekur til áranna 2008 til 2013 kemur fram að kynbundinn launamunur er 7,6% á vinnumarkaðnum í heild; 7,8% á almennum vinnumarkaði og 7,0% á opinberum vinnumarkaði.

Kvennafrídagurinn á Seyðisfirði

Skólafólk á Seyðisfirði ætlar að hittast á Sólveigartorgi klukkan 15:00 í dag, Kvennafrídaginn, til að taka afstöðu með kjarajafnrétti. Seyðfirðingum er boðið að fjölmenna líka. Fundurinn er fyrst og fremst táknrænn gjörningur án ræðuhalda og eru konur og karlar hvött til að mæta. Til gamans má geta þess að Sólveigartorg var vígt þann 19. júní 2015, í tilefni af 100 ára kosningaafmælis kvenna.